Fiskeldi Vel var mætt á markaðsdaginn í Valhöll á Eskifirði. Bæjarstjóri Fjarðabyggðar er fremst á myndinni.
Fiskeldi Vel var mætt á markaðsdaginn í Valhöll á Eskifirði. Bæjarstjóri Fjarðabyggðar er fremst á myndinni. — Ljósmynd/Eyþór Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á markaðsdegi laxeldisfyrirtækisins Kaldvíkur á Eskifirði í síðustu viku kom fram í máli Asles Rønnings, forstjóra Austur holding AS sem á 55,29% í Kaldvík, en Rønning er jafnframt stjórnarformaður Kaldvíkur, að þrjár meginástæður væru fyrir því að hann væri stoltur af því að vera í laxeldi

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Á markaðsdegi laxeldisfyrirtækisins Kaldvíkur á Eskifirði í síðustu viku kom fram í máli Asles Rønnings, forstjóra Austur holding AS sem á 55,29% í Kaldvík, en Rønning er jafnframt stjórnarformaður Kaldvíkur, að þrjár meginástæður væru fyrir því að hann væri stoltur af því að vera í laxeldi. Fyrir það fyrsta væri hann stoltur af því að taka þátt í að fæða heiminn með sjálfbærum matvælum. Hann sagði að tíu milljarðar manna myndu búa á jörðinni árið 2050 sem er 25% aukning frá því sem nú er. Þá muni hagvöxtur aukast um 50% á tímabilinu. Það auki eftirspurn eftir fæðu um 50-60%. „Matvælaframleiðsla er loftslagsáskorun númer tvö á eftir orkuframleiðslu og stendur fyrir um 30% alls kolefnisútblásturs. Núna kemur mest af dýrapróteini frá fiskveiðum og landbúnaði en þar er lítið hægt að auka við. Framleiðsla á laxi er mjög samkeppnishæf og mun umhverfisvænni en til dæmis svínarækt sem losar 100% meira kolefni en laxeldi.“

Í öðru lagi sagði Rønning að verið væri að skapa samkeppnishæf störf á Íslandi, á landsbyggðinni og utan Íslands. „Í Noregi, þar sem við búum að 50 ára reynslu af laxeldi, verður eitt starf í stoðiðnaði til fyrir hvert starf í laxeldinu. Ég geri ráð fyrir að það sama gerist hér.“

Hann lagði áherslu á að enn þyrfti talsverða fjárfestingu til að efla og þróa iðnaðinn og hann vonaðist til að stjórnmálamenn væru meðvitaðir um það. Aðstæður greinarinnar þyrftu að vera réttar og samkeppnishæfar.

Þriðja atriðið sem hann kvaðst stoltur af var að fiskneysla hjálpar til við að koma í veg fyrir hjartasjúkdóma. Hann sagði að Kaldvík myndi búa til u.þ.b. tvær milljónir heilsusamlegra máltíða á viku um allan heim á árinu 2024.

Fjórtán staðsetningar

Rønning sagði að Kaldvík væri í dag með rekstur á 14 stöðum í fjórum fjörðum og framleiddi 7-8 milljónir 400 gramma seiða á ári. Sú stærð stytti tíma fisksins í sjónum, yki lífslíkur hans og minnkaði áhættu í rekstrinum. 28 þúsund fiskum er slátrað dag hvern hjá Kaldvík.

Búnaður og tæki eru að sögn Rønnings öll fyrsta flokks sem er besta leiðin til að koma í veg fyrir að lax sleppi úr kvíum. Myndavélaeftirlitsbúnaður er hátæknivæddur og notar m.a. gervigreind til að fylgjast náið með ástandi fisksins. Búnaðurinn telur fiskana og mælir sundhraða og hegðun m.a.

Unnið að lagasetningu

Kolbeinn Árnason, skrifstofustjóri matvælaráðuneytisins, sagði á markaðsdeginum að unnið væri að lagasetningu fyrir greinina þar sem áhersla væri á heildstæðan ramma og sjálfbæran iðnað til framtíðar. Jafnvægi þyrfti að nást milli umhverfissjónarmiða og framtíðarsýnar iðnaðarins.

Hann sagði að Ísland bæri 144.500 tonna eldi en sagði að vöxtur hefði ekki verið samkvæmt væntingum í iðnaðinum. Kvaðst hann ánægður með að verið væri að fjárfesta í umgjörð greinarinnar.

Þá væru í lagafrumvarpinu hvatar sem þýða að ef reksturinn gengur vel, þ.e. dauði fiska og lúsamengun er lítil eða engin, fengjust meiri leyfi. Ef því er öfugt farið myndi það koma niður á leyfunum. Umhverfisvæn starfsemi væri þannig verðlaunuð.

Um skattheimtu sagði hann að skattur ætti að verða hærri eftir því sem hagnaður eykst og öfugt.

Sagði hann að iðnaðurinn gæti vaxið upp í 100 þúsund tonn á grundvelli núverandi leyfa en ef meiri hagkvæmni og skilvirkni næðist væri hægt að vaxa upp í 150 þúsund tonn og jafnvel 234 þúsund tonn.

Í erindi hans kom fram að söluandvirði eldislax í sjó gæti orðið 213 milljarðar króna árið 2032 og 400 milljarðar samtals af sjókvíaeldi og landeldi.

Þá kom fram að margar af reglunum í frumvarpinu væri nú þegar búið að innleiða hjá Kaldvík.

20,6 milljónir á mann

Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, sagði í sínu erindi að útflutningsverðmæti Austfjarða væri 20,6 milljónir á mann á ári miðað við 2,6 milljónir á mann fyrir Ísland í heild og benti á að 2,9% landsmanna byggju á Austfjörðum en fjórðungurinn stæði undir 15% útflutningstekna landsins. Sagði hún mikil tækifæri fram undan og hvatti til áframhaldandi fjárfestinga í landshlutanum.

Góð fjárfesting

Einar Sigurðsson, stjórnarformaður Ísfélagsins, sem á 29,3% hlut í meirihlutaeiganda Kaldvíkur, Austur Holding AS, sagði á markaðsdeginum að Ísfélagið hefði skoðað laxeldið vandlega áður en ráðist var í fjárfestinguna. Hann bætti við að félagið hygðist fjárfesta meira í greininni í framtíðinni. Hann sagði einnig að íslensk eldisfyritæki væru góð fjárfesting en ekki áhættulaus.

Sagði hann að nýr iðnaður væri að vaxa úr grasi sem yrði mikil og góð stoð fyrir samfélögin úti á landi, bæði hvað störf og tekjur varðar. Möguleikarnir væru miklir.

Hann lagði í erindi sínu áherslu á að tryggja þyrfti að lög og reglur tefðu ekki framgang greinarinnar líkt og gerst hefði í orkugeiranum.

„Iðnaðurinn er kominn til að vera og almenn umræða í landinu þarf að miðast við það,“ sagði Einar og einnig að ekki mætti setja of íþyngjandi skatta og reglur á jafn ungan iðnað og laxeldið er.

Framleiðsla

Matvælaframleiðsla er loftslagsáskorun númer tvö á eftir orkuframleiðslu.

Söluandvirði eldislax í sjó var 213 milljarðar króna árið 2032 og 400 milljarðar samtals af sjókvíaeldi og landeldi.

2,9% landsmanna búa á Austfjörðum en fjórðungurinn stendur undir 15% útflutningstekna landsins.

Búa til 2 milljónir máltíða á viku á þessu ári.

Höf.: Þóroddur Bjarnason