Wembley Íslenska landsliðið æfði á enska þjóðarleikvanginum í gær. Hann var að sjálfsögðu tómur þá en í kvöld verður gríðarleg stemning þarna og 90 þúsund áhorfendur, flestir á bandi Englands.
Wembley Íslenska landsliðið æfði á enska þjóðarleikvanginum í gær. Hann var að sjálfsögðu tómur þá en í kvöld verður gríðarleg stemning þarna og 90 þúsund áhorfendur, flestir á bandi Englands. — Ljósmynd/Alex Nicodim
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvernig leik eigum við von á í kvöld þegar England og Ísland mætast frammi fyrir 90 þúsund áhorfendum á troðfullum Wembley-leikvanginum í London? Þetta er vináttulandsleikur tveggja ólíkra liða sem eru með ólíka dagskrá næstu vikurnar

Í London

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Hvernig leik eigum við von á í kvöld þegar England og Ísland mætast frammi fyrir 90 þúsund áhorfendum á troðfullum Wembley-leikvanginum í London?

Þetta er vináttulandsleikur tveggja ólíkra liða sem eru með ólíka dagskrá næstu vikurnar. Englendingar leika sinn síðasta leik fyrir lokakeppni EM í fótbolta þar sem þeir mæta Serbum í fyrsta leiknum níu dögum síðar.

Íslenska liðið er hins vegar að horfa til haustsins, þegar það spilar sex leiki í Þjóðadeildinni, og norski þjálfarinn Åge Hareide freistar þess að byggja ofan á ágæta leiki liðsins í mars þegar það var afskaplega nærri því að tryggja sér sæti á EM í Þýskalandi.

Englendingar tilkynntu 26 manna hóp sinn fyrir EM í gær, hættu við að bíða með það þar til eftir leikinn gegn Íslandi, og það kann að hafa áhrif. Annars vegar þurfa ensku leikmennirnir ekkert endilega að sýna sig og sanna og verða kannski aðeins afslappaðri en ella.

En hins vegar gæti það einmitt kallað fram þeirra bestu hliðar, stressið úr sögunni og allir farnir að einbeita sér að því að spila eins og þeir ætla sér að gera á stórmótinu í Þýskalandi.

Engar tæklingar 2004

Þegar England og Ísland mættust við nákvæmlega sömu kringumstæður fyrir 20 árum unnu Englendingar stórsigur, 6:1. Þeir voru á leið á EM og enskir fjölmiðlar gerðu mikið úr því fyrir leikinn að íslensku leikmennirnir væru grófir og gætu meitt stjörnurnar þeirra á versta tíma.

Þessi umræða hafði greinilega áhrif á íslenska liðið sem spilaði áferðarfallegan fótbolta en tæklingarnar voru sparaðar, liðið fékk ekki eitt einasta gult spjald og kraftmiklir Englendingar nýttu sín sóknarfæri vel.

Åge Hareide svaraði vel spurningu í þessa átt á fréttamannafundinum í gær þar sem hann var spurður hvort íslenska liðið myndi forðast tæklingar í leiknum.

„Við verðum að spila eðlilegan fótboltaleik. Það verða návígi og það verða tæklingar. Við erum ekki vondir í eðli okkar, við erum fótboltamenn og við berum virðingu fyrir dómara leiksins. Hann mun gefa tóninn fyrir leikinn,“ sagði Norðmaðurinn.

Jóhann Berg Guðmundsson er fyrirliði Íslands og leikjahæstur núverandi landsliðsmanna en hann leikur sinn 92. landsleik á Wembley í kvöld.

„Við þurfum að nýta leikina gegn Englandi og Hollandi til að byggja enn frekar ofan á það sem við höfum verið að gera,“ sagði Jóhann á fréttamannafundinum á Wembley.

„Í síðustu undankeppni prófuðum við fullt af hlutum með nýjum þjálfara og nýjum áherslum en mér fannst undir lokin að við værum komnir með ákveðna formúlu sem gæti virkað.

Við vorum grátlega nálægt því að komast inn á Evrópumótið og nú verðum við að byggja ofan á það. Við vitum að þetta verður gríðarlega erfiður leikur gegn Englandi, og líka gegn Hollandi, en það er heilmikið sem við getum tekið út úr þessum leikjum.

Við þurfum að þora að spila á móti svona þjóðum, og við vitum að ef við ætlum að komast aftur á stórmót þá eru það svona leikir, eins og þessi, þar sem við þurfum að ná í einhver stig og þetta er bara fín æfing fyrir það sem koma skal,“ sagði Jóhann.

Vantar Albert og Victor

Íslenska liðið saknar tveggja af bestu mönnum sínum úr leikjunum við Ísrael og Úkraínu í mars. Albert Guðmundsson fær ekki að spila þar sem mál hans er í ferli fyrir dómstólum og Guðlaugur Victor Pálsson er meiddur.

Åge Hareide sagði að það væri vissulega slæmt að vera án þeirra en hann vildi einbeita sér að þeim sem væru til staðar.

„Við verðum að einbeita okkur að þeim leikmönnum sem við höfum, þeim leikmönnum sem eru hérna. Ég vil ekki eyða miklum tíma í að ræða leikmenn sem eru meiddir eða geta ekki verið með okkur.

Við verðum að nýta tímann eins vel og við getum með þá sem eru hér og stilla upp liðinu á okkar besta hátt. Það eru mjög margir hæfileikaríkir leikmenn í okkar hópi svo ég hef engar áhyggjur þó einhverja vanti. Við munum sýna okkar bestu hliðar,“ sagði Hareide.

Höf.: Víðir Sigurðsson