Landað Lítil hreyfing hefur verið á viðmiðunarverði undanfarið.
Landað Lítil hreyfing hefur verið á viðmiðunarverði undanfarið. — Morgunblaðið/Eggert
Á fundi hagsmunasamtaka sjómanna og útvegsmanna, sem haldinn var 4. júní 2024, var ákveðið að breyta viðmiðunarverði og hækkaði viðmiðunarverð á slægðum þorski um 2% og lækkaði viðmiðunarverð fyrir karfa um 4%

Á fundi hagsmunasamtaka sjómanna og útvegsmanna, sem haldinn var 4. júní 2024, var ákveðið að breyta viðmiðunarverði og hækkaði viðmiðunarverð á slægðum þorski um 2% og lækkaði viðmiðunarverð fyrir karfa um 4%. Viðmiðunarverð óslægðs þorsks, slægðrar og óslægðrar ýsu sem og viðmiðunarverð ufsa helst óbreytt.

Viðmiðunarverð Verðlagsstofu skiptaverðs er lágmarksverð í viðskiptum milli skyldra aðila og er til grundvallar launum sjómanna. Verðið er ákvarðað af Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna samkvæmt viðmiðum gildandi kjarasamnings milli Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka atvinnulífsins og Sjómannasambands Íslands. Markmið aðila er að lágmarksverð miðist meðal annars að jafnaði við 75% af meðalverði á innlendum markaði síðastliðna þrjá mánuði.

Stendur nú verð á óslægðum þorski í 419,83 krónum og hefur ekki verið hærra síðan í júlí á síðasta ári. Verð á óslægðri ýsu er 201,67 krónur á kíló og hefur verið óbreytt frá í nóvermber á síðasta ári en verð á ýsu hefur aðeins lækkað eða staðið í stað frá maí það ár. Verð á ufsa er 210,3 krónur og hefur ekki verið lægra síðan í desember 2022. Verð á karfa er nú 180,68 krónur og hefur ekki verið lægra síðan í apríl 2023.