Djúpavík Gamla síldarverksmiðjan á staðnum fær nú nýtt hlutverk.
Djúpavík Gamla síldarverksmiðjan á staðnum fær nú nýtt hlutverk. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Dagana 7. til 8. júní verður opnaður fyrri áfangi sýningar Baskaseturs í gömlu síldartönkunum í Djúpavík. Fjallað var um uppbyggingu setursins hér í blaðinu í ágúst í fyrra en hugmyndin er að setrið verði upplýsandi um umsvif Baska á Ströndum á sínum tíma og samskipti Íslendinga og Baska

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Dagana 7. til 8. júní verður opnaður fyrri áfangi sýningar Baskaseturs í gömlu síldartönkunum í Djúpavík. Fjallað var um uppbyggingu setursins hér í blaðinu í ágúst í fyrra en hugmyndin er að setrið verði upplýsandi um umsvif Baska á Ströndum á sínum tíma og samskipti Íslendinga og Baska.

Hafliði Aðalsteinsson og Einar Jóhann Lárusson eru að hefja smíði „txalupa“, léttabáts, eftir teikningum frá Albaola og verður báturinn fluttur norður á sýninguna. Þá verður í Djúpavík málþing á ensku um sögu Baska á Íslandi. Margir koma að verkefninu eins og Baskavinafélagið, Háskólasetur Vestfjarða, Albaola á Spáni, Haizebegi í Frakklandi og Hótel Djúpavík sem hýsir væntanlegt Baskasetur. Baskasetrið hlaut styrki bæði innanlands og utan en sýningarhönnuður er Þórarinn Blöndal.

Samstarfið hefur hleypt nýju lífi í samskipti Baska og Íslendinga því einnig eru viðburðir ytra til að bæta tengslin enn frekar. Í október verður Haizebegi-hátíðin í Bayonne og í San Sebastian í samstarfi við Baskavinafélagið, Háskólasetur Vestfjarða og Albaola. Íslenskt listafólk og fræðimenn fara til Bayonne og taka þátt í hátíðinni. Í þeim hópi verða Umbra Ensemble, Kómedíuleikhúsið og Intelligent Instruments Lab hjá Háskóla Íslands.

Höf.: Kristján Jónsson