Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason
Metnaður þingmanna á ekki að vera bundinn við hversu mörg mál þeir afgreiða. Metnaðurinn á að felast í efni og innihaldi, skýrleika og einfaldleika.

Óli Björn Kárason

Það hillir undir að 154. löggjafarþingi ljúki. Samkvæmt starfsáætlun er síðasti þingdagurinn 14. júní næstkomandi. Tugir stjórnarfrumvarpa og þingsályktunartillagna bíða afgreiðslu. Stjórnarmálin eru misjafnlega á vegi stödd. Sum eru í lokaafgreiðslu, en önnur þurfa verulega vinnu í nefnd og svo eru nokkur sem eru nýkomin til nefndar. Öllum má vera ljóst að útilokað er að afgreiða öll stjórnarmál á yfirstandandi þingi, þótt ráðherrar eigi enga ósk heitari. En hvorki himinn né jörð munu farast.

„Við þurfum að koma uppskerunni í hús,“ er mantra þeirra þingmanna og ráðherra sem vega og meta þingstörfin út frá fjölda þeirra mála sem tekst að afgreiða á hverju löggjafarþingi. Því fleiri mál því betra þing, óháð því hvernig þau gagnast almenningi og fyrirtækjum í landinu. Gæði lagasetningarinnar eru orðin aukaatriði. Skýrleiki er settur til hliðar. Og þeim fækkar sem hugleiða hvort ný löggjöf einfaldi líf einstaklinga eða styrki stöðu atvinnulífsins í harðri alþjóðlegri samkeppni. Í æ ríkari mæli hafa alþingismenn framselt löggjafarvaldið til framkvæmdavaldsins og embættismanna sem fá heimild til að gefa út óteljandi reglugerðir, sem hafa oft mest um það að segja hver framkvæmd laga verður í raun. Tregða þingmanna til að taka sjálfstæða ákvörðun og vinna að breytingum á lagafrumvörpum hefur aukist. Of margir vilja fylgja forskrift og leiðsögn embættismanna og samþykkja aðeins breytingar á lagafrumvörpum að höfðu samráði við viðkomandi ráðuneyti og með samþykki embættismanna.

Afleiðing þessarar þróunar er sú að þingmenn eru hægt og bítandi að breytast í búrókrata í stað þess að vinna að lagasetningu á grunni skýrrar hugmyndafræði. Svo erum við, sem sitjum á þingi, undrandi þegar kjósendur halda því fram að það sé „sami rassinn“ undir öllum stjórnmálaflokkum!

Ég hef áður reynt að vekja athygli á að Alþingi sé að festast í vítahring, sem það sjálft hefur hannað með aðstoð fjölmiðla og framkvæmdavaldsins. Mælistikan sem unnið er eftir miðast við fjölda mála sem tekst að afgreiða. Ráðherrar eru dæmdir út frá fjölda lagafrumvarpa sem þeir leggja fram og fá samþykkt. Þingmenn og ekki síst formenn fastanefnda fá því meira hrós sem þeir afgreiða fleiri mál út úr nefndum. Fjölmiðlar spila undir. Fáir vekja athygli á því að afkastamikil þing eru yfirleitt ekki sérlega góð þing.

Góð mál og vond

Í vítahringnum hafa endaskipti orðið á hlutunum. Metnaður þingmanna á ekki að vera bundinn við hversu mörg mál þeir afgreiða. Metnaðurinn á að felast í efni og innihaldi, skýrleika og einfaldleika.

Á lokadögum þings verður að forgangsraða. Fyrir sjálfstæða þjóð er fátt mikilvægara en að hafa stjórn á eigin landamærum. Þess vegna skiptir miklu að breytingar á útlendingalögum nái fram að ganga. Öryggi borgaranna kallar einnig á að gerðar verði breytingar á lögreglulögum. Það er skylda þingsins að afgreiða frumvörp sem miða að því að styðja við einstaklinga og atvinnulíf í Grindavík. Breytingar á tryggingakerfi öryrkja er réttlætismál.

Þetta eru allt dæmi um mál sem horfa til framfara og að þingið hefur, sé vilji fyrir hendi, burði til að fjalla um og samþykkja lög sem bæta samfélagið með einum eða öðrum hætti. En svo eru frumvörp sem litlu skipta eða eru beinlínis skaðleg verði þau afgreidd lítið sem ekkert breytt eftir búrókratískri forskrift. Gegn slíkum málum get ég ekki annað en staðið.

Óþreyja og gagnrýni

Á ráðstefnu sem Samband ungra sjálfstæðismanna hélt í mars 2012 fullyrti ég að jarðvegur fyrir hugmyndir okkar hægrimanna væri frjór. Við sem byggjum á grunni sjálfstæðisstefnunnar verðum að tala skýrt og setja stefnumálin fram með afdráttarlausum hætti:

„Við hægri menn ætlum að berjast fyrir því að snjallir og útsjónarsamir viðskiptamenn fái að njóta ávaxtanna og við ætlum að draga krumlur ríkisins upp úr vösum launamanna, og tryggja hófsemd í opinberum álögum.

Við eigum að blása ungu fólki bjartsýni í brjóst í stað þess að fylla það bölmóði og við eigum sameiginlega að vera stolt af því að vera Íslendingar. Með því að vera trúir grunnstefnum frelsis munum við aftur öðlast fyrri styrk og stuðla að því að hér byggist upp öflugt og þróttmikið atvinnulíf, fjölbreytt mannlíf, öflugt menntakerfi og velferðarkerfi sem verður talið til fyrirmyndar í öðrum löndum.“

Í fjölmörgum samtölum sem ég hef átt við samherja mína um allt land síðustu mánuði, hefur óþreyjan verið áberandi samhliða uppbyggjandi gagnrýni á störf okkar sem skipum þingflokk Sjálfstæðisflokksins; þið talið ekki skýrt og leggið ekki nægjanlega áherslu á að koma stefnumálum á dagskrá. Gagnrýnin getur ekki talist ósanngjörn. Hún er sett fram af góðum hug og af staðfestu þess sem hefur skýra pólitíska sýn.

Við þurfum að gera öðrum stjórnmálaflokkum, og þá sérstaklega þeim sem við eigum í samstarfi við, grein fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn sættir sig ekki við að líf einstaklinga sé gert flóknara með því að þenja út báknið og auka skrifræðið undir þeim falsrökum að verið sé að auka húsnæðisöryggi. Í samstarfi þarf auðvitað að gera málamiðlanir en um sumt er ekki hægt að semja. Að farið sé að lögum og staðinn vörður um stjórnarskrárbundin réttindi er forsenda þess að Sjálfstæðisflokkurinn geti átt samstarf við aðra stjórnmálaflokka. Og það er einnig ágætt að við sem skipum okkur undir merki sjálfstæðisstefnunnar, minnum okkur reglulega á að markmið okkar er ekki að koma á fót enn einni ríkisstofnuninni, heldur að einfalda regluverk, gera ríkisreksturinn skilvirkari og tryggja að hann þjóni hagsmunum borgaranna.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Óli Björn Kárason