Sátt hefur náðst á milli danska listamannsins Jens Haanings og listasafnsins Kunsten í Álaborg, en Haaning var dæmdur í fyrra til að endurgreiða safninu um hálfa milljón danskra króna. Frá þessu greinir Politiken. Málið hófst árið 2021 og er forsaga þess sú að safnið óskaði eftir því að Haaning endurskapaði tvö fyrri verk sín þar sem ákveðnar peningaupphæðir voru rammaðar inn og áttu þær að endurspegla meðalárslaun í Austurríki og Danmörku. Til þess fékk Haaning peningaupphæðir lánaðar frá safninu en í stað þess að endurskapa listaverkið skilaði hann inn tómum ramma og hélt peningnum fyrir sjálfan sig. Nýja verkinu gaf hann titilinn „Take the Money and Run“ (Tak féð og hlaup). Samkomulagið náðist með því að safnið Kunsten keypti nýja verkið. Haaning áfrýjaði dómnum á sínum tíma en hefur nú dregið áfrýjunina til baka.