Hildur Sverrisdóttir
Hildur Sverrisdóttir
„Nú erum við stödd á þeim tímapunkti ársins að við horfum á hvaða þingmál er raunhæft að klára. Undir eru um 60 mál frá ríkisstjórninni og eru langflest þeirra komin vel á veg, en misumfangsmikil eins og gengur

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Nú erum við stödd á þeim tímapunkti ársins að við horfum á hvaða þingmál er raunhæft að klára. Undir eru um 60 mál frá ríkisstjórninni og eru langflest þeirra komin vel á veg, en misumfangsmikil eins og gengur. Nú þurfum við að gera stöðumat á því hvað er raunhæft að klára og hvað ekki,“ segir Hildur Sverrisdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið.

Nú standa yfir samtöl á milli þingflokksformanna þar sem fjallað er um hvaða lagafrumvörp mest áhersla er lögð á að fái brautargengi fyrir sumarleyfi Alþingis sem áformað er föstudaginn 14. júní skv. starfsáætlun þingsins. Mögulegt er þó að þingi verði framhaldið nokkrum dögum lengur.

„Okkar forgangsmál þennan þingvetur hafa verið útlendingamálin m.a., eins og engum ætti að dyljast. Núna bíður það lokaatkvæðagreiðslu. Nú er verkefnið að fara yfir hvaða önnur mál við treystum okkur til að klára og það samtal er í gangi núna,“ segir hún.

Hún segir að mörg ólík mál séu í vinnslu, ÍL-sjóður og sala á hlut í Íslandsbanka svo nokkuð sé nefnt.

„Lagareldið er eitt þessara mála, en það verður að segjast eins og er að það mál er mjög viðamikið, þannig að það er kannski helst það mál sem ég set hvað stærsta spurningarmerkið við og hvort náist að klára það, einfaldlega vegna umfangs þess og hversu tæknilega flókið það er. Stærsta spurningin er hvort við náum því máli út, en við höfum ekki lagt árar í bát í því efni.“

Hildur nefnir einnig frumvarp til lögreglulaga sem Sjálfstæðisflokkurinn legði þunga áherslu á að fái framgang. Ekkert launungarmál væri að þingmenn Vinstri grænna væru ekki jafn hrifnir af málinu.

„Þetta er eitt þeirra mála sem er erfitt á milli flokka, en fólk í stjórnmálum verður að miðla málum og við erum í því verkefni núna,“ segir Hildur.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson