Normandí Macron Frakklandsforseti sæmir hér bandaríska hermanninn Arlester Brown frönsku heiðursorðunni fyrir afrek sín á D-deginum.
Normandí Macron Frakklandsforseti sæmir hér bandaríska hermanninn Arlester Brown frönsku heiðursorðunni fyrir afrek sín á D-deginum. — AFP/Ludovic Marin
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Joe Biden Bandaríkjaforseti varaði við því í hátíðarræðu sinni í Normandí í gær að lýðræðið væri nú í meiri hættu en nokkru sinni frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Ræða Bidens var flutt í tilefni af áttatíu ára afmæli innrásarinnar í Normandí á D-degi og komu saman þjóðarleiðtogar frá um 25 ríkjum, auk fjölda uppgjafahermanna frá tímum heimsstyrjaldarinnar.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Joe Biden Bandaríkjaforseti varaði við því í hátíðarræðu sinni í Normandí í gær að lýðræðið væri nú í meiri hættu en nokkru sinni frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Ræða Bidens var flutt í tilefni af áttatíu ára afmæli innrásarinnar í Normandí á D-degi og komu saman þjóðarleiðtogar frá um 25 ríkjum, auk fjölda uppgjafahermanna frá tímum heimsstyrjaldarinnar.

Biden sagði í ræðu sinni að D-dagur sýndi þörfina á alþjóðlegum bandalögum til þess að viðhalda reglu í alþjóðasamskiptum. „Einangrunarstefna var ekki svarið fyrir 80 árum, og hún er ekki svarið í dag,“ sagði Biden m.a. í ræðu sinni og bætti við að alvöru bandalög gerðu Bandaríkjamenn sterkari. „Það er lexía sem ég vona að við Bandaríkjamenn gleymum aldrei,“ sagði Biden.

Biden hét því einnig að undir sinni stjórn myndu Bandaríkin ekki yfirgefa bandamenn sína í Úkraínu, þar sem það myndi þýða að Úkraínumenn yrðu undirokaðir og að ógnin frá Rússum myndi aukast. „Nágrönnum Úkraínu yrði ógnað, Evrópu allri yrði ógnað,“ sagði Biden, sem kallaði Vladimír Pútín Rússlandsforseta einræðisherra sem vildi kúga aðrar þjóðir.

Óbilandi þakklæti

Karl 3. Bretakonungur heimsótti minnismerki um fórnir Breta við Normandí við Ver-sur-Mer, en það stendur við eina af ströndunum þar sem Bretar gengu á land. „Þakklæti okkar er óbilandi og aðdáun okkar er eilíf,“ sagði konungur í ræðu sinni, þar sem hann hyllti þá sem tóku þátt í innrásinni miklu.

Karl sagði að hin lýðfrjálsu ríki heims yrðu að standa saman gegn öflum einræðisins og bætti við að vonandi myndi aldrei þurfa að færa jafnmiklar fórnir og á D-deginum.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sótti einnig hátíðahöldin ásamt Olenu eiginkonu sinni, og var þeim vel fagnað af öllum viðstöddum þegar þau mættu til hátíðarinnar. Sagði Selenskí á samfélagsmiðlum sínum að bandamenn hefðu varið Evrópu árið 1944 og Úkraínumenn gerðu það nú. „Samstaðan hafði betur þá, og sönn samstaða getur haft betur nú,“ sagði Selenskí.

Fengu heiðursorðuna

Heiðursgestir samkomunnar voru rúmlega 180 hermenn frá tímum síðari heimsstyrjaldar, en þeim fer nú óðum fækkandi. Biden hitti 41 hermann sem tók þátt í aðgerðum Bandaríkjahers í Normandí, þar af voru 33 hermenn sem gengu á land á sjálfan innrásardaginn.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti heiðraði nokkra þeirra með heiðursorðunni, æðstu viðurkenningu Frakklands, fyrir afrek þeirra fyrir áttatíu árum.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson