Hjónin Einar og Eyrún stödd í Rósakaffi í Hveragerði.
Hjónin Einar og Eyrún stödd í Rósakaffi í Hveragerði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eyrún Sæmundsdóttir fæddist í Sólheimahjáleigu í Mýrdal 6. júní 1934. Þar ólst hún upp hjá foreldrum sínum og varð síðar bóndi og húsmóðir ásamt eiginmanni sínum alla sína starfsævi. Eyrún gekk í barnaskólann á Eystri-Sólheimum og stundaði jafnframt nám í Skógaskóla á unglingsárum

Eyrún Sæmundsdóttir fæddist í Sólheimahjáleigu í Mýrdal 6. júní 1934. Þar ólst hún upp hjá foreldrum sínum og varð síðar bóndi og húsmóðir ásamt eiginmanni sínum alla sína starfsævi. Eyrún gekk í barnaskólann á Eystri-Sólheimum og stundaði jafnframt nám í Skógaskóla á unglingsárum.

Eyrún kynntist eiginmanni sínum ung að árum en hann var frá Holti í sömu sveit.

Einar og Eyrún bjuggu saman í Danmörku í tvö ár þar sem Einar stundaði nám við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Í Danmörku stundaði Eyrún nám í dönskum húsmæðraskóla og bar heimilisbragurinn í Sólheimahjáleigu þess merki alla tíð, m.a. í matargerð og danskri hönnun sem þau fluttu heim með sér. Eftir að Eyrún og Einar fluttu aftur heim til Íslands ráku þau búið í Sólheimahjáleigu með foreldrum Eyrúnar fyrstu árin en tóku svo alfarið við búinu í tímans rás.

Einar maður Eyrúnar var mikið að heiman vegna vinnu sinnar sem ráðunautur og þá gekk hún í öll þau störf sem þurfti á bænum, hvort sem það var að mjólka kýr eða moka skít. Þetta gerði hún ásamt því að sinna heimilisstörfunum, sauma föt á börnin sín og sinna veikri móður og langveiku barni. Ekki munaði hana um að taka börn til sumardvalar ofan á allt annað á heimilinu.

Í Sólheimahjáleigu var alltaf mikill gestagangur, bæði innlendra og erlendra gesta, einkum á sumrin og oft sofið hvar sem pláss var. Voru þau hjón afar gestrisin og frystirinn fullur af mat og góðgæti sem Eyrún bakaði. Það þótti nú ekki taka því að baka kleinur nema úr alla vega 2 kg af hveiti og kartöflur voru ekki skammtaðar í pott 1-2 á mann heldur alltaf eldaður fullur pottur svo örugglega yrði nóg ef aukagestur væri í mat. Árið 1986 hófu þau ferðaþjónustu samhliða búskapnum, fyrst í þremur herbergjum í gamla bænum en síðan óx ferðaþjónustan og dafnaði enda Eyrún vakin og sofin yfir henni og var ferðaþjónustan rekin af miklum myndarbrag. Á fyrstu árum ferðaþjónustunnar fannst henni hún ekki alveg nógu sleip í ensku svo hún keyrði til Reykjavíkur í enskunám og vílaði það nú ekki fyrir sér frekar en annað sem hún hefur tekið sér fyrir hendur í lífinu.

Eyrún er mikill femínisti og ein af þessum konum sem fæddust á fyrri hluta 20. aldarinnar sem rutt hafa braut yngri kvenna. Hún var til að mynda önnur konan í Vestur-Skaftafellssýslu til þess að taka bílpróf því hún vildi vera sjálfstæð og ekki upp á aðra komin. Hún vann í sláturhúsinu í Vík á haustin, í Víkurskála nokkur sumur og á hjúkrunarheimilinu Hjallatúni fram að sjötugu, því í hennar huga var fjárhagslegt sjálfstæði mikilvægt og vildi hún ekki vera upp á eiginmanninn komin með skotsilfur. Lopapeysur hefur hún alla tíð prjónað og selt í bílförmum og ágóðann hefur hún nýtt í ferðalög, t.d. til sólarlanda.

Eyrún var mjög virk í félagsmálum sem flestöll tengjast hennar áhugamálum. Hún er mikil söngmanneskja og hefur alla tíð sungið í kórum, bæði kirkjukór Skeiðflatarkirkju og samkór Mýrdalshrepps meðan hann starfaði, sem og kór eldri borgara í Vík. Hún hefur verið virkur félagi í Kvenfélagi Dyrhólahrepps frá unga aldri og gegndi lengi formennsku þar. Jafnframt starfaði hún í hestamannafélaginu Sindra en hestamennska og útreiðartúrar eru hennar líf og yndi enda sameina þeir það sem henni hefur alla tíð verið hjartfólgið, náttúran, útivist og samneyti við hestinn.

Eyrún er mikill húmoristi og lentu nágrannakonurnar oft í einhverju sprelli hjá henni. Eyrún er með eindæmum bóngóð kona og fátt sem hún hefur ekki gert fyrir sitt fólk í gegnum tíðina, hvort heldur er að passa barnabörnin eða aðstoða við málningarvinnu.

Eyrún hefur alla tíð verið mikil félagsvera og nýtur þess að vera innan um fólk enda sleppir hún aldrei góðri veislu, nýtur þess að fara á tónleika, í leikhús og fer alltaf á allar skemmtanir sem í boði eru. Hennar helstu áhugamál eru söngur, handavinna, ferðalög bæði innanlands og utan, garðrækt, blóm og náttúra Íslands. Í Sólheimahjáleigu lögðu þau Einar mikla áherslu á skógrækt og garðurinn í kringum húsið þeirra var einn sá fallegasti í Mýrdal með tignarlegum trjám og alls konar blómum, bæði fjölærum og sumarblómum.

„Mér er efst í huga þakklæti fyrir hvað ég hef það gott, á gott heimili og er hraust. Ég dvel núna á Hjallatúni í Vík en á hús hér rétt hjá og fer þangað oft á daginn,“ segir Eyrún.

Fjölskylda

Eiginmaður Eyrúnar var Einar Þorsteinsson, f. 31.8. 1928, d. 24.8. 2019, héraðsráðunautur og bóndi í Sólheimahjáleigu. Foreldrar Einars voru Jóhanna Margrét Sæmundsdóttir, f. 14.8. 1895, d. 1.7. 1982, og Þorsteinn Einarsson, f. 25.9. 1880, d. 7.1. 1943, bændur í Holti í Mýrdal. Þau gengu í hjónaband 24.11. 1917.

Börn Eyrúnar og Einars: Stúlka, andvana fædd í ágúst 1957; Áslaug, f. 13.10. 1958, þroskaþjálfi í Vík í Mýrdal. Maki: Sigurður Karl Hjálmarsson; Jóhanna Margrét, f. 15.11. 1959, stjórnmálafræðingur í Reykjavík. Maki: Þórður Grétarsson; Jón Bragi, f. 6.4. 1963, búsettur á Hvolsvelli; Elín, f. 8.3. 1967, skólastjóri og ferðaþjónustubóndi í Mýrdal. Maki: Jónas Marinósson; Unnur Björk Arnfjörð, f. 1.5. 1976, verkefnastjóri og kennari í Reykjavík. Maki: Páll K. Sæmundsson. Barnabörnin eru 10 og barnabarnabörnin 14.

Systkini Eyrúnar voru drengur, f. 23.2. 1931, d. 23.2. 1931; Jón, f. 27.3. 1932, d. 27.4. 1933, og stúlka, f. 8.7. 1935, d. 8.7. 1935.

Foreldrar Eyrúnar voru hjónin Sæmundur Elías Jónsson, f. 31.12. 1897, d. 29.1. 1984, og Áslaug Magnúsdóttir, f. 9.12. 1905, d. 27.8. 1969, bændur í Sólheimahjáleigu. Þau gengu í hjónaband 25.9. 1930.