Normandí Nokkur fjöldi bandarískra uppgjafahermanna tók þátt í sérstakri athöfn í þorpinu St. Mere-Eglise í gær, en bandarískt fallhlífarlið lenti í bænum aðfaranótt 6. júní 1944 í upphafi innrásarinnar í Normandí.
Normandí Nokkur fjöldi bandarískra uppgjafahermanna tók þátt í sérstakri athöfn í þorpinu St. Mere-Eglise í gær, en bandarískt fallhlífarlið lenti í bænum aðfaranótt 6. júní 1944 í upphafi innrásarinnar í Normandí. — AFP/Miguel Medina
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikið var um dýrðir beggja vegna Ermarsundsins í gær þegar hátíðahöld vegna D-dagsins hófust, en í dag eru 80 ár liðin frá innrás bandamanna í Normandí í síðari heimsstyrjöld. Karl 3. Bretakonungur sagði í sérstakri minningarathöfn, sem haldin var í …

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Mikið var um dýrðir beggja vegna Ermarsundsins í gær þegar hátíðahöld vegna D-dagsins hófust, en í dag eru 80 ár liðin frá innrás bandamanna í Normandí í síðari heimsstyrjöld. Karl 3. Bretakonungur sagði í sérstakri minningarathöfn, sem haldin var í Portsmouth, að halda þyrfti minningu þeirra sem tóku þátt í innrásinni á lífi um ókomna tíð.

Breska varnarmálaráðuneytið stóð fyrir athöfninni í Portsmouth, en landgönguskip bandamanna héldu þaðan úr höfn hinn 5. júní 1944 til þess að landgangan mikla gæti hafist að morgni næsta dags.

Karl sagði að það væri nærri því ómögulegt að ímynda sér þann ótta og hrylling sem innrásarliðið hefði þurft að yfirstíga í Normandí, en að það væri heilög skylda að tryggja það að fórn þeirra myndi aldrei gleymast. „Á sama tíma og við þökkum öllum þeim sem gáfu svo mikið til þess að vinna þennan sigur, sem við njótum ávaxtanna af enn þann dag í dag, skulum við enn og aftur heita því að minnast alltaf, dá og virða þá sem þjónuðu þennan dag,“ sagði Karl meðal annars í hátíðarræðu sinni.

Uppgjafahermenn sem tóku þátt í innrásinni voru viðstaddir athöfnina, en þeir eru nú allir á tíræðisaldri eða eldri. Hinn 99 ára gamli Roy Hayward flutti ávarp á athöfninni, þar sem hann sagði m.a. að hann hefði ávallt talið sig hafa verið heppinn að hafa lifað innrásina af, því að margir hefðu fallið þennan dag. Hayward missti síðar báða fætur neðan við kné í stríðinu. „Ég er fulltrúi þeirra manna og kvenna sem settu líf sitt til hliðar til þess að fara og berjast fyrir lýðræðið og þetta land,“ sagði Hayward.

Vilhjálmur Bretaprins flutti einnig ávarp, en auk þess tóku helstu stjórnmálaleiðtogar Bretlands þátt í athöfninni, þar á meðal Rishi Sunak forsætisráðherra og Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti tók á sama tíma þátt í sérstakri athöfn á Bretaníuskaga til þess að minnast þeirra meðlima frönsku andspyrnuhreyfingarinnar sem tóku þátt í innrásinni. Sagði Macron við uppgjafahermennina að í heimi þar sem hættur færu vaxandi minntu þeir á að núverandi kynslóðir væru einnig reiðubúnar til að fórna öllu og „verja það sem okkur er heilagast“.

Macron mun í dag taka á móti Joe Biden Bandaríkjaforseta, Karli 3. Bretakonungi og Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, í sérstakri athöfn við Omaha-ströndina, en þar var mesta mannfall bandamanna á innrásardaginn.

Enginn fulltrúi Rússa verður viðstaddur vegna innrásarinnar í Úkraínu, en Volodimír Selenskí Úkraínuforseti verður sérstakur gestur. Þá munu Olaf Scholz Þýskalandskanslari og Sergio Mattarella, forseti Ítalíu, mæta til athafnarinnar til að undirstrika samvinnu lýðræðisríkjanna eftir lok heimsstyrjaldarinnar.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson