Þuríður Skarphéðinsdóttir fæddist í Dagverðarnesi í Skorradal 14. júní 1931. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar 25. maí 2024.

Foreldrar hennar voru hjónin Kristín Sigurlaug Kristjánsdóttir og Skarphéðinn Magnússon. Systkini Þuríðar voru í aldursröð: Magnús (látinn), Kristján (látinn), Sigríður (látin), Guðbrandur (látinn) og Baldur (látinn).

Eiginmaður Þuríðar var Brandur Fróði Einarsson, fæddur 21. október 1931, látinn 25. desember 2022. Þau gengu í hjónaband 1. desember 1963. Börn þeirra eru: 1) Margrét, f. 1952, maki Nikulás Helgi Kajson, f. 1948, d. 1993, þau eiga fjögur börn. 2) Sveinbjörn, f. 1960, maki Birna Antonsdóttir, f. 1963, þau eiga þrjá syni. 3) Einar, f. 1962, maki Ösp Þorvaldsdóttir, f. 1960, þau eiga þrjú börn. 4) Magnús Daníel, f. 1963, maki Brynhildur Benediktsdóttir, f. 1971, þau eiga fjögur börn. 5) Kristín Sigurlaug, f. 1964, maki Eiríkur Tómasson, f. 1958, þau eiga fjögur börn. 6) Soffía Guðrún, f. 1968, maki Magnús Þór Ásmundsson, f. 1963, þau eiga þrjú börn. 7) Kristleifur Skarphéðinn, f. 1971, maki Heiðrún Hámundar, f. 1973, þau eiga tvö börn.

Þuríður fæddist og ólst upp í Dagverðarnesi í Skorradal. Barnaskólanámið fór fram í farskóla. Hún stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni og síðar við Húsmæðraskólann á Varmalandi. Hún bjó og starfaði með foreldrum sínum við bústörf fram undir þrítugt ásamt því að sinna störfum á öðrum bæjum og hjá Skógrækt ríkisins. Árið 1960 hófu Þuríður og Fróði búskap á Akranesi þar sem hún sinnti heimilisstörfum og uppeldi barnanna. Meðfram því prjónaði hún mikið og seldi innanlands og utan. Þuríður stundaði hin ýmsu störf eftir að börnin uxu úr grasi. Hún var iðnverkakona og heimilishjálp, vann einnig við ræstingar og barnagæslu.

Afkomendur Þuríðar og Fróða eru 51 talsins.

Sjálfboðastörf vann hún mörg og var lengi í Slysavarnadeildinni Líf á Akranesi. Áhugamál hennar voru m.a. handverk, ferðalög, dans og söngur en hún var lengi í kór.

Útför Þuríðar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 7. júní 2024, klukkan 13.

Ég held að mikilvægasta persóna hverrar manneskju sé móðir hennar. Móðir mín hefur alltaf verið stór hluti af minni tilveru og ég mun alltaf vera þakklátur fyrir að hún bar mig með sér í níu mánuði og reyndi að ala mig upp til að vera almennileg manneskja. Það var erfitt að kveðja móður mína en hún kvaddi þetta jarðlíf umkringd börnum og ættingjum.

Hún var næstum þrítug sveitastelpa sem flutti á mölina úr Skorradalnum sem var henni alltaf kær. Sennilega var meginástæða þess að hún bar undir belti dreng sem fæðast átti um veturinn en þessi drengur er ég, hennar elsti sonur. Fyrir áttu foreldrar mínir Margréti systur mína sem er átta árum eldri en ég. Það hefur verið talsverð breyting eftir að hafa búið í næstum þrjátíu ár í sveit að koma á mölina en mamma var hörkudugleg og aðlagaðist þessu lífi. Við tók tímabil barneigna og búskapar í þorpinu við fjallið fagra. Að endingu urðu börnin sjö.

Fjölskyldan var mömmu dýrmæt og hún var okkur dýrmæt sem móðir. Vinnudagur hennar var langur, hún vaknaði fyrst og sofnaði síðust. Mamma var með ótrúlegt jafnaðargeð og tók verkefnum lífsins af yfirvegun og dugnaði. Alltaf stutt í fallegt bros og hún var góð manneskja sem vildi öllum vel. Margir leituðu til hennar og pabba um hjálp og oft var gestkvæmt á heimilinu. Mamma tók líka mikinn þátt í uppeldi barnabarna og eiga þau mörg henni mikið að þakka. Mamma var mikill jafnréttissinni sem reyndi að kenna okkur börnunum að við værum öll jöfn íbúar jarðarinnar. Hún var íslenska konan sem þurfti með dugnaði og góðri greind að hafa fyrir lífinu en var ekki að barma sér. Hún sá bara það góða í lífinu og reyndi að njóta þess góða. Hún fékk slæman nýrnasjúkdóm fyrir nokkrum mánuðum og þrátt fyrir bestu umönnun frábærs starfsliðs Landspítala og Sjúkrahússins á Akranesi hrakaði heilsu hennar og hinn 25. maí var þrek hennar búið og hún hélt á vit óvissunnar og er örugglega á góðum stað með pabba og öðrum sem á undan hafa farið.

Mér finnst viðeigandi að láta þessi tvö erindi úr texta Ómars Ragnarssonar Íslenska konan fylgja mínum orðum:

Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.

Hún heitast þig elskaði' og fyrirgaf þér.

Hún ætíð er skjól þitt, þinn skjöld ur og hlíf.

Hún er íslenska konan, sem ól þig og þér helgaði sitt líf.

Og loks þegar móðirin lögð er í mold

þá lýtur þú höfði og tár falla'á fold.

Þú veist, hver var skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.

Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.

Þinn sonur,

Sveinbjörn.

Elsku mamma fæddist í torfbæ í Dagverðarnesi í Skorradal þar sem foreldrar hennar voru bændur. Hún elskaði dalinn sinn og þar lágu sterkar rætur. Sem barn og unglingur lagði hún sitt af mörkum við búskapinn og fram undir þrítugt bjó hún og starfaði með foreldrum sínum í Dagverðarnesi. Mamma, sem var alltaf sterk og öflug, vann hörðum höndum við búskapinn. Hana dreymdi um, eins og svo marga, að mennta sig og starfa við eitt og annað. Líklega hefði mamma getað hugsað sér að verða bóndi en tækifærin voru ekki til staðar enda fátítt á þeim tíma að dætur tækju við búskap foreldra sinna.

Mamma og pabbi fluttu saman á Akranes og börnin urðu sjö. Vinnan á heimilinu var mikil hjá mömmu. Það þurfti að annast börnin og gefa öllu liðinu að borða daginn langan. Hún saumaði flest föt og prjónaði mikið svo fátt eitt sé nefnt. En eins og hún sagði var vinnan á heimilinu og í sveitinni áður „enginn léttingur“.

Mamma átti sín áhugamál. Hún hafði gaman af margs konar handverki. Hún hannaði fallega peysu sem hún var ákaflega stolt af og hlaut viðurkenningu fyrir. Einnig hannaði hún teppi sem hún heklaði fjöldann allan af og gaf börnum og barnabörnum. Hún prjónaði ótalmargar lopapeysur sem hún seldi eða gaf. Þá saumaði hún á sig upphlut og lengi mætti telja það sem mamma vann í höndunum. Hún elskaði að syngja og var í kór og þar naut hún sín vel í góðum félagsskap. Ferðalög voru í uppáhaldi hjá henni. Hún ferðaðist bæði utan lands sem innan. Sjálfboðastörf vann hún mörg og var lengi í slysavarnadeildinni Líf á Akranesi en þar eignaðist hún margar góðar vinkonur.

Mamma fór út á vinnumarkaðinn þegar börnin stálpuðust. Hún vann m.a. sem iðnverkakona og í henni blundaði mikil barátta fyrir því að konur fengju jöfn laun á við karla. Hún var ein af þeim sem voru á undan sinni samtíð í þeim efnum.

Það var alltaf gott að vera með mömmu. Hún var glaðlynd og opin manneskja og gaman var að spjalla við hana, ferðast með henni og fá hana í heimsókn. T.d. voru ferðir sem við fórum með henni til útlanda alveg ógleymanlegar.

Hún var viðstödd fæðingu frumburða okkar beggja og gætti þeirra oft. Mamma var alltaf til staðar og hennar hjálp við svo margt var ómetanleg.

Elsku mamma veiktist alvarlega snemma á þessu ári. Þvílíkur baráttuvilji sem hún bjó yfir í erfiðum veikindum. Hún hafði svo gaman af lífinu og vildi svo sannarlega lifa lengur.

Við eigum eftir að sakna mömmu mikið.

Soffía og Kristín.

„Mamma, er einhver heima?“ Alla mína æsku kom maður ekki heim nema kalla og athuga hvort mamma væri heima, ekki að maður ætti erindi við hana heldur að vita af henni veitti manni öryggi.

Mamma var einstök manneskja, falleg að utan sem innan. Alltaf jákvæð og hvetjandi. Það var ekkert smá verkefni að fæða sjö börn og ala upp með eina fyrirvinnu. Mamma vaknaði fyrst og fór síðust að sofa. Allir dagar voru hlaðnir verkefnum og ef það var stund milli stríða þá var setið og prjónað eða við aðrar hannyrðir. Hún saumaði öll föt á okkur systkinin þar til við vorum unglingar, sama hvort það voru buxur, peysur eða úlpur. Hún var meistari í höndunum. Við systkinin höfum rifjað það upp að við vorum komin á unglingsaldur þegar við keyptum okkar fyrstu buxur eða peysu. Matargerð var ekki vandamál heldur. Slátur tekin öll haust, stór kartöflugarður ræktaður og ef pabbi fór á bryggjuna og keypti 100 kg af fiski þá gerði mamma að fisknum og kom í frysti. Kökur og brauð voru bökuð í stórum stíl. Ekki man ég að það hafi verið mikil hjálp í okkur systkinum og þunginn af öllu var á herðum mömmu.

Mamma fæddist og var alin upp í Skorradal. Mikið elskaði hún sveitina sína og haft var eftir henni að hún hefði viljað verða bóndi en í þá daga tíðkaðist ekki að dætur tækju við búum af foreldrum sínum. Í fyrra lét hún mála mynd af Skorradalnum og hengdi upp í stofunni til að hafa Skorradalinn nálægt sér.

Mamma hafði gaman af að dansa og það kom glampi í augun á henni þegar hún rifjaði upp sveitaböllin í gamla daga og þá var ekki talið eftir sér að ganga eða fara á hesti í næstu sveitir til að fara á böll. Þegar línudans varð vinsæll þá var mamma fljót að skrá sig í línudansinn á Akranesi og var flottust á gólfinu.

Mamma hafði gaman af að ferðast og fór hún ófáar ferðir til útlanda og lét ekki stoppa sig þó pabbi færi ekki með. Fór hún með vinkonum og systur í ferðir. Nokkrar ferðir fór hún í sólina með okkur systkinum. Eitt skiptið fórum við tvö niður á strönd og lékum okkur eins og krakkar í flæðarmálinu, hlógum mikið og skemmtum okkur vel.

Mamma var í kór eldri borgara og lifði fyrir það síðustu árin. Henni fannst erfitt að hætta þegar heilsan leyfði ekki lengur. Núna í vor, þá orðin veik, náði hún að fara sem áhorfandi á kóramót eldri borgara í Fjölbrautaskólanum. Andlitið ljómaði allan tímann. Hún náði líka að hitta félaga sína úr kórnum sem henni þótti vænt um.

Mamma var mín fyrirmynd í lífinu og þó hún öldruð konan sé farin í sumarlandið þá er erfitt að kveðja. Mikið tómarúm myndast sem ég mun fylla upp í með góðum minningum um einstaka konu. Ég held að hún hafi ekki verið tilbúin til að fara því hún hafði gaman af lífinu en núna svífur hún um dansgólfið í annarri tilveru. Hún er örugglega í einhverri fallegri sveit í góðu veðri og er hamingjusöm.

Mamma, ég mun aldrei gleyma þér.

Þinn sonur,

Magnús D. Brandsson (Maggi).

Ferðalagi mömmu hér á Hótel Jörð lauk 25. maí eftir erfið veikindi. Löngunin og viljinn til að halda ferðalaginu áfram hér á jörð var mikill en líkaminn var ekki með henni í því. Mamma var einstaklega vel gerð manneskja. Tókst á við lífið með æðruleysi miðað við þær aðstæður sem sköpuðust hverju sinni þrátt fyrir að hugurinn hafi leitað annað en raunin varð. Klettur, gleði og væntumþykja eru orð sem koma í hugann þegar ég hugsa um mömmu á þessum tímamótum. Hún var kletturinn í lífi okkar systkinanna. Hún var alltaf glöð og hafði gaman þegar hún hafði fólkið sitt hjá sér eða var að ferðast eða skemmta sér með samferðafólki. Henni þótti vænt um allt sitt fólk og marga fleiri sem á vegi hennar urðu. Hún kenndi okkur börnunum góð gildi og ég get fullyrt að henni tókst vel til í að koma sínu góða innræti til skila til sinna afkomenda. Afrek mömmu eru ekki skráð ofarlega í Íslandssögunni en þau sem til hennar þekkja vita af þeim og er það í anda mömmu því hún hafði enga þörf á að vera í sviðsljósinu. Hvar mamma ferðast núna er okkur hulið. Frænka mín sagði mér að hana hefði dreymt að Sigga systir mömmu, sem líka er látin, hefði komið á mótorhjóli og náð í mömmu og þær þeyst á brott með flaksandi hár. Hver veit. Mamma, takk fyrir allt. Takk fyrir að vera góð mamma, tengdamamma, amma og langamma. Farðu í friði og hafðu þökk fyrir allt.

Einar.

Í dag kveð ég yndislegu tengdamóður mína hana Íðu eins og hún var alltaf kölluð.

Á vormánuðum fyrir 34 árum var ég á leið upp á Akranes til að hitta Íðu og Fróða í fyrsta skipti. Í ljósi aðstæðna var ég með kvíðahnút í maganum en hnúturinn hvarf um leið og Íða tók á móti mér með sínu fallega brosi og þeirri notalegu hlýju sem einkenndi hana.

Í minningunni eru allar góðu stundirnar þegar hún heimsótti okkur til Svíþjóðar svo dýrmætar. Þá hafði ég hana út af fyrir mig og við nutum þess að spjalla og kynnast hvor annarri. Á þessum árum hafði Íða ekki ferðast mikið erlendis og það var svo gaman að fá að upplifa nýja hluti með henni og búa til minningar.

Fjölskylda hennar er stór og það var yndislegt að fylgjast með hvað hún ljómaði alltaf þegar allir komu saman, enda var hún ákaflega félagslynd. Það var svo greinilegt hvað hún var stolt af sínu fólki, og alltaf hafði hún jafn gaman af gömlu sögunum sem sagðar voru aftur og aftur.

Ógleymanlegar eru minningarnar þegar Íða bauð dætrum og tengdadætrum í vikuferð til Tenerife. Hún var svo sannarlega drottningin í hópnum og mætti á allar kvöldskemmtanir sem í boði voru á hótelinu. Söngur og dans voru í miklu uppáhaldi hjá henni.

Ég var ekki lengi að slá til þegar ég frétti að hana vantaði herbergisfélaga í næstu Tenerife-ferð sína. Ég fékk þá bæði að dekra við hana á kvöldin og aðstoða hana þegar þess þurfti.

Það var fastur liður á hverju sumri að fá þau hjónin í dekurferð í Vaðnesið. Við varðveitum minningu og skemmtilegar myndir frá síðastliðnu sumri þegar Íða kom, nú í fyrsta skipti án Fróða, ásamt sínum börnum til að eiga notalegan dag saman í sveitinni.

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tali og allt hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

(Rósa Guðmundsdóttir)

Elsku Íða mín, ég kveð þig að sinni, við hittumst síðar í Sumarlandinu.

Birna.

Ég kynntist tengdamömmu árið 1997 og sá strax að hún væri einstök kona. Hún var glaðvær, kærleiksrík, brosmild, jákvæð, hlý og gerði aldrei mannamun. Ég átti eftir að kynnast öllum þessum kostum hennar mun betur með árunum. Hún var mikill vinur barnanna sinna sjö og átti einstakt samband við hvert og eitt þeirra, það var oft mjög fallegt að sjá hana með þeim. Hún ljómaði þegar hún hlustaði á bullið í þeim og þegar þau voru að stríða henni á því hver væri uppáhaldsbarnið hennar. Lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá henni að ala upp sjö börn og Fróði jafnvel í tveimur störfum til að láta enda ná saman eins og var algengt á þessum tíma. Eins hafði hún fólkið sitt ekki hjá sér, það var langt í Skorradalinn á þessum árum þar sem fólkið hennar bjó. Hún talaði oft um það með dreymandi svip hvað fimmtudagskvöldin voru dásamleg og heilög þegar krakkarnir voru yngri en þá fór hún í Bjarnalaug með vinkonum og naut sín í botn í gufu, sundi og spjalli. Hún var gott dæmi um fólk sem nær að láta litlu hlutina verða stóra og mikilvæga.

Heimili þeirra hjóna var alltaf opið fyrir stórfjölskylduna og vini, þau elskuðu að fá fólk í heimsókn og spjalla. Mamma mín gleymir því aldrei þegar hún kom með okkur Magga í heimsókn á Vesturgötuna í fyrsta skipti og Íða var búin að elda kótilettur í allan mannskapinn. Hún og Þuríður dóttir mín áttu dásamlegt samband sem hafði þróast í fallegt vináttusamband síðustu árin. Þær prjónuðu saman, hún kenndi Þuríði að baka snúðana sína og þær gátu gleymt sér að tala um gamla tímann og formæður sínar. Íða var í slysavarnadeildinni Líf hérna á Akranesi í mörg ár og það gladdi hana mikið þegar Þuríður gekk í félagið í fyrra.

Tengdamamma var mikil hannyrðakona og prjónaði mjög falleg föt sem börn, ömmubörn og langömmubörn fengu að njóta. Hún prjónaði fram á síðasta dag má segja og var eins og margar konur af hennar kynslóð, gat ekki setið aðgerðalaus, var alltaf með eitthvað á prjónunum. Henni fannst gaman að lesa bækur, var ansi lagin við krossgáturnar og biðu þau hjónin spennt eftir sunnudagsmogganum eftir nýrri krossgátu. Hún var með einstakt minni alveg fram á síðasta dag og var gaman að heyra frá lífi hennar þegar hún var ung í sveitinni.

Mér þótti strax vænt um þessa einstöku konu með fallega brosið og var svo þakklát hvað þau hjónin tóku Benna mínum opnum örmum og hann varð strax einn af hópnum þeirra. Mér fannst núna síðustu árin ég græða líka ömmu í henni ásamt því að eiga hana fyrir tengdamömmu. Ég minnist þess þegar hún kom einu sinni norður til okkar hjóna að passa krakkana meðan við fórum til útlanda. Þá bjó Ásta mágkona hennar á Ólafsfirði og þær elskuðu að geta verið saman á hverjum degi þessa viku. Þær spjölluðu, hlógu og rifjuðu upp skemmtilega tíma. Það var dásamlegt að sjá þær saman, væntumþykjan og hlýjan sem þær báru hvor til annarrar var einstök.

Takk fyrir þig og takk fyrir allt, minning þín mun lifa í hjarta mínu. Hvíl í friði, elsku Íða mín.

Þín tengdadóttir,

Brynhildur
Benediktsdóttir.

Amma Íða eignaðist sjö börn og þremur árum eftir að yngsta barnið kom í heiminn fæddist ég, fyrsta barnabarnið. Ég var mikið í pössun hjá ömmu í „Vestos“. Alltaf var hún eitthvað að sýsla, kleinulyktin kemur upp í hugann og amma með prjónana. Eftir að ég óx upp úr því að vera í pössun hélt ég áfram að vera heimagangur í Vestos. Það var mjög var gestkvæmt á heimilinu, bæði ungir og gamlir lögðu gjarnan leið sína í eldhúsið til ömmu og afa. Alltaf stóð amma vaktina og sá til þess að allir fengju nóg, og ég á notalegar minningar frá því að sitja með mjólk og nýbakaða kleinu eða pönnsu við þéttsetið eldhúsborðið. Ég held líka að ég hafi notið þeirra einstöku forréttinda þegar ég var lítil að sitja stundum stutta stund ein með ömmu við eldhúsborðið góða á morgnana. Alla tíð síðan hafa samvistir við ömmu verið mikilvægar gæðastundir í mínu lífi.

Amma stritaði allt fram á efri ár. Fyrsta hluta ævinnar í sveitinni í Skorradalnum og svo við að koma upp stórum barnahópi á Akranesi. Allur matur útbúinn frá grunni, það þurfti að taka slátur, verka fisk, setja niður og taka upp kartöflur, baka, þrífa, þvo, sauma, prjóna – og jú, ala upp sjö börn og taka svo barnabörn undir sinn verndarvæng í framhaldinu. Samt er bjarta brosið og æðruleysið það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar maður hugsar um ömmu. Þó amma hafi aldrei haft sig í frammi og hvergi sóst eftir athygli, þá má segja að bjarta brosið hennar hafi lýst upp heilt bæjarfélag. Alla vega finn ég það af hlýju viðmóti fjölmargra bæjarbúa sem hafa komið að máli við mig undanfarna viku hversu góð áhrif hún hafði á umhverfi sitt með nærverunni einni saman. Ég held að amma hafi búið yfir þeim einstaka hæfileika að tapa aldrei gleðinni, sama hvað á gekk. Sem ung stúlka lagði hún á sig að ganga yfir hálsinn yfir í næsta dal til þess að komast á böll, því það var svo gaman að dansa. Þegar mest var að gera í barnauppeldinu hafði hún þá hefð að fara einu sinni í viku í gufu með öðrum konum uppi í rjáfri í gömlu Bjarnalaug. Þetta sagði hún að hefði gefið sér óendanlega mikið í amstri dagsins. Hún bar sig eftir björginni, ef svo má segja, þegar möguleikarnir til skemmtunar og dægrastyttingar voru af skornum skammti. Þegar svo fór að hægjast um á efri árum blómstraði amma: fór aftur á böll, söng í kór, ferðaðist og naut samvista við afkomendurna.

Börn ömmu hafa átt einstöku barnaláni að fagna og langömmubörnin eru orðin fjölmörg. Öll tengdabörn í öllum ættliðum urðu sömuleiðis strax hluti af fjölskyldunni, ríkidæmi ömmu og afa. Amma kunni best við að hafa sem flesta úr hópnum hjá sér og var vön því að okkur fylgir engin lognmolla. Fyrir ekki svo mörgum dögum vorum við nokkrar skellibjöllur hjá henni á sjúkrahúsinu, hún orðin þreytt og hvíldin langa á næsta leiti. Við sáum því að okkur og höfðum okkur hægar til þess að leyfa henni að sofa, þá heyrðist í henni: „Ekki hætta að tala saman!“

Við skulum halda áfram að tala saman og hafa hátt, elsku amma. Þitt sumarland er vonandi Skorradalurinn, þinn uppáhaldsstaður.

Anna Björk Nikulásdóttir.

Það er erfitt að setja í orð hversu mikilvæg amma Íða er í mínu lífi.

Ég á milljón og eina minningu með ömmu, hverja annarri skemmtilegri. Þær sem sitja efst í huga mínum eru hannyrðatengdar. Prjónakvöld Slysó voru uppáhaldskvöldin mín af því að þegar ég og amma mættum var svo gaman að sjá gleðina hjá félagskonunum þegar þær sáu ömmu. Svo sátum við fram á kvöld að spjalla, prjóna og borða sætindi.

Þó að ég prjónaði of fast til að amma gæti hjálpað mér var hún alltaf tilbúin að leiðbeina mér, kenna og hlæja með og að mér þegar ég gerði klaufamistök.

Amma er ein besta fyrirmynd sem hægt er að ímynda sér og ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa haft hana í lífi mínu og fyrir að hafa fengið nafnið hennar.

Hún var alltaf svo sterk, hugrökk, lífsglöð, hjartahlý, skilningsrík og algjör húmoristi. Hún hafði alltaf tíma fyrir mig og alla sem þurftu hjálp eða bara félagsskap.

Amma var aldrei ánægðari en þegar hún var með lítið barn í fanginu. Hún brosti alltaf hringinn þegar fólk kom með lítið kríli í heimsókn.

Að heimsækja ömmu og afa var alltaf skemmtilegt og ég mun sakna þess innilega. Við sátum, spjölluðum, skoðuðum myndaalbúm og þau sögðu mér sögur frá æsku sinni og barna sinna. Ég mun geyma þessar minningar og sögur nálægt hjarta mínu allt mitt líf.

Takk fyrir allt, elsku amma mín, sofðu rótt.

Þín,

Þuríður Ósk.