Hendrik Björn Hermannsson fæddist í Reykjavík 21. mars 1975, hann lést 20. maí 2024.

Móðir hans er Kristín Benediktsdóttir, f. 2.6. 1954, maki hennar var Sigurður Júlíus Stefánsson, f. 4.9. 1952, d. 14.7. 2018. Foreldrar Kristínar voru Benedikt Ólafsson, f. 10.1. 1925, d. 28.1. 2020, og Björg Ólöf Berndsen, f. 25.4. 1928, d. 8.2. 2019. Systkini hennar eru Ólafur, f. 3.8. 1952, og Birna Elísabet, f. 6.10. 1957.

Faðir Hendriks var Hermann Gunnarsson, f. 9.12. 1946, d. 4.6. 2013. Foreldrar Hermanns voru Gunnar Gíslason, f. 14.7. 1922, d. 9.10. 2005, og Björg Sigríður Hermannsdóttir, f. 27.6. 1924, d. 30.4. 1990. Systkini hans eru Ragnar, f. 3.2. 1956, Sigrún, f. 11.2. 1948, d. 26.10. 2008, og Kolbrún, f.13.5. 1961.

Systkini Hendriks sammæðra eru Þráinn Arnar Þráinsson, f. 30.1. 1983. Hann er giftur Margréti Kristínu Júlíusdóttur og synir þeirra eru Viktor Nóel og Júlíus Arnar. Björg Ólöf, f. 18.10. 1987. Hún er í sambúð með Magnúsi Guðmundssyni og dóttir Bjargar er Birta Kristín.

Systkini Hendriks samfeðra eru Sigrún, f. 31.12. 1971, Þórður, f. 21.4. 1973, Björg Sigríður, f. 10.4. 1983, Edda, f. 18.4. 1986, og Eva Laufey, f. 16.5. 1989.

Hendrik var í sambúð með Hrönn Jensdóttur, f. 27.2. 1976, og sonur þeirra er Benedikt, f. 6.8. 2000. Hendrik og Hrönn slitu sambúð.

Hendrik ólst upp í Reykjavík og fyrstu árin bjuggu hann og mamma hans á heimili afa hans og ömmu í Langagerðinu. Þau fluttu síðar í Breiðholtið, árið 1983 fluttu þau í Búðardal og árið 1985 fluttu þau í Borgarnes ásamt stjúpföður Hendriks, Þráni Eiríki Skúlasyni, f. 24.4. 1959. Kristín og Þráinn skildu árið 2005.

Eftir annað árið í menntaskóla ákvað Hendrik að breyta um stefnu í námi og lærði til þjóns sem hann starfaði við meira og minna allt frá þeim degi. Hann elskaði það starf og sá aldrei eftir þeirri ákvörðun enda var hann búinn að starfa í veitingabransanum í 30 ár þegar hann lést.

Útför Hendriks fer fram í Háteigskirkju í dag, 7. júní 2024, klukkan 13.

Hendrik minn gaf lífinu lit, alla regnbogans liti. Hann fór upp fjöll og niður dali en alltaf kom hann til baka fílefldur að takast á við næsta verkefni.

Við töluðum saman daglega og stundum oft á dag og ég fékk þannig að fylgjast með öllu sem var í gangi hjá honum sem svo sannarlega var ekki lítið. Það var alltaf „alveg brjálað“ en hann gaf sér tíma í smá spjall og gat endalaust grínast við mig og glatt mig og kætt með skemmtilegum frásögnum af ýmsu tagi. Ég vann stundum hjá honum og það var alls ekki leiðinlegt, hann fól mér eitt sinn á Skólabrú, sem var veitingastaður sem hann rak um tíma, að hella vatni í glös gesta sem og ég gerði mjög samviskusamlega, svo kom hann til mín og hvíslaði að mér: „Þú ert að drekkja gestunum og ég sel ekkert vín,“ og svo hló hann svo innilega eins og hans var von og vísa. Það sem lýsir Hendrik mínum best er hvað hann naut þess að gleðja aðra og hvað hann var góður við þá er minna máttu sín. Gjafmildi hans náði út fyrir „endamörk alheimsins“. Þegar ég varð þrítug fór Hendrik minn með alla sparipeningana sína upp í Kaupfélagið í Búðardal og keypti gjöf handa mér. Gjöfin var vel pökkuð inn og minn maður arkaði af stað heim og sveiflaði pokanum í allar áttir og skælbrosandi færði hann mér gjöfina sem var stytta af feitum kokki, en því miður var hún mölbrotin eftir allar þessar sveiflur. Við Hendrik í sameiningu límdum saman feita kokkinn og hann stendur enn uppi á hillu hjá mér og ég horfi oft á þessa styttu og fyllist þakklæti fyrir að eiga þennan ljúfa, skemmtilega og yndislega dreng.

Þráni og Björgu var hann góður og yndislegur bróðir sem passaði þau, verndaði og stríddi þeim og oft var mikið fjör, hann náði að gera þau alveg vitlaus á stuttum tíma en þetta endaði nú alltaf eða oftast með hlátrasköllum hjá skyttunum mínum þremur. Hendrik minn átti einn son, Benedikt, sem er yndislegur ungur maður, móðir hann er Hrönn og ég er ævinlega þakklát fyrir að hún er mamma hans Benna og það var Hendrik líka. Hendrik og Benni voru frábærir feðgar og gæti ég endalaust skrifað um þá og þeirra samband en á milli þeirra ríkti mikill kærleikur, þeir elskuðu hvor annan eins og þeir voru og missir Benna míns er sár og mikill.

Hendrik elskaði líka systkinabörnin sín endalaust og vildi gjarnan fá að heyra um þau eða frá þeim daglega. Það er mikil sorg og söknuður hjá öllu hans fólki, systkinum, frænkum og frændum og svo hans góðu vinum og ég bið Guð að gefa þeim styrk á þessum erfiðu tímum. Hendrik minn var hjartveikur en fór í litlu eftir ráðleggingum lækna hvað heilsu hans varðaði og því fór sem fór. Ég er þó þakklát fyrir að hafa átt 49 ár með elsku drengnum mínum.

Nú er komið að kveðjustund, elsku ástin mín, sárið er svo djúpt og stórt og sárt að mér finnst ég ekki geta andað og ég bíð enn eftir símtalinu og mun eflaust gera það um sinn, elskan mín. Sorgin er svo sár enda á sorgin ekki samleið með neinum.

Guð blessi og varðveiti þig, elsku hjartans drengurinn minn, og ég mun hitta þig á ný þegar minn tími kemur.

Elska þig alltaf.

Þín

mamma.

Elsku hjartans bróðir okkar. Þú sem passaðir upp á okkur og stríddir mest af öllum. Sárin eru djúp en minningarnar dýpri. Þú komst alltaf með gleði og ljós inn í allar aðstæður, hlátur þinn hár og smitandi sem fyllti rýmið ásamt angandi Armani Code sem var svo sannarlega ilmurinn þinn.

Það er stórt skarð sem þú skilur eftir þig, elsku bróðir, og nú er það svart, svartara en listinn sem fjölskyldan var á á flestum vídeóleigum landsins eftir þig. Maður gat þá notað það sem afsökun að eiga fullt í fangi með að skila vídeóspólum þegar þú varst að biðja okkur um ýmiss konar greiða.

Elsku bróðir, hjartalag þitt var einstakt og þó að hjarta þitt hafi gefið eftir þá gafst þú aldrei eftir í ást, umhyggju eða gjöfum. Með eindæmum rausnarlegur, sannur vinur og alltaf til staðar. Eftirlætisfrændi barnanna og spilaðir stórt hlutverk í lífi okkar allra.

Það var alltaf myndataka þegar þú varst á staðnum og mikið haft fyrir því að festa líðandi stundir og uppákomur á filmu. Við munum sakna þess og að fá símhringingu daglega þar sem þú espaðir okkur upp í stríðni og hélst frændsystkinum þínum á tánum. Þau upplifa mikinn söknuð og sorg yfir því að Hendrik frændi sé kominn til englanna. Takk fyrir allt sem þú kenndir börnunum okkar, kærleikann sem þú sýndir, gleðina sem þú færðir þeim og einstaka vináttu. Takk fyrir að uppfylla hlutverk stóra bróður af öllu hjarta, passa svona vel upp á okkur, vera alltaf til staðar, elska okkur skilyrðislaust og auðga líf okkar á svo marga vegu. Við munum sakna þess að hlæja með þér og fá að deila með þér lífinu því ekkert er eins án þín.

Elsku besti stóri bróðir, þú lifir ávallt í hjörtum okkar og fórst alltof fljótt en aldrei gleymist dagurinn þegar heimurinn þagnaði og allt varð hljótt.

Við elskum þig.

Þín systkini,

Þráinn Arnar
og Björg Ólöf.

Fréttin um andlát vinar míns, starfsfélaga og fyrrverandi sambýlismanns, Hendriks Björns, var gríðarlegt áfall.

Aðeins hálfum sólarhring áður töluðum við saman í símann, hvernig gat þetta verið satt!

Leiðir okkur Hendriks lágu saman í gegnum veitingageirann en við höfðum bæði lært og unnið á Hótel Sögu.

Þær voru nú ófáar veislurnar sem við tókum saman. Hann var mikill meistari, allt í sambandi við veitingar og veislur gerði hann upp á 10, enda var það einkunn hans fyrir lokaverkefnið í verklegri framreiðslu. Hendrik elskaði að elda mat, hvort heldur sem var veislumat eða alvörumömmumat.

Allir elskuðu matinn hans og eins og einn sagði þegar við vorum með mat fyrir kvikmyndatökuhópinn í Ráðherranum II að „þetta væri engin helvítis fennelfroða eða skraut, heldur alvörumatur“.

Hendrik var einn besti yfirmaður sem ég hef kynnst og þegar mikið var í gangi og lá á að vinna hratt þá skammaði hann ekki fólk heldur kom með skemmtilegar samlíkingar eins og t.d. „nú erum við ekki að vinna með Sofðu unga ástin mín-tempóið heldur meira svona Eye of the tiger“ og einnig setningin „hva, er bara búið að loka?“ Allir hlógu og auðvitað sett í fjórða gír og enginn sár.

Við höfðum planað þetta sumar í Brúarási með alls konar flottum veitingum, sveitamarkaði og tónleikum með þekktu tónlistarfólki sem margt hvert var vinir hans, og þá sérstalega Eyfi Kristjáns, sem Hendrik þótti afar vænt um. En á svipstundu varð allt að engu. En ég get sagt með þakklæti í hjarta að mér hlotnaðist sá heiður að læra af þeim besta!

Við vorum ótrúlegt teymi þegar við unnum saman og alltaf var léttleikinn og grínið í fyrirrúmi og stundum svo svakalega að við gátum ekki unnið, svo mikið var hlegið.

En hann var líka góður vinur, alltaf tilbúinn að hjálpa og stundum hringdi hann í mig og sagði „ég verð bara að fá að hlæja með þér“… Alltaf gátum við rifjað eitthvað skemmtilegt upp og svo hlógum við tryllingslega. Hendrik var elskaður af mörgum. Mömmu, ömmu og Karó þótti ákaflega vænt um hann.

Ég veit að hann elskaði son sinn Benna út af lífinu og auðvitað fjölskylduna, mömmu sína, Björgu, Þráin og börn þeirra. Hendrik og móðir hans áttu einstaklega fallegt samband og alltaf stóðu þau þétt við bakið hvort á öðru.

Elsku Benni minn, Kristín, Björg, Þráinn og fjölskyldur, missir ykkar er mikill, megi guð veita ykkur styrk og vaka yfir ykkur.

Sendi fjölskyldunni allri, starfsfólki H Veitinga og vinum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Elsku Hendrik minn!

Það er ljóst að heimurinn er orðinn einstökum gleðigjafa, hjartahlýjum, duglegum, skemmtilegum, orðheppnum og stríðnum dreng fátækari.

Hjartans þakkir fyrir allt og sérstaklega fyrir einstaka vináttu okkar. Ég veit að það verður einvala lið sem tekur á móti þér, amma, afi, pabbi þinn og fjölburarnir okkar en þrátt fyrir stutt stopp þeirra komu þau sem verndarar.

Ég veit að þar sem þú ert ríkir góðvild og gleði.

Guð geymi þig, hjarta, eins og þú sagðir alltaf við mig.

Þín Gullkrulla,

Unnur Alexandra (Sandra).

Skilaboðin eru eins og svipuhögg og kvíðinn hellist yfir. Hendrik er í sjúkraþyrlu á leið til Reykjavíkur. Hann var með veilt hjarta eftir hjartaáfall níu árum fyrr. Ég hendist út í bíl og keyri til Reykjavíkur. Á spítalanum eru Kristín systir, móðir Hendriks, Benni sonur hans, Björg systir hans ásamt nokkrum aðstandendum. Þau flytja mér fréttina; Hendrik er dáinn. Sorgin steypist yfir. Ég sest við hlið Hendriks, umvef hann og gráturinn tekur yfir. Lát Hendriks er högg fyrir fjölskylduna, Kristínu systir, Benna son hans og systkini hans Björgu og Þráin og okkur hin sem elskuðum Hendrik af öllu hjarta.

Þegar Hendrik var lítill var hann mér sem sonur. Hermann faðir hans og Kristín voru trúlofuð en slitu samskiptum fljótlega eftir fæðingu Hendriks. Minningar um elsku litla drenginn streyma fram í huga minn. Samverustundir með honum fyrstu árin og fram á unglingsárin eru ógleymanlegar. Yndisleg lund, gleði og húmor voru hans aðalsmerki. Ég heimsótti Hendrik oft í Borgarnes og Búðardal þar sem við spiluðum fótbolta af fullum krafti. Eftir einn fótboltaleikinn mætti allt liðið út í sjoppu þar sem kók og prins var splæst á allt liðið.

Hendrik var náinn pabba og mömmu og var einlæglega elskaður af þeim. Þeir áttu ófáar samverustundir hann og afi Benni, sem tók hann oft með í vinnuna í Glófaxa. Hendrik sat í bílnum hjá afa og svo þeyttust þeir um allan bæ að rukka og útrétta. Hendrik þekkti orðið flest kaffihús í bænum þar sem afi staldraði við á ferðum þeirra og bauð upp á góðgæti. Í bústaðnum okkar í Grafningnum var oft líf og fjör. Hamagangurinn á litla Wembley er ógleymanlegur undir beinni leiklýsingu þess stutta. Aðalleikmennirnir voru að sjálfsögðu hetjur heimsmeistaramótsins það sumarið. Glöggt mátti sjá hæfileikann sem Hendrik augljóslega sótti til pabba síns.

Kristín kom með Hendrik tveggja ára í heimsókn til Svíþjóðar. Kristín og eiginkona mín fóru í búðarferð og ég var heima að passa þann litla. Hendrik var með málningardellu því hann hafði málað með afa Benna uppi í sumarbústað. Ég, barnapían, sofnaði á vaktinni og vaknaði við strokur á veggnum í næsta herbergi. Ég stökk fram. Sá litli var bleyjulaus og hafði gert stykki sín á gólfið. Hann stóð hróðugur með kúst í höndum sem hann dýfði í stykkin og var langt kominn með vegginn og tautaði fyrir munni sér: Hengi mola, mola, mola (mála).

Sem unglingur fór Hendrik oft með mér á samkomur og 12 ára eignaðist hann lifandi trú á Jesú Krist. Trúin fylgdi honum allt hans líf. Hann átti sínar bæna- og lofgjörðarstundir snemma á morgnana fyrir amstur dagsins. Þrátt fyrir stopulla samband síðustu ár heyrðumst við reglulega og alltaf var þessi kærleikur milli okkar.

Hendrik var alla tíð hamhleypa í vinnu og mikill fagmaður á sínu sviði. Þær voru ófáar veislurnar sem hann sá um.

Elsku Kristín, Benni, Björg og Þráinn Arnar, Guð gefi ykkur styrk og huggun í sorginni. Ég veit og trúi að Hendrik er á yndislegum stað í dag. Hann er kominn heim og er með nýtt heimilisfang.

Minning um elskaðan vin lifir.

Ólafur
Benediktsson.

Hendrik Björn Hermannsson vinur minn er fallinn frá.

Hendrik var ástsæll í veitingageiranum, þar sem hann starfaði sem veitingamaður í áratugi. Hann rak fyrirtækið H veitingar, sem annaðist veisluþjónustu og rak veislueldhús á Hvanneyri í Borgarfirði og í Reykjavík frá árinu 2021. Hendrik nam hjá okkur Sveini Sveinssyni framreiðslu á Hótel Sögu og sem nemi tók hann þátt í Norrænu nemakeppninni og hlaut þar silfurverðlaun. Hann lauk sveinsprófi og útskriftarborði með ágætiseinkunn.

Hendrik stefndi á opnun nýs veitingastaðar, Brúaráss í Borgarnesi, í byrjun júní. Þetta átti að verða nýr kafli á hans ferli og hann hlakkaði til að taka á móti gestum og vinum þar.

Hendrik var húmoristi af guðsnáð, alltaf hress og glaður í bragði. Hann var einstakur fagmaður í nálgun við gesti, á heimsmælikvarða. Enginn gestur fór úr veitingasalnum á Hótel Sögu án þess að kveðja Hendrik. Hann var einnig vinsæll meðal samstarfsmanna fyrir sinn einstaka húmor og hlýju.

Eitt sinn tók Hendrik vel á móti mér og Ragnari Wessman með ísköldu frönsku kampavíni í kæli og á blaði voru leiðbeiningar um að bingóspjöldin væru í lobbíinu og kveðja um góða skemmtun.

Hendrik skilur eftir sig soninn Benedikt. Við Kristín vottum fjölskyldunni innilega samúð. Blessuð sé minning Hendriks Björns Hermannssonar.

Trausti Víglundsson.

Fallinn er frá, langt fyrir aldur fram, vinur okkar Hendrik Björn Hermannsson. Ég kynntist Hendrik þegar hann kom til starfa á Hvanneyri í ágúst 2021 er hann gerði samning við Landbúnaðarháskóla Íslands um rekstur mötuneytisins í Ásgarði.

Hendrik var listakokkur og eins og hann orðaði það sjálfur elskaði hann að dekra við fólk. Hann lagði sig fram um að veita góða þjónustu og bjóða upp á ljúffengan mat í mötuneytinu. Sérstaklega var honum umhugað um að nota íslenskt gæðahráefni úr sveitum landsins enda viðskiptavinir hans margir verðandi framleiðendur landbúnaðarafurða. Þegar gesti bar að garði gerði hann gjarnan sérstaklega vel við þá og kom á óvart með kræsingum sínum.

Hendrik var ekki einungis umhugað um að maturinn væri góður, hann lagði ekki síður áherslu á að stemningin yrði eins og best gæti orðið. Stundum tók hann upp á því að fá félaga sína, þjóðþekkta listamenn, til að taka lagið í mötuneytinu og bjó þannig til einstaka upplifun. Hann var mikill gleðigjafi og gaf af sér með breiðu brosi og faðmlagi og skipti þar engu hvort álagið væri mikið eða miklar áskoranir fram undan, alltaf brosti Hendrik. Þannig hafði hann með viðmóti sínu djúpstæð og jákvæð áhrif á umhverfi sitt.

Mötuneyti Landbúnaðarháskólans var ekki eina verkefni Hendriks. Hann sinnti einnig margvíslegri veisluþjónustu, rak kaffihús í elsta húsinu á Hvanneyri, Skemmunni, undanfarin sumur og var nýtekinn við veisluþjónustu á Brúarási. Auk þess þjónustaði hann ýmsa hópa, s.s. Rótarýklúbb Borgarness sem naut þess að eiga Hendrik að á fundum sínum. Það var augljóslega í mörg horn að líta, en Hendrik hugsaði vel um mötuneytið, var einstaklega bóngóður og vildi allt fyrir alla gera.

Fyrir hönd Landbúnaðarháskóla Íslands þakka ég fyrir samfylgdina, vináttu og störf Hendriks í þágu skólans. Megi minningin um góðan dreng lifa í hjörtum okkar allra. Aðstandendum hans vottum við okkar innilegustu samúð.

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands.

Það var okkur félögum í Rótarýklúbbi Borgarness harmafregn þegar við spurðum andlát Hendriks Hermannssonar, jarðvist hans í blóma lífsins lokið á einu augabragði. Hann sá um veitingar á fundum okkar og
nutum við þjónustu hans um tveggja ára skeið sem aldrei bar skugga á.

Í hvert sinn mætti hann okkur hress og skemmtilegur með glens á vör. Ekkert var ómögulegt í hans huga og hverri bón tekið með jákvæðum huga. Hann var einstaklega þjónustulundaður og leysti allar óskir okkar af natni og næmleika meistara fagsins. Samstarfið var því ávallt ljúft og ánægjulegt og fyrir það er einlæglega þakkað. Nú þegar lífsgöngunni er lokið eigum við minningar um góðan vin og samferðamann sem við geymum með okkur og varðveitum. Missirinn er mikill jafnt fyrir okkur sem og allt samfélagið í Borgarfirði.

Á kveðjustund minnumst við gengins vinar og biðjum algóðan Guð að veita fjölskyldu hans styrk og huggun á sorgarstund. Blessuð sé minning Hendriks Hermannssonar.

Kveðja frá Rótarýklúbbi Borgarness,

Guðný E. Aðalsteinsdóttir, forseti.

Fallinn er nú frá góður drengur á besta aldri, Hendrik Björn Hermannsson.

Það er sannarlega sorg í hjörtum okkar allra að þurfa að kveðja þennan gleðigjafa og skyndilegt fráfall hans mikið áfall.

Hann hafði fallegt bros, sem var eiginlega fast á andliti hans, og hló hátt og smitandi eins og pabbi hans, sem hann saknaði sárt.

Hendrik var einstaklega elskulegur í öllum samskiptum við fólk.

Hann elskaði mömmu sína, son sinn, systkini og fjölskyldu sína alla fram yfir allt og þótti vænt um alla.

Hendrik var magnaður þjónn og frábær veitingamaður í alla staði og hristi hverja veisluna af annarri fram úr erminni eins og ekkert væri.

Honum leið vel í sveitinni síðustu árin með sinn veitingarekstur og sendi reglulega myndir á facebook af fegurð náttúrunnar í Borgarfirðinum.

Þótt dalirnir hafi stundum verið djúpir hjá okkar manni stóð hann alltaf upp … þar til nú.

Mín elskulega vinkona Kristín, mamma Hendriks, á nú sannarlega um sárt að binda, sem og sonur hans og systkini og fjölskylda hans öll.

Kristín og þau hafa þurft að horfa á eftir mörgum af sínum nánustu undanfarið, hvað þá nú.

Kristín var Hendriks stoð og stytta alla tíð og hljóp undir bagga með honum í hvaða verkefnum sem hann tók sér fyrir hendur, alltaf gat hann treyst á mömmu.Hún taldi ekki eftir sér að keyra í Borgarfjörðinn til Hendriks, jafnvel mörgum sinnum í viku, með stafla af heimabökuðum marenstertum í skottinu, blóm og alls konar punt fyrir hann og hjálpa honum við störfin.

Kæra vinkona elsku Kristín mín, elsku Benni, elsku Þráinn Arnar og elsku Björg Ólöf, einlæg samúðarkveðja til ykkar allra.

Elska ykkur öll!

Minningin um okkar góða og elskulega Hendrik mun lifa.

Ykkar

Sigrún
Baldursdóttir.