Samgöngur Grímseyjarferjan Sæfari sem áður var rekin af Samskipum.
Samgöngur Grímseyjarferjan Sæfari sem áður var rekin af Samskipum. — Morgunblaðið/ÞÖK
„Það er ekkert nýtt að gerast í þessu,“ segir G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar um rekstur Grímseyjarferjunnar Sæfara. „Við erum ennþá að reka Grímseyjarferjuna og það er ekki búið að taka neina ákvörðun um framhaldið,“ segir Pétur

Valgerður Laufey Guðmundsdóttir

vally@mbl.is

„Það er ekkert nýtt að gerast í þessu,“ segir G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar um rekstur Grímseyjarferjunnar Sæfara.

„Við erum ennþá að reka Grímseyjarferjuna og það er ekki búið að taka neina ákvörðun um framhaldið,“ segir Pétur.

Áður ráku Samskip Grímseyjarferjuna, frá árinu 1996 og út marsmánuð í fyrra. Til stóð að opna fyrir útboð 14. apríl í fyrra en þremur dögum fyrir áætlað útboð var það afturkallað í tilkynningu sem áhugasamir bjóðendur fengu senda:

„Í ljósi forsendubrests hefur verið ákveðið að afturkalla útboðið og hætta innkaupaferlinu. Nýtt innkaupaferli verður auglýst síðar á árinu með endurskoðaðri útboðs- og verklýsingu.“

Gæti orðið langt í útboð

Vegagerðin tók við rekstri ferjunnar og samdi við áhöfn hennar út árið. Nú er liðið rúmt ár síðan og staðan sú að nýtt útboð hefur aldrei verið auglýst.

„Það er ekki að gerast á næstunni og ef við förum í útboð þá er langt í það,“ segir Pétur.

Spurður segir hann að áhöfn ferjunnar sé sú sama og var hjá Samskipum þegar Vegagerðin tók við rekstrinum.

„Við rekum þetta eins og Samskip gerðu áður,“ segir Pétur að lokum.

Grímseyjarferjan

Ferjuleið á milli Dalvíkur og Grímseyjar.

Flytur farþega og frakt.

Um 40 metrar á lengd.

Tekur um 108 farþega.

Siglingin tekur um 3 klukkustundir hvora leið.

Siglir þrisvar til fjórum sinnum í viku yfir veturinn en fimm sinnum í viku yfir sumarið.