Sigríður Helga Sverrisdóttir
Nýlega hóf RÚV að sýna nýja þáttaröð af hinum vinsælu þáttum Unforgotten eða Grafin leyndarmál á íslensku. Þáttaröðin er hluti af þemanu Sakamálasumar, sem RÚV verður með í sumar. Þættirnir hafa fengið margar tilnefningar og unnið til BAFTA-verðlauna enda ekki annars að vænta af breskum þáttum. Þá skarta þeir einnig einvalaliði leikara.
Í þessari fimmtu þáttaröð fáum við nýjan yfirmann rannsóknarlögregluteymisins sem leikin er af hinni írsku Sinéad Keenan, en hún tekur við af bresku leikkonunni Nicolu Walker, sem leikur aðalhlutverkið í fyrri þáttaröðum af sinni alkunnu snilld enda tvímælalaust ein af bestu leikkonum Breta í dag.
Eins og forverinn er nýi yfirmaðurinn að glíma við persónuleg vandamál, sem er henni til trafala við að fóta sig í starfi, og ekki eru nánustu samstarfsmenn hennar allir sáttir við hana. Ég þurfti sjálf nokkra þætti til að venjast henni, en undir lokin, þegar hún var farin að sýna á sér manneskjulegri hliðar, varð hún öllu viðkunnanlegri og jafnvel ekkert síðri en forveri hennar. Þáttaröðin er vel uppbyggð og heldur áhorfandanum spenntum allt til enda. Hún snertir einnig á mörgum mannlegum flötum, sem fær áhorfandann til að tengja við efnið.