Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, og Ásmundur Friðriksson alþingismaður leggja til að komið verði á laggirnar þverfaglegu meistaranámi á háskólastigi í hamfarafræðum

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, og Ásmundur Friðriksson alþingismaður leggja til að komið verði á laggirnar þverfaglegu meistaranámi á háskólastigi í hamfarafræðum. Þetta kemur fram í aðsendri grein tvímenninganna í Morgunblaðinu. Leggja þeir til að námið verði jafnvel í boði þvert á háskóla landsins.

Þessu til stuðnings segja þeir að náttúruvá snúist ekki eingöngu um náttúrleg ferli heldur snerti hún öll svið samfélagsins.

„Á Íslandi er einstök staða til að byggja upp nám og menntun í samfélagi sem tekst á við náttúruvá oft á hverju ári. Hér er því þekking og reynsla sem nær langt út fyrir háskólasamfélagið og er mikilvægur þáttur í hamfarastjórnun og því námi sem þekking byggist á,“ segir í aðsendri grein Þorvaldar og Ásmundar. Ef rétt yrði að verki staðið gæti umrætt nám í hamfarafræðum orðið ein af „hátækniútflutningsvörum íslenskra háskóla“, að mati þeirra. » 50