Lífeyrisþegar sem eru í skuld við Tryggingastofnun vegna ofgreiðslu lífeyris á seinasta ári þurfa að hefja endurgreiðslur frá og með 1. september. Ekki er veittur afsláttur af upphæðinni ef hún er greidd í einu lagi en einnig er hægt að dreifa greiðslunum

Lífeyrisþegar sem eru í skuld við Tryggingastofnun vegna ofgreiðslu lífeyris á seinasta ári þurfa að hefja endurgreiðslur frá og með 1. september. Ekki er veittur afsláttur af upphæðinni ef hún er greidd í einu lagi en einnig er hægt að dreifa greiðslunum. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar eru ekki innheimtir vextir af endurgreiðslunum.

„Algengast er að TR dreifi skuldinni sjálfkrafa á 12 mánuði hjá greiðsluþegum, en þó að lágmarki 3.000 krónur á mánuði.

Ef viðkomandi lendir hins vegar í vanskilum með endurgreiðslurnar þá eru innheimtir vextir,“ segir í svari stofnunarinnar um þetta. Á vef TR er bent á að ef reynist íþyngjandi að endurgreiða skuldina á tólf mánuðum sé ávallt hægt að hafa samband og semja um greiðslur til lengri tíma.

Fram kom á forsíðu Morgunblaðsins í gær að rúmlega 52 þúsund einstaklingar, eða um 78% lífeyrisþega, fengu ofgreiddan lífeyri á seinasta ári og þurfa að endurgreiða. Í fréttinni sagði að í um helmingi tilvika væru upphæðirnar undir 200 þúsundum króna og er ástæða til að árétta að þar var átt við að um helmingur allra lífeyrisþega hafi fengið ofgreiðslur sem voru undir 200 þúsund kr. Voru þeir 33.895 talsins. 18.658 einstaklingar þurfa hins vegar að endurgreiða fjárhæðir sem eru hærri en 200 þúsund kr.

Hátt í tíu þúsund einstaklingar áttu inneign hjá TR sem greidd var út 1. júní. omfr@mbl.is