Magnaðir Kyrie Irving og Luka Doncic hafa verið óstöðvandi með Dallas í úrslitakeppninni. Nú mæta þeir firnasterku liði Boston í úrslitunum.
Magnaðir Kyrie Irving og Luka Doncic hafa verið óstöðvandi með Dallas í úrslitakeppninni. Nú mæta þeir firnasterku liði Boston í úrslitunum. — AFP/Cooper Neill
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lokaúrslitarimman í NBA-deildinni hefst loks í nótt í Boston Garden-höllinni í Boston þar sem heimamenn í Celtics taka á móti Dallas Mavericks. Liðin tvö koma inn í þessi úrslit vel hvíld, þannig að búast má við mikilli orku í fyrsta leiknum

NBA

Gunnar Valgeirsson

Los Angeles

Lokaúrslitarimman í NBA-deildinni hefst loks í nótt í Boston Garden-höllinni í Boston þar sem heimamenn í Celtics taka á móti Dallas Mavericks. Liðin tvö koma inn í þessi úrslit vel hvíld, þannig að búast má við mikilli orku í fyrsta leiknum.

Undirritaður hefur spáð því í þessum pistlum frá því að keppnistímabilið hófst að Boston myndi komast í þessa úrslitarimmu, en sigur Dallas í úrslitakeppni Vesturdeildarinnar kom langflestum sérfræðingum og áhangendum verulega á óvart, þar sem liðið hafði ekki leikið sérstaklega vel í deildakeppninni. Hafði til að mynda aðeins einum sigri meira í deildakeppninni en Phoenix Suns og New Orleans Pelicans.

Sá nýja hlið á Dallas

Mavericks átti hins vegar góðan endasprett í deildakeppninni og var bent á það á þessum síðum þegar úrslitakeppnin hófst. Þegar undirritaður sá svo til liðsins í fimmta leik Mavericks hér í Los Angeles gegn LA Clippers í fyrstu umferðinni, sá ég nýja hlið á liðinu.

Augljóst var að þeir Luka Doncic og Kyrie Irving myndu skapa vandamál fyrir hvaða lið sem var í úrslitakeppninni, en þrátt fyrir atorku þeirra og Derecks Livelys og Daniels Gaffords (sem komu mér á óvart í þeim leik) var ekki að sjá að Dallas hefði nægilega breidd í leikmannahópnum til að sigra bestu lið Vesturdeildarinnar í tveimur til þremur einvígum.

Það hefur leitt til þess að ég hef nú spáð Dallas tapi í þremur fyrstu umferðum í úrslitakeppninni til þessa, sem sýnir enn á ný að það veit enginn neitt þegar kemur að spádómum í íþróttakeppni!

Reiða sig á tvær toppstjörnur

Boston hefur átt auðvelda leið í þessi lokaúrslit með öruggum sigrum á Miami Heat, Cleveland Cavaliers og Indiana Pacers, sem hefur leitt til þess að nokkrir sérfræðingar hér vestra hafa spáð í hvort liðið verði nægilega tilbúið í slaginn gegn Dallas. Það er að sjálfsögðu fjarri lagi því þegar í lokarimmuna kemur fara leikmenn að „þefa af“ meistarastyttunni, og það er venjulega nægileg hvatning fyrir flesta leikmenn.

Heimamenn verða tilbúnir í þennan leik.

Dallas lenti hins vegar gegn tveimur toppliðum deildarinnar í úrslitakeppninni vestanmegin, en bæði ung og óreyndari lið Oklahoma City Thunder og Minnesota Timberwolves áttu á endanum ekkert svar við stórleik tvíeykisins Doncics og Irvings. Þessir sigrar benda til þess að á þessum tímapunkti sé kominn tími til að hætta að vanmeta liðið.

Besta bakvarðaparið?

Bæði liðin reiða sig verulega á leik tveggja stjörnuleikmanna sína, þeirra Jaylens Browns og Jasons Tatums hjá Boston, og Doncics og Irvings hjá Dallas.

Stjörnur Dallas reiða sig mikið á þriggja stiga skotin, en þeir Tatum og Brown eru alhliða leikmenn sem geta skorað grimmt hvar sem er á vellinum.

Sumir sérfræðingar hafa haldið því fram undanfarna viku að þeir Doncic og Iriving séu besta bakvarðaparið í sögu deildarinnar, en slíkar skoðanir eru ávallt umdeildar og oftar en ekki byggðar á vankunnáttu á sögu deildarinnar. Þeir hafa hins vegar sýnt í þessari úrslitakeppni að ef Dallas nær að halda leiknum jöfnum þar til á síðustu mínútunum, geta þeir kappar auðveldlega gert út um leikinn í lokin.

„Þeir eru báðir frábærir leikmenn sem leika vel saman og það sem mér líkar best núna er hversu mikla áherslu þeir leggja á að vera bestu varnarleikmenn okkar í leikjunum. Það hefur ekki verið styrkleiki þeirra hingað til, en þetta er nú orðin innbyrðis keppni hjá þeim og það er af hinu góða fyrir liðið,“ sagði Jason Kidd þjálfari Mavericks í vikunni.

Boston er hins vegar með fjóra leikmenn sem geta skorað yfir 20 stig í leik þegar tækifærið gefst, þannig að það er eins gott að Doncic og Irving fái góða hjálp í varnarleiknum.

Boston með jóker í bunkanum

Boston reiðir sig mun meira á liðsheildina og það hefur komið vel í ljós á lokamínútum leikja í þessari úrslitakeppni. Þar að auki er næsta öruggt að miðherjinn Kristaps Porzingis verður búinn að jafna sig á erfiðum meiðslum í kálfa, en hann meiddist fyrir fimm vikum. Það er spil sem Celtics getur nú lagt á borðið, og ef kappinn kemst aftur í það leikform sem hann var í fyrir meiðslin verður það enn einn leikmaðurinn sem Dallas þarf þá að eiga við.

Ef Porzingis nær sér á strik að nýju, mun hann draga miðherja Dallas, Daniel Gafford og Dereck Lively, út á völlinn, því hann er skeinuhættur í þriggja stiga skotum. Þeir Garrod og Lively hafa tjaldað í vítateignum síðustu sex vikur og riðlað sóknarleik LA Clippers, Oklahoma City og Minnesota í fyrstu þremur umferðunum.

„PK hefur verið frábær fyrir okkur allt leiktímabilið og við vitum að við getum reitt okkur á að hann mun leika vel í leikseríunni. Hann fór í gegnum fulla æfingu með liðinu og verður tilbúinn á fimmtudag,“ sagði þjálfari Celtics, Joe Mazzulla, í vikunni.

Stjörnuleikmenn gegn breidd

Sumir NBA-sérfræðingar hér vestra halda því fram að í 56 af 68 lokaúrslitum í sögu deildarinnar, hafi liðið með besta leikmanninn unnið titilinn. Það sem af er hefur Doncic verið besti leikmaðurinn í úrslitakeppninni.

Á móti kemur að liðið með betri árangurinn í deildakeppninni hefur unnið 86% af titlunum, og aðeins eitt lið sem tapaði 14 eða fleiri leikjum en andstæðingurinn hefur unnið – en það á við um Dallas hér.

Verður það besti leikmaðurinn, eða besta liðið, sem vinnur þetta einvígi?

Svarið er ekki einfalt þar sem hver rimma í lokaúrslitunum þróast á sinn hátt.

Boston er betra varnarlið en Dallas, og munar þar mest um komu Jrues Holidays frá Milwaukee Bucks síðasta sumar. Hann er einn af bestu varnarmönnum deildarinnar og gerði góðan varnarleik Celtics enn betri.

Hnífjöfn rimma

Veðbankar og NBA-sérfræðingar í fjölmiðlum hér vestra spá Boston sigri í þessu einvígi, en frá mínum bæjardyrum séð virðist þessi rimma hnífjöfn. Boston er betra varnarlið og með sterkari leikmannahóp, en andskotinn hafi það – það virðist ekkert lið í þessari úrslitakeppni geta stöðvað Luka Doncic á lokamínútum leikja. Minnesota Timberwolves var með besta varnarliðið í deildakeppninni, en átti ekkert svar við leik kappans þegar í harðbakkann sló í lokaeinvígi Vesturdeildarinnar gegn Dallas.

Celtics-liðið hefur oft undanfarin ár verið nálægt því að vinna sinn 18. meistaratitil, sem yrði þá einum fleiri en hjá erkifjendunum í Los Angeles Lakers.

Boston tekur þetta í sjö leikjum. Maður getur víst ekki hætt að veðja gegn Dallas! gval@mbl.is

Höf.: Gunnar Valgeirsson