Heimilisiðnaðarfélag Íslands er fyrsta félagið á Íslandi sem hlýtur tilnefningu UNESCO og það tíunda á Norðurlöndunum. Þetta verður staðfest á allsherjarþingi UNESCO í París dagana 11.-12. júní næstkomandi og verður félagið þar með eitt af rúmlega 200 félögum sem gegna ráðgefandi hlutverki hjá UNESCO.
Vorið 2023 sótti félagið um að vera viðurkennt af UNESCO sem frjáls félagasamtök sem vinna að varðveislu menningarerfða en viðurkenninguna hljóta aðeins þau félög sem hafa sýnt fram á hæfni, sérþekkingu og reynslu við varðveislu menningarerfða.
Hlutverk félagasamtaka sem viðurkennd eru af UNESCO er að veita þessari stofnun Sameinuðu þjóðanna ráðgjöf á sviði menningarerfða. Viðurkennd félagasamtök mega nota UNESCO-stimpilinn í sinni útgáfu og fá boð á allsherjarþing UNESCO.
Kristín Vala Breiðfjörð, formaður Heimilisiðnaðarfélags Íslands, segir það mikinn heiður að fá þessa tilnefningu. Aðspurð hvaða þýðingu þessi viðurkenning hafi fyrir félagið, segir hún að hún veiti þeim aukið vægi í umræðunni um menningarerfðir. Söfnin hafi það hlutverk að varðveita muni, eins og refilsaumuðu klæðin sem voru á sýningu Þjóðminjasafnsins Með verkum handanna síðasta vetur, en það er markmið Heimilisiðnaðarfélags Íslands að varðveita verkþekkinguna á bak við dýrgripi þjóðarinnar og miðla áfram til komandi kynslóða. Það geri félagið meðal annars með námskeiðum, t.d. námskeiði í refilsaum, sem félagið hélt síðasta vetur.
„Við vonum að þessi viðurkenning verði til þess að auka hróður félagsins út á við og opna á ný sambönd við félög og stofnanir erlendis sem vinna að sama markmiði, að viðhalda þekkingu á handverki og vekja áhuga almennings á að stunda handverk sem á sér þjóðmenningarlegar rætur,“ sagði Kristín. sigridurh@mbl.is