Þórður Gunnarsson hagfræðingur fjallaði um pólitíska áhættu í pistli í ViðskiptaMogganum í gær. Hann bendir á að í hefðbundnum skilningi hafi „pólitísk áhætta í viðskiptum einna helst verið tengd við spillt stjórnkerfi, veikar stofnanir, samfélagslegan óstöðugleika eða jafnvel stríðsátök“. Þetta hafi áhrif á mat á fjárfestingakostum en vart sé hægt að segja að áhætta af fyrrnefndu tagi sé fyrir hendi hér á landi. En hann bætir við: „Hins vegar má nefna nokkur dæmi um hvernig meðvitað sinnuleysi íslenskra stofnana, eða frjálsleg túlkun þeirra á þeim lögum sem þær starfa eftir, séu óðum að verða að sjálfstæðum áhættuþætti í viðskiptum á Íslandi.“
Hann nefnir í þessu sambandi leyfisveitingar vegna orkunýtingar hér á landi sem hafi dregist úr hömlu hjá Orkustofnun á síðustu árum og sömuleiðis framgöngu matvælaráðuneytisins vegna hvalveiða. Þessi mál eru skaðleg, en það á ekki síður við um Samkeppniseftirlitið. Starfsemi þess lýsir Þórður á eftirfarandi hátt: „Samkeppniseftirlitinu, sem stofnað var fyrir um þremur áratugum í kjölfar þess að Verðlagsstofnun var lögð niður, er samkvæmt lögum ætlað að efla virka samkeppni í viðskiptum á Íslandi. Samkeppniseftirlitið hefur víðtækar valdheimildir til íhlutana af ýmsu tagi, getur gert lögaðilum refsingar vegna ætlaðra brota og hafið ýmsar rannsóknir að eigin frumkvæði. Samkeppniseftirlitið hefur á undanförnum árum viðhaft mjög frjálslega túlkun á þeim lögum sem stofnunin starfar eftir. Í raun mætti kalla stofnunina Viðskiptaeftirlit ríkisins þar sem rannsóknir stofnunarinnar hafa lítið eða jafnvel ekkert með innlenda samkeppni að gera. Segja má að Samkeppniseftirlitið sé orðið að nokkurs konar sjálfstæðum áhættuþætti þegar kemur að framkvæmd viðskipta á Íslandi. Stofnunin getur haldið fyrirtækjum föngnum árum saman í rannsóknum af ýmsu tagi. Aðeins er á færi stærstu og öflugustu fyrirtækja að verjast ágangi stofnunarinnar (sem virðist þó á sama tíma hafa tíma til að skrifa langar og lærðar skýrslur um majónes). Ekkert aðhald er með starfsemi Samkeppniseftirlitsins og margir forsvarsmenn fyrirtækja á Íslandi veigra sér við að gagnrýna stofnunina – af ótta við að lenda í klóm hennar árum saman.“
Þessi lýsing á því miður við rök að styðjast. Hvernig stendur á því að stjórnvöld láta þetta ástand viðgangast?