Embætti landlæknis gerir athugasemdir við frumvarp til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Gagnrýnin kemur fram í umsögn til velferðarnefndar Alþingis en landlæknir telur orðalag í breytingartillögu um aðgang að rannsóknum geta valdið misskilningi og leggur til nýtt og skýrara orðalag

Embætti landlæknis gerir athugasemdir við frumvarp til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Gagnrýnin kemur fram í umsögn til velferðarnefndar Alþingis en landlæknir telur orðalag í breytingartillögu um aðgang að rannsóknum geta valdið misskilningi og leggur til nýtt og skýrara orðalag.

Tillaga að nýrri setningu núgildandi laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði er sú, að bætt sé við eftirfarandi setningu: „Ábyrgðaraðili veitir aðgang að heilbrigðisgögnum þegar ábyrgðarmaður rannsóknar framvísar leyfi vísindasiðanefndar eða siðanefndar heilbrigðisrannsókna.“

Gæti valdið misskilningi

Landlæknir gerir athugasemd við orðalag í þessari tillögu þar sem hún gæti valdið misskilningi á þann hátt að það skyldi ábyrgðaraðila gagna til að afhenda gögn eingöngu á forsendum leyfis vísindasiðanefndar, óháð því hvort leyfi ábyrgðaraðilans sjálfs liggi fyrir, sem sé í andstöðu við 2. málslið þar sem kveður á um að aðgangur sé háður samþykki ábyrgðaraðilans.

Í staðinn leggur embættið til að setningin verði svona: „Ábyrgðaraðila er heimilt að veita aðgang að heilbrigðisgögnum þegar ábyrgðarmaður rannsóknar framvísar leyfi vísindasiðanefndar eða siðanefndar heilbrigðisrannsókna.“

Lengir umsóknarferlið

Embætti landlæknis lýsir sig einnig andvígt því að afnema aðkomu ábyrgðaraðila að umfjölllun um umsóknir og sjálfstæði við ákvarðanatöku um aðgang að gögnum til vísindarannsókna eins og fram kemur í umsögn frá Íslenskri erfðagreiningu og heilbrigðisráðuneyti tekur undir. Telur landlæknir að það muni svipta ábyrgðaraðila gagna ábyrgð sinni á gögnunum og sú ábyrgð yrði látin alfarið í hendur vísindasiðanefndar.

Þá telur landlæknir að ef þessi breytingatillaga nær fram að ganga verði það ekki til þess að stytta umsóknarferlið né heldur sé fyrirsjáanlegt að hún myndi hafa áhrif til styttingar afhendingartíma á gögnum rannsakenda.

Hins vegar myndi breytingartillagan leggja aukna ábyrgð á hendur vísindasiðanefnd sem aftur myndi leggja auknar kröfur á hendur starfsfólks nefndarinnar að mati embættisins. sigridurh@mbl.is