Tónlist Frá vinstri talið í efri röð: Hrefna Hlín Sveinbjörnsdóttir, Hrafnkell Ásólfur Proppé, Einar Sigurmundsson, Geir Gunnlaugsson, Frímann Ari Ferdinandsson, Gunnar Ringsted, Sverrir Örn Sverrisson (Sveppi) og Gunnar Örn Sigurðsson. Í fremri röð Ingvar Sverrisson og til hægri Hermann Sæmundsson. Hér er fólk sem gjarnan gegnir ábyrgðarstörfum í þjóðlífinu en sameinast síðan á öðrum forsendum á skemmtilegum hljómsveitaræfingum.
Tónlist Frá vinstri talið í efri röð: Hrefna Hlín Sveinbjörnsdóttir, Hrafnkell Ásólfur Proppé, Einar Sigurmundsson, Geir Gunnlaugsson, Frímann Ari Ferdinandsson, Gunnar Ringsted, Sverrir Örn Sverrisson (Sveppi) og Gunnar Örn Sigurðsson. Í fremri röð Ingvar Sverrisson og til hægri Hermann Sæmundsson. Hér er fólk sem gjarnan gegnir ábyrgðarstörfum í þjóðlífinu en sameinast síðan á öðrum forsendum á skemmtilegum hljómsveitaræfingum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Talið verður í og taktur Stones-laga sleginn af krafti á tónleikum sem hljómsveitin Sverrisson Hotel heldur á Ölveri í Glæsibæ í Reykjavík á föstudagskvöld. Margir eru þeir sem hafa tekið ástfóstri við þétta rokkslagara Rolling Stones og hafa þá jafnvel sem leiðarstef í lífinu

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Talið verður í og taktur Stones-laga sleginn af krafti á tónleikum sem hljómsveitin Sverrisson Hotel heldur á Ölveri í Glæsibæ í Reykjavík á föstudagskvöld. Margir eru þeir sem hafa tekið ástfóstri við þétta rokkslagara Rolling Stones og hafa þá jafnvel sem leiðarstef í lífinu. „Tónlistin hefur oft verið mitt athvarf í tilverunni og fleytt mér í gegnum skaflana. Þar hefur Stones sennilega dugað best,“ segir Ingvar Sverrisson, framkvæmdastjóri samskiptafélagsins Aton. Hann hefur þó komið að mörgu öðru um dagana og í gegnum vinnu á öðrum vettvangi kynntust Ingvar og Hermann Sæmundsson, nú ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Sín á milli fundu þeir sameiginlegan þráð í músíkinni. Fannst því tilvalið að kalla fleiri til svo úr varð hljómsveit sem hefur komið fram við ýmis tilefni á undanförnum árum.

Gítar, bassi, trommur, hljómborð og munnharpa

Auk Hermanns og Ingvars er í hljómsveitinni bróðir þess síðarnefnda, Sverrir Þór – best þekktur sem Sveppi. Hann er söngvari rétt eins og Ingvar sem einnig leikur á munnhörpu. Hermann spilar á gítar.

„Við Sveppi bróðir vorum með fleirum fyrir nokkrum árum að spila saman í kjallaranum í Hard Rock í miðbænum þar sem Hermann kom auga á skilti þar sem stóð Morrison Hotel, en svo heitir fræg hljómplata The Doors. Þar með vaknaði hugmynd um að bandið okkar héti Sverrisson Hotel og þar með varð eiginlega ekki aftur snúið.“

Hljómsveitina góðu skipa, auk þeirra þriggja sem fyrr eru nefndir, þau Hrefna Hlín Sveinbjörnsdóttir, Hrafnkell Ásólfur Proppé, Einar Sigurmundsson, Geir Gunnlaugsson, Frímann Ari Ferdinandsson, Gunnar Ringsted og Gunnar Örn Sigurðsson.

Óskaplega skemmtilegt

Þetta er fólk sem gjarnan sinnir fjölbreyttum og ábyrgðarmiklum störfum á ýmsum sviðum þjóðfélagsins. Í músíkinni mætist fólk hins vegar á öðrum og algjörlega eigin forsendum. Gítar, bassi, trommur, hljómborð, munnharpa og söngur; spilamennskan er þétt og lífið er leikur.

„Þetta er óskaplega skemmtilegt og hugurinn endurnýjast í æfingum. Þetta er líka fínn hópur sem nær vel saman, en tilviljanir ráða því annars hvernig fólk hefur komið inn í sveitina,“ segir Ingvar. Hljómsveitin hefur aðstöðu inn við Grafarvog í húsi sem Reykjavíkurborg lét í té. Þarna æfa raunar alls 10 sveitir og geyma liðsmenn þeirra hljóðfærin á staðnum. Utan æfingatíma er þetta sama húsnæði nýtt af borginni til uppbyggjandi starfs fyrir fólk með fötlun. Þau hin sömu geta þá fengið að grípa í hljóðfærin, sem mörgum er ómetanlegt.

„Tónlistin gefur mörgum tækifæri og með því að leggja til hljóðfærin verður þetta að fallegu samfélagslegu verkefni. Slíkt er mikilvægt,“ segir Ingvar.

Dugað í 60 ár

Fyrir giggið á morgun, föstudagskvöld, hefur Sverrisson Hotel æft og er með á efnisskrá alls 23 lög. Þau eru, svo nokkur séu nefnd, Gimme shelter, Angie, Lets spend the night together, Start me up, You can't always get what you want, Shine a light, Jumping jack flash, As tears go by og Midnight rambler.

Þá syngur Sveppi með hljómsveitinni lagið Angry sem Rolling Stones kom með nýtt fyrir ekki svo löngu. „Við teljum að nú sé komið að frumflutningi þessa lags á Íslandi sem Sveppi syngur alveg ljómandi vel. Og hljómsveitin spilar með, band sem verður þó væntanlega ekki jafn langlíft og Rollingarnir. Þeir hafa dugað í 60 ár og eru hvergi nærri hættir, virðist mér,“ segir Ingvar Sverrisson.