Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Stór hluti túna á bæjum í Svarfaðardal er illa skemmdur af kali og ljóst er að á þeim verður ekki heyjað í sumar nema með róttækum aðgerðum. Helst er til ráða að endurvinna megi túnin fljótt og þá væri hægt að taka af þeim hafra eða rýgresi síðsumars sem sáð verður með grasfræi. Víðfeðm svæði í Svarfaðardal lágu undir svelli frá því snemma í janúar og fram í maí, sem varð til þess að gróður undir ísnum bókstaflega kafnaði og drapst. Eini kosturinn í stöðunni er því endurræktun túnanna.
„Víða hér í sveitunum er staðan slæm og tjón bænda er mikið,“ segir Sigurgeir Hreinsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Hann hefur verið á ferðinni víða síðustu daga til að glöggva sig á stöðunni sem hann segir hreint ekki góða.
Hugsað sé í lausnum
„Verst er útlitið hér út með vestanverðum Eyjafirði. Svarfaðardalurinn er illa farinn en líka Hörgár- og Öxnadalir. Á þessum slóðum eru víða stór kúabú þar sem bændur þurfa mikil hey. Menn þurfa því að hugsa í lausnum svo allt gangi upp. Á mörgum bæjum þarf væntanlega að vinna stóran hluta þeirra upp,“ segir Sigurgeir og heldur áfram:
„Frostlyfting hefur einnig valdið tjóni þar sem klaki var minni, sem lýsir sér í því að rætur gróðurs slitna. Svo eru líka kalskemmdir víða hér í næstu héruðum; bæði í Húnavatnssýslum, Skagafirði og svo austur í Þingeyjarsýslum. Þar er skaði á tugum bæja og m.a. er tjón í Fnjóskadalnum.“
Sigurgeir áætlar að á þeim jörðum nyrðra þar sem skaðinn er mestur geti endurræktun túnanna kostað bændur 15-20 millj. kr. og þá sé um að ræða vélavinnu og kaup á fræi. Slíkt sé vissulega talsverður biti fyrir menn, en þarna muni Bjargráðasjóður hlaupa undir bagga. Hætt er við að uppskera af nýræktum verði ekki mikil á þessu ári og því verði að huga að kaupum á heyi eða gera aðrar sambærilegar ráðstafanir.