Valgerður Laufey Guðmundsdóttir
Kvikmyndin Dalalíf fagnar 40 ára afmæli sínu á árinu. Dalalíf er önnur kvikmyndin í þríleik eftir Þráin Bertelsson um vinina Þór og Danna. Eggert Þorleifsson fer með hlutverk Þórs og Karl Ágúst Úlfsson fer með hlutverk Danna. Vinirnir sjá auglýsingu í blaði þar sem bóndi óskar eftir búfræðingi til að sjá um bóndabæ sinn á meðan hann fer til útlanda. Bregða þeir á það ráð að þykjast vera hámenntaðir búfræðingar og taka að sér að sjá um bóndabæinn. Búskapurinn er þeim ekki auðveldur og þeir taka til ýmissa ráða sem eru ekki upp á marga fiska. Til að mynda áttu þeir að merkja kindurnar og ákváðu að spreyja þær í alls kyns litum og mynstrum svo að hver og ein væri auðþekkjanleg. Þar að auki viðruðu þeir hænurnar og dreifðu áburði á nýþveginn þvott. Í myndinni kemur einnig fyrir sveitastelpan Katrín sem Þór reynir að ganga í augun á með því að gerast grænmetisæta eins og hún.
Þeir þreytast fljótt á búskapnum og auglýsa Dalalífsvikur fyrir borgarbúa svo þeir geti kynnst unaðssemdum sveitasælunnar sem þeir rukka inn á. Þar fer af stað stórskemmtileg atburðarás sem hægt er að hlæja mikið að.
Undirritaðri finnst myndin hin besta skemmtun og eldast vel.