[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handknattleiksmarkvörðurinn Einar Baldvin Baldvinsson er genginn til liðs við Aftureldingu en hann kemur frá Gróttu. Einar Baldvin hefur spilað með Gróttu við góðan orðstír undanfarin ár

Handknattleiksmarkvörðurinn Einar Baldvin Baldvinsson er genginn til liðs við Aftureldingu en hann kemur frá Gróttu. Einar Baldvin hefur spilað með Gróttu við góðan orðstír undanfarin ár. Afturelding komst í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í vor og stefnir einu skrefi lengra á næsta tímabili.

Guðrún Arnardóttir, landsliðskona í knattspyrnu, var í gær útnefnd besti leikmaður maímánaðar í sænsku úrvalsdeildinni. Guðrún er í lykihlutverki í varnarleik Rosengård sem hefur unnið alla átta leiki sína á tímabilinu og aðeins fengið á sig tvö mörk.

Tillaga Wolverhampton Wanderers um að hætta notkun myndbandsdómgæslu, VAR, við dómgæslu leikja í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu var felld með miklum meirihluta á ársfundi deildarinnar í gær. Hin 19 félögin kusu gegn því að hætta myndbandsdómgæslu.

Harry Maguire, James Maddison, Curtis Jones og Jack Grealish eru meðal þeirra sem ekki komust í endanlegan 26 manna hóp Englands fyrir EM í knattspyrnu en Gareth Southgate tilkynnti hópinn í gær.

Tindastóll mun taka sæti Fjölnis í úrvalsdeild kvenna í körfubolta á næsta tímabili. Fjölnir dró lið sitt úr keppni í síðustu viku og var því eitt laust sæti í deildinni. KKÍ bauð Tindastóli sætið og staðfesti félagið í gær að það hefði tekið boðinu. Tindastóll mun því leika í efstu deild í fyrsta sinn síðan árið 2000.

Danski körfuknattleiksmaðurinn Daniel Mortensen hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Grindavík. Hann kom til Grindavíkur frá Haukum síðasta sumar og var lykilmaður í liði sem fór alla leið í oddaleik úrslita Íslandsmótsins. Mortensen lék fyrst hérlendis með Þór Þorlákshöfn og varð Íslandsmeistari árið 2021.

Úrúgvæinn Darwin Núnez skoraði þrennu í vináttulandsleik Úrúgvæ og Mexíkó í Denver í fyrrinótt. Úrúgvæ vann leikinn 4:0 en Núnez skoraði tvisvar í fyrri hálfleik og fullkomnaði þrennuna í þeim seinni. Núnez átti erfitt uppdráttar með Liverpool undir lok síðasta tímabils en það virðist ekki hafa áhrif á kappann með landsliðinu.

Framherjinn Erling Haaland nálgast markamet norska landsliðsins í knattspyrnu karla óðfluga. Haaland skoraði öll þrjú mörk Noregs í sigri á Kósóvó í fyrrakvöld, 3:0, og hefur skorað 30 mörk í 32 landsleikjum en metið er níutíu ára gamalt. Jörgen Juve skoraði 33 mörk fyrir Noreg í 30 leikjum á árunum 1929-1934 og hefur haldið markametinu síðan.