Guðmundur Sv Hermannsson
gummi@mbl.is
Færst hefur í vöxt á síðustu árum að fólk á aldrinum 65-66 ára byrji að taka út ellilífeyri. Tölur frá Hagstofunni sýna, að árið 2007 var um fjórðungur fólks á þessum aldri byrjaður að taka út lífeyri en þetta hlutfall var komið upp í tæplega 43% árið 2022.
Tölurnar sýna jafnframt, að stærstur hluti þessa hóps tekur eingöngu lífeyri úr lífeyrissjóðum og vísbendingar eru um að margir sem það gera séu enn á vinnumarkaði.
Svigrúm til að taka út lífeyri áður en almennum eftirlaunaaldri, sem er 67 ár, er náð hefur aukist á undanförnum árum. Þannig er hægt að fá lífeyri úr almannatryggingakerfinu við 65 ára aldur, bæði að hálfu eða að öllu leyti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og flestir lífeyrissjóðir bjóða sjóðfélögum upp á að fá greiddan lífeyri eftir 60 ára aldur þótt þeir séu ekki hættir störfum, þá gegn lægri mánaðarlegum greiðslum út ævina. Tölur Hagstofunnar benda hins vegar til þess að fáir á aldrinum 60-64 ára nýti sér þennan rétt enn sem komið er. » 34-35