Gæðingur Ein af Teslum lögreglunnar á Vesturlandi á vegum úti.
Gæðingur Ein af Teslum lögreglunnar á Vesturlandi á vegum úti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aukin hagræðing og skilvirkni hefur náðst í starfsemi Lögreglustjórans á Vesturlandi með þeirri umhverfisstefnu sem þar er fylgt. Á loftslagsdeginum 2024 sem haldinn var í síðustu viku á vegum Umhverfisstofnunar fékk embættið sérstök…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Aukin hagræðing og skilvirkni hefur náðst í starfsemi Lögreglustjórans á Vesturlandi með þeirri umhverfisstefnu sem þar er fylgt. Á loftslagsdeginum 2024 sem haldinn var í síðustu viku á vegum Umhverfisstofnunar fékk embættið sérstök hvatningarverðlaun fyrir einstakan árangur í umhverfisstarfi á árinu 2023 og fyrir að uppfylla öll þau fimm grænu skref í ríkisrekstri sem sett hafa verið. Þetta er samkvæmt reglum sem Umhverfisstofnun hefur sett og er reglunum ætlað að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og efla vitund starfsmanna um hvað sé grænt og gott.

„Í umhverfisstefnunni má segja að hverjum steini hafi verið velt við í starfseminni hér,“ segir Ásmundur Kr. Ásmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglustjóranum á Vesturlandi, í samtali við Morgunblaðið. Hann er einn fimm starfsmanna sem myndað hafa hóp sem hefur rýnt starfsemina með umhverfismálin að leiðarljósi. Þannig var byrjað á því, leiðbeiningum samkvæmt, að fara yfir notkun á rafmagni og heitu vatni með betri orkunýtingu að leiðarljósi.

Flokkun á úrgangi er alveg á hreinu

Innkaup embættisins þurfa einnig að vera umhverfisvæn og er miðað við að kaupa aðföng sem eru vottuð. Flokkun á úrgangi þarf sömuleiðis að vera alveg á hreinu, í tvöfaldri merkingu þeirra orða. Svona má áfram telja. Þetta er verkefni sem hófst árið 2021 og hefur starfið unnist hratt og örugglega síðustu misserin.

Stóra málið í umhverfisstefnu Lögreglustjórans á Vesturland er bílaútgerðin. Varðsvæðið spannar Akranes og nálæg svæði, Borgarfjörð upp til jökla og heiða, Snæfellsnes og Dali. Til þess að sinna þessu svæði þarf nokkurn fjölda lögreglubifreiða og eru flestar þær sem embættið er með knúnar hreinorku – það er rafmagni. Hybrid-bílarnir eru tveir.

Bílar sem slá ekki feilpúst

Flestar lögreglubifreiðanna á Vesturlandi eru af gerðinni Tesla Y en sú fyrsta var tekin í notkun í júní í fyrra, 2023. Þetta var fyrsti bíllinn af gerðinni Tesla Y sem lögreglulið í Evrópu tekur í flota sinn. Þessar bifreiðar segir Ásmundur að hafi hentað afar vel til löggæslustarfa. Aflið sé 515 hestöfl og drægnin 533 km. Raunar megi segja að þessar bifreiðar hafi aldrei slegið feilpúst í miklum akstri á víðfeðmu svæði og reynst afar hagkvæmar í viðhaldi og rekstri. Þá séu bílar þessir rúmgóðir og útsýni úr þeim með miklum ágætum, sem skipti miklu máli við löggæslustörf úti á vegum.

„Kolefnislosun hjá embættinu hefur farið mjög hratt niður og við nálgumst það hratt að vera á sléttu. Þetta mun þá skila því að ekki er lengur nauðsynlegt að kaupa kolefniseiningar, til dæmis í skógrækt, til þess að jafna losunartölur í grænu bókhaldi. Mestu skiptir auðvitað að embættið er ekki jafn háð jarðefnaeldisneyti á lögreglubifreiðar,“ segir Ásmundur og heldur áfram:

„Aðeins þrjár bifreiðar eru eftir sem knúnar eru jarðefnaeldsneyti og þar munar sennilega mest um Toyota Land Crusier. Sá öflugi jeppi er gerður út frá Borgarnesi og notaður til dæmis ef fara þarf upp á heiðar, hálendið eða í aðrar erfiðar aðstæður á veturna. Annað eru rafmagnsbifreiðar sem við notum með góðri reynslu og er ávinningur mikill. Slíkt er mikilvægt þannig að fjármunir nýtist sem best til almennra löggæslustarfa.“

Frumkvæðið er smitandi

Samkvæmt því sem best er vitað er ekkert lögreglulið í Evrópu komið jafn langt í umhverfismálum og raunin er á Vesturlandi. Þetta segir Ásmundur að þakka megi samhentu starfi. Þar hafi áhugi og frumkvæði yfirmanna í embættinu verið smitandi á alla lund. Slíkt skipti miklu máli, því ýmsar hindranir hafi verið til staðar og þurft að yfirstíga eins og jafnan gerist þegar farið er inn á ný svið. Uppsetning á innviðum sem þessu fylgir, það er uppsetning á hleðslustöðvum sem eru við lögreglustöðvarnar fjórar á Vesturlandi, hafi kostað sitt. Allt hafi þetta þó verið fyrirhafnarinnar virði, rétt eins og reynslan sýni nú.

Nýtt loftslagsráð er tekið til starfa

Breið þekking og reynsla

Í umhverfismálum Íslendinga eins og annara þjóða er sjónum ekki síst beint að þeim leiðum sem bjóðast til að draga úr útblæstri þeirra lofttegunda sem valda loftslagsvandanum. Þar eru orkuskipti í samgöngum ofarlega á blaði samanber markmið um að hætta í næstu framtíð nýskráningum bíla sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti. Segja má að Lögreglustjórinn á Vesturlandi gefi þar tóninn fyrir það sem verða skal. Í þessum efnum eru línur lagðar meðal annars af loftslagsráði sem umhverfisráðherra skipar. Þar er meðal annars fjallað um loftslagsvísindi, náttúruvá, skipulag, landnýtingu, nýsköpun, tækniþróun og orkumál í samhengi orkuskipta og kolefnishlutleysis.

„Öflugt loftslagsráð sem endurspeglar þá breiðu þekkingu og reynslu sem þarf til að takast á við loftslagsbreytingar getur nú tekið til starfa. Fyrri loftslagsráð hafa skilað góðri vinnu og haft jákvæð áhrif, meðal annars með því að brýna stjórnvöld til stefnumótunar, efla stöðu þekkingar um eðli loftslagsvandans og viðbragða við honum,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Hann skipaði á dögunum nýtt loftslagsráð. Formaður þess er áfram Halldór Þorgeirsson, fyrrverandi yfirmaður hjá skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson