Frjósemi Spár gera ráð fyrir að verulega dragi úr frjósemi til aldamóta.
Frjósemi Spár gera ráð fyrir að verulega dragi úr frjósemi til aldamóta. — Ljósmynd/Colourbox
Í rannsókn sem birtist í læknatímaritinu Lancet nýlega er sett fram sú spá að árið 2050 verði staðan sú að í 155 löndum af 204 nægi frjósemi kvenna ekki til að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma og árið 2100 verði raunin sú í 198 löndum

Í rannsókn sem birtist í læknatímaritinu Lancet nýlega er sett fram sú spá að árið 2050 verði staðan sú að í 155 löndum af 204 nægi frjósemi kvenna ekki til að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma og árið 2100 verði raunin sú í 198 löndum. Í rannsókninni er því einnig spáð að fólksfjölgun verði nær eingöngu bundin við þau lönd þar sem þjóðarframleiðsla er lítil. Árið 2021 fæddust um 29% allra barna í Afríkulöndum sunnan Sahara og áætlað er að þetta hlutfall hafi hækkað í 54% um næstu aldamót.

Höfundar rannsóknarinnar segja að ríkisstjórnir verði að bregðast við þeim áhrifum sem þessar breytingar muni hafa á efnahag, fæðuöryggi, heilbrigðismál og umhverfi og almennan stöðugleika.

Helsti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma litið. Þetta hlutfall hefur rúmlega helmingast á síðustu 70 árum, úr um fimm börnum að jafnaði á hverja konu árið 1950 í 2,2 börn árið 2021 en í um helmingi landa er þetta hlutfall undir 2,1 barni á hverja konu.

Þessi þróun hefur einkum verið hröð í ríkjum í austurhluta Asíu en í Afríkuríkjum sunnan Sahara er frjósemi hins vegar nærri tvöfalt meiri en meðaltal í heiminum eða 4 börn á hverja konu. Í Tsjad er hlutfallið hæst, 7 börn á hverja konu.

Búist er við að áfram muni draga úr frjósemi á næstu áratugum og hún verði að jafnaði 1,8 barn á hverja konu árið 2050 og 1,6 árið 2100. Þá er því spáð að aðeins í ríkjunum Sómalíu, Tonga, Níger, Tsjad og Tadsíkistan verði frjósemin yfir 2,1 barn árið 2100 og í 13 löndum verði frjósemin undir 1 barni á konu.

Í Vestur-Evrópu er því spáð að frjósemin verði að meðaltali 1,44 árið 2050 og lækki í 1,37 árið 2100. Spárnar gera ráð fyrir að frjósemi verði undir aldamótin mest á Íslandi, í Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi og Ísrael eða á bilinu 2,09 til 1,4. Hlutfallið verði mun lægra í öðrum Evrópuríkjum og hluta Asíu.

Raunar hefur dregið úr frjósemi hér á landi að undanförnu og árið 2022 var hlutfallið 1,59. Hagstofan hefur ekki birt tölur fyrir síðasta ár.