Magdalena Anna Torfadóttir
magdalena@mbl.is
Íslandsbanki hefur innleitt nýja lausn sem gerir viðskiptavinum kleift að taka mynd af kvittunum og vista þær strax í appinu. Þessi nýjung mun breyta hvernig fyrirtæki og einstaklingar halda utan um fjármál sín með því að einfalda ferlið frá kaupum til bókhalds.
Jóhannes Þór Ágústarson vörueigandi stýrði þróun lausnarinnar og segir að lausnin hafi verið þróuð í samvinnu við viðskiptavini. Bankinn hafi verið að skoða hvernig unnt væri að einfalda líf viðskiptavina.
„Við komumst að því að þessi ferli eru þau handvirkustu og tímafrekustu af þeim sem hafa með útgjöld að gera og við vildum leita lausna,“ segir Jóhannes og bætir við að með þessari viðbót stígi bankinn skref í stafrænni fjármálaumsýslu þar sem appið greinir kvittunina og tengir hana við viðkomandi bankafærslu.
„Þetta eykur nákvæmni og minnkar tafir í bókhaldsferlinu sem getur á köflum verið tímafrekt og flókið,“ segir Jóhannes.
Íslandsbanki er í samstarfi við bókhaldskerfi á borð við DK, Payday, Reglu og Wise til að tryggja að upplýsingar um kvittanir og færslur flytjist sjálfkrafa í bókhaldskerfin.
Þetta samstarf opnar nýja möguleika fyrir fyrirtæki til að hámarka skilvirkni og öryggi í fjármálum sínum.
Spurður hvernig viðtökurnar við lausninni hafa verið segir Jóhannes að þær hafi verið góðar og þau fyrirtæki sem bankinn hafi verið í samskiptum við hafi strax orðið mjög spennt fyrir lausninni.
„Þetta er lausn sem kallað hefur verið eftir,“ segir Jóhannes.
Auk þess býður Íslandsbanki nú stafræna útgáfu af innkaupakorti sem veitir fyrirtækjum betri yfirsýn yfir útgjöld starfsmanna. Kortið býður upp á hraðvirkari og gegnsærri rekstur fjármála innan fyrirtækja. Með innkaupakortinu geta starfsmenn fyrirtækja greitt fyrir viðskipti og allar upplýsingar um notkunina eru skráðar í rauntíma í appi bankans.
Jóhannes segir að það séu nokkrir smærri aðilar að kynna sambærilega lausn en þær lausnir bjóði ekki upp á sambærilega fjármögnunarmöguleika og eru í bankanum.
„Það má því segja að við séum ein á markaðnum með þessa lausn,“ segir Jóhannes.