Mikill munur getur verið á leiguverði sambærilegra íbúða eftir tegund leigusala, að því er fram kemur í greiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) á gögnum í leiguskrá, sem geymir alla rafræna leigusamninga

Mikill munur getur verið á leiguverði sambærilegra íbúða eftir tegund leigusala, að því er fram kemur í greiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) á gögnum í leiguskrá, sem geymir alla rafræna leigusamninga.

„Óhagnaðardrifin leigufélög og sveitarfélög bjóða upp á leigu sem getur verið rúmlega 100 þúsund krónum lægri en á sambærilegum íbúðum í eigu einstaklinga eða hagnaðardrifinna leigufélaga,“ segir í umfjöllun HMS.

Samanburður á meðalleiguverði í nýjum samningum um tveggja herbergja íbúðir, leiðir í ljós að meðalleiguverð slíkra íbúða í eigu einstaklinga og hagnaðardrifinna leigufélaga er um 230 þúsund krónur á mánuði. Óhagnaðardrifin leigufélög og sveitarfélög bjóða upp á slíkar íbúðir á 150 til 160 þúsund krónur á mánuði, að því er fram kemur á vef HMS. „Verðmunurinn á milli leigusala er því á bilinu 60 til 70 þúsund krónur.“

Einnig var borið saman leiguverð í nýjum leigusamningum um þriggja til fjögurra herbergja íbúðir í síðasta mánuði eftir tegundum leigusala. Þar liggja að baki 242 íbúðir í eigu einstaklinga, 146 í eigu hagnaðardrifinna leigufélaga, 63 í eigu óhagnaðardrifinna félaga og 18 í eigu sveitarfélaga.

„Meðalleiguverð 3-4 herbergja íbúða í eigu hagnaðardrifinna leigufélaga nam 300 þúsund krónum í maí. Til samanburðar var leiguverð slíkra íbúða í eigu einstaklinga um 276 þúsund krónur, en hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum var leiguverðið um 238 þúsund krónur að meðaltali. Hjá sveitarfélögum voru stærstu íbúðirnar hins vegar ódýrastar, en meðalleiguverð þeirra var 196 þúsund krónur í maí,“ segir í grein HMS. omfr@mbl.is