Sýning Sigga Björg og Michael Lind, Hamflettur. Séð yfir sýningarsalinn.
Sýning Sigga Björg og Michael Lind, Hamflettur. Séð yfir sýningarsalinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Listasafn Árnesinga er áhugaverður sýningarstaður í næsta nágrenni Reykjavíkur. Húsið var í upphafi aldarinnar reist fyrir listamannaskála þar sem listamenn gátu leigt sali fyrir eigin sýningar. Safnið tók yfir húsnæðið árið 2011 og skapaði sér fljótt sess á sviði samtímalistar

Af myndlist

Hlynur

Helgason

Listasafn Árnesinga er áhugaverður sýningarstaður í næsta nágrenni Reykjavíkur. Húsið var í upphafi aldarinnar reist fyrir listamannaskála þar sem listamenn gátu leigt sali fyrir eigin sýningar. Safnið tók yfir húsnæðið árið 2011 og skapaði sér fljótt sess á sviði samtímalistar.

Nú eru í safninu fjórar aðskildar sýningar, hver í sínu rýminu. Fjölbreytileikinn er í fyrirrúmi og sýningarnar innbyrðis ólíkar í efnistökum og myndhugmyndum. Segja má, í sýningum sem þessum, að safnið sé að uppfylla væntingar sem gerðar voru til listamannaskálans. Í þeim er listamönnum gefið tækifæri til að halda persónulegar einkasýningar.

Hrafnkell Sigurðsson sýnir ljósmyndaverk, röð svarthvítra mynda í mismunandi stærðum undir yfirskriftinni Loftnet. Þetta eru bleksprautuprent, flest á pappír. Myndirnar birta okkur ljós og gráleit form á dökkum fleti. Myndefnið var tekið við loftnetin sem standa á tindi Skálafells þar sem ísing sest á loftnetin og myndar sérkennileg form. Þessar myndir hefur Hrafnkell nýtt sem hráefni til vinnslu. Hrafnkell dramatíserar myndirnar, styrkir muninn á ljósi og skugga í myndunum og nýtir sér myndforrit til að umbreyta þeim og skapa óræð hughrif. Þessar ummyndanir, byggðar á náttúrlegri óreiðu ískristalla, skila sér í lokaverkunum.

Sigga Björg Sigurðardóttir sýnir þriggja rása vídeóinnsetningu. Tónskáldið Mikael Lind semur hljóðheim verksins. Þegar áhorfandi situr á bekk í rýminu umlykur verkið hann á þrjá vegu. Verkið er unnið sem teiknuð og máluð „stillu-kvikun“, byggt upp af teikningum þar sem kvikmyndarammar taka upp myndir af teikningu á meðan hún er gerð. Þegar rammarnir raðast saman í tíma verður til hreyfimynd, lifandi teikning. Hér birtist teikningin neikvæð á fletinum, sem hvítar línur á svörtum fleti. Verkið er í þrjátíu hlutum sem renna saman og líða hjá á þremur veggjum salarins. Myndefnið er kunnuglegt fyrir þá sem þekkja til verka Siggu Bjargar, einkennileg formumbreyting þar sem líkamar og náttúra, áferðir og litir verða til og skapa einkennilegar verur og umhverfi. Hljóðheimur Mikaels styrkir þessi áhrif. Það er einnig áhugavert fyrir áhorfendur að þeir geta skoðað frumefni teikninganna í borði við inngang safnsins; þar sjá þeir hráan og einfaldan efniviðinn sem galdurinn byggist á.

Kristinn Már Pálmason hefur undanfarið þróað með sér persónulegan myndstíl. Verk hans á sýningunni eru öll unnin með akrýlmálningu á striga. Í einu þeirra teygjast sumar formeiningar málverksins út á vegginn á bak við, nokkuð sem vinnur skemmtilega í salnum. Á sýningunni er hvert verk látið njóta sín en einungis eitt verk er á hverjum vegg, auk myndar sem mætir áhorfendum við inngang safnsins. Verk Kristins eru byggð upp af smáum einingum sem dreifast um eintóna flöt. Formin eru mörg endurtekin og máluð með stensli, þar sem form maskar af flötinn og málning hefur verið lögð eða blásið yfir til að skapa form. Í bland við þetta eru málaðar lífrænar tengingar á milli formanna. Heildarmyndin verður því einhvers konar óhlutbundin dreifing einstakra flata og hluta sem skapa lífræna heildarmynd. Þetta einkenni verka Kristins nýtur sín vel á sýningunni.

Erla S. Haraldsdóttir er listamaður sem býr í Berlín og Suður-Afríku. Verkið er innsetning þar sem einstök málverk eru kjarninn í innsetningu þar sem handrituð blöð, vídeóefni, veggmálverk og aðrir munir skapa heildarmynd. Verkin byggjast á textum, draumlýsingum sem birtast í vídeóefninu og fylgja með í handriti. Málverkin og innsetningin er tilraun til að túlka þessa drauma. Þótt formheimur sýningarinnar byggist að sumu leyti á áhrifum frá innfæddum í Suður-Afríku sverja verkin sig fullmikið í ætt við rómantískar áherslur myndgerðar, við algengar myndlýsingar á fornsagnaheimi. Rými sýningarinnar verður því að einskonar ævintýraleikmynd.

Sýningarnar eru ólíkar og ágætis innlit í fjölbreyttar áherslur samtímalistar. Það er þó leitt að safnið skuli ekki skapa sterkari umgjörð um heildarsamhengið. Textar sem fylgja sýningunum eru ólíkir að gerð og virðast fremur unnir sjálfstætt af listamönnum en af hálfu safnsins. Þá hefði mátt veita áhorfendum betri innsýn í forsendur verkanna og aðferðafræði. Það er gott að veita einstökum listamönnum tækifæri til að koma sér á framfæri í vönduðu umhverfi en meiri vinnu hefði mátt leggja í að skapa sterkari heildarupplifun fyrir áhorfendur.