Sálumessa Útför Halldórs Kiljans Laxness í Landakotskirkju í febrúar 1998. Mikill andans maður var kvaddur.
Sálumessa Útför Halldórs Kiljans Laxness í Landakotskirkju í febrúar 1998. Mikill andans maður var kvaddur. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1998 „… honum auðnaðist að færa til nútímans allt sem Íslendingar höfðu verið að hugsa í 1100 ár“ Vigdís Finnbogadóttir í minningargrein um Nóbelsskáldið

Sviðsljós

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Halldór Kiljan Laxness lifði 20. öldina enda á milli og setti stærri svip á samtíma sinn en flestir aðrir menn gerðu. Hann var höfundur sem færði til bókar aldarfar á Íslandi, viðhorf og veruleika, en var líka óhræddur með skrifum sínum við að brýna þjóð sína til betri hátta. Segja til synda, stundum með lúmsku lagi og húmor. Laxness var maður sem munaði um og Morgunblaðið gerði lífi hans og starfi vegleg skil með aukablaði 14. febrúar 1998; daginn sem honum var sungin sálumessa að kaþólskum sið í Landakotskirkju í Reykjavík.

Frömuður menningar

„Halldór Laxness er ekki einungis fremsta skáld íslensku þjóðarinnar á þessari öld,“ sagði Þröstur Helgason í grein í Morgunblaðinu að skáldinu látnu. „Hann er jafnframt löngu orðinn einn helsti frömuður íslenskrar menningar yfirleitt. Ísland nútímans, eins og það hefur þróast frá lokum fyrri heimsstyrjaldar, endurspeglast óvenjuskýrt í margháttuðum ritverkum hans. Oft hefur staðið styr um hann. Sjaldnast hefur löndum hans staðið á sama um hann; margir hafa dáð hann, aðrir óttast hann. Fá skáld önnur hafa lifað svo heils hugar örlög þjóðar sinnar og túlkað þau sjálf, og jafnframt reynt að hafa bein áhrif á framvindu þeirra.“

Skáldsögurnar stóru sem Laxness skrifaði margar á fyrri hluta 20. aldar skópu honum nafn og voru víða lesnar. Vefarinn mikli, Salka Vala, Heimsljós, Sjálfstætt fólk og Íslandsklukkan eru í þessum flokki og sögupersónur bókanna urðu fólk af holdi og blóði í vitund lesenda.

Gæfumaður í snilld sinni

„Halldór Kiljan Laxness var sá gæfumaður í snilld sinni að honum auðnaðist að færa til nútímans allt sem Íslendingar höfðu verið að hugsa í 1100 ár, um tunguna og frelsið, um afdalalíf, hetjudáðir, um rómantík og sjálfa þrjóskuna. Hann lagði mat á lífsgildin, ekki af því að þau væru röng heldur af því að þau voru ekki í takt við tímana,“ sagði Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, í minningargrein um Laxness hér í Morgunblaðinu.

Aðrir sögðu að Laxness hefði gefið þjóðinni kjark til að heimta sjálfstæði sitt á ný. Blásið alþýðunni lífsanda í brjóst. Staðið með kommúnistum og sósíalistum og þar með á móti íhaldi og linkind, aumingjaskap og yfirdrepsskap. Þorað að ráðast gegn valdhöfum landsins og að skamma þá. Einnig lagt í að skamma alþýðu landsins til þrifnaðar og dirfsku. Allt þetta voru skrif sem landinn las og mótaði sér skoðanir á sem þó voru ekki á eina lund. Raunar fjarri því. Fáir menn hafa á sínum besta tíma verið jafn umdeildir og Halldór Laxness var. Afstaða til skrifa Laxness var skýr átakalína í þjóðlífinu öllu.

„Hann reif fólk sitt upp úr aldagömlum hjólförum hugsana, orða, verka og óvenja og þessi herhvöt og harkalegt rúmrusk, vakti þá upp með andfælum þá sem fastir voru orðnir … En að sama skapi vakti ögrandi plægingarhljóðið dunandi blómstraum í brjósti ungs fólks sem beið eins og vormold eftir vinnslu og sáningu. Og það vantaði þá ekki kjarngresisfræin í skjóðu hans,“ segir Emil Björnsson, lengi fréttastjóri Sjónvarpsins, í bókinni Minni og kynni sem út kom 1985.

Kommúnisminn er landplága

Þau rauðu viðhorf og stefnur í stjórnmálum sem Halldór Laxness aðhylltist og talaði lengi fyrir voru líka umdeild. Hann viðurkenndi þó síðar að þar hefði hann fylgt villuljósi, sbr. bókina Skáldatíma frá 1963. Hafði þá séð hlutina í nýju ljósi og gerði grein fyrir því í bók. Þau umskipti þóttu tíðindum sæta; það að Nóbelsskáldið segði kommúnisma vera landplágu.

„Það er vissulega nokkurs virði þegar maður með lífsreynslu Halldórs Laxness mælir slík orð. Þeir fjölmörgu Íslendingar, sem aðhyllzt hafa kommúnismann á grundvelli þess misskilnings, að hann hafi skapað rússnesku fólki góð og þroskavænleg lífsskilyrði, ættu að hugleiða þennan boðskap Nóbelsskáldsins. Halldór Laxness sagði þessu fólki einu sinni að kommúnisminn væri fullkomnasta þjóðskipulag á jörðinni. Margir Íslendingar trúðu því. Nú hefur þetta fræga skáld allt aðra sögu að segja,“ sagði í leiðara Morgunblaðsins 26. október 1963.

Darka einsog naut í flagi

Morgunblaðið og skáldið áttu langa samfylgd, eins og áður hefur verið rifjað upp hér þegar litið er yfir 110 ára sögu blaðsins. Blaðið sagði jafnan frá nýjum bókum skáldsins og lagði allt undir þegar hann landaði Nóbelsverðlaununum í bókmenntum árið 1955. Þegar þar var komið sögu má annars segja að Laxness hafi verið kominn á lygnan sjó; orðinn viðurkennt skáld sem þjóðin virti. En hann var þó ekki lagstur í neina loðmullu samanber greinina „Hernaðinn gegn landinu“ sem birist í Morgunblaðinu á gamlársdag 1970. Þar var farið vítt yfir sviðið og virkjunaráform gagnrýnd, svo sem stækkun Laxárvirkjunar í Aðaldal nyrðra, en samkvæmt þeim áformum sem þá lágu fyrir átti að sökkva víðfeðmum svæðum undir vatn og breyta ýmsu í þágu orkuöflunar, skv. hugmyndum Orkustofnunar.

„Vandræðin byrja þegar stofnun, sem fæst við niðurskipun orkuvera handa einhverri tilvonandi stóriðju, veitir virkjunarfyrirtækjum fríbréf til að darka í landinu einsog naut í flagi og jafnvel hyllast til þess að skaðskemma ellegar leggja í eyði þau sérstök pláss sem vegna landkosta, náttúrudýrðar ellegar sagnhelgi eru ekki aðeins íslensku þjóðinni hjartfólgin, heldur njóta frægðar um víða veröld,“ sagði skáldið og hélt áfram:

„Vandamálið er oftrú þeirra í Orkustofnun á endalausar málmbræðslur sem eigi að fylla þetta land. Þá fyrst er land og lýður í háska þegar svona kontór ætlar með skírskotun til reikníngsstokksins að afmá eins marga helga staði Íslands og hægt er að komast yfir á sem skemstum tíma; drekkja frægum bygðarlögum í vatni og helst fara í stríð við alt sem lífsanda dregur á Íslandi.“

Kontóristabæli

Hér má einnig tiltaka Morgunblaðsgrein Halldórs „Brauð Reykjavíkur“ sem birtist 1971. Hún fjallaði um Bernhöftstorfuna í Reykjavík sem þá kom til greina að rífa „... og reisa þar í staðinn eitthvert skelfilegt kontóristabæli sem er að reyna að líkjast keisarahöll“, sagði skáldið um húsin gömlu sem var þyrmt. Mörgum hefur verið helgaður heiðurinn af því.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson