Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bættar samgöngur eru nauðsynlegar og þjóðhagslega mjög mikilvægar. Þær auka hagvöxt, styrkja byggð og draga úr slysum.

Jón Gunnarsson og Vilhjálmur Árnason

Nú er samgönguáætlun til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins á sama tíma og miklar áskoranir blasa við í samgöngumálum. Mikil innviðaskuld í samgöngukerfinu er staðreynd og það er sama hvert litið er, risavaxin verkefni eru á teikniborðinu.

Í fyrri samgönguáætlun lagði Alþingi þunga áherslu á að breytt yrði um fyrirkomulag á fjármögnun verkefna, þ.e. að fara í sérstaka gjaldtöku sambærilega og gert var við byggingu Hvalfjarðarganga með góðum árangri. Grundvöllur að slíkri álagningu er að hún sé mjög sanngjörn gagnvart þeim sem oft fara um mannvirkið, þannig að hún verði ekki íþyngjandi, á sama tíma og einskiptisnotendur greiða hærra verð. Reynslan sýnir okkur að þar yrði fyrst og fremst um að ræða ferðamenn. Athugun á þessu fyrirkomulagi sem gerð var 2017 sýndi að ferðamenn myndu greiða allt að 40% af uppbyggingu vegakerfisins.

Í stóru en strjálbýlu landi þurfum við að fá gestina til að greiða uppbygginguna með okkur.

Ný hugsun nauðsynleg

Það er skoðun undirritaðra að nauðsynlegt sé að taka upp nýja hugsun í fjármögnun samgönguframkvæmda þannig að hægt sé að hugsa stærra í stað þess bútasaums sem er staðreynd í dag. Sem dæmi má taka byggingu vegar frá Rauðavatni austur að Þjórsá með nýrri brú á Ölfusá sem hagkvæmast hefði verið að bjóða út í einu lagi með tvöföldum vegi og mislægum gatnamótum. Í stað þess var verkið boðið út í áföngum sem gerir allt verkið mjög óhagkvæmt í þessum samanburði og bara hálfklárað, sem 2+1-vegur með gatnamótum í plani og styttri í báða enda.

Grunnur að nýrri hugsun í fjármögnun er að hagkvæmustu leiða sé leitað í öllum framkvæmdum. Þau dæmi sem eru hrópandi í dag um óhagkvæmar framkvæmdir eru m.a. mörg verkefni samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og ber þar einna hæst brú yfir Fossvog sem verður 270 metrar að lengd. Brúin er mikilvægur hluti af uppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, en af hverju þarf hún að vera svokölluð „hönnunarbrú“ með verðmiða upp á a.m.k. 8 milljarða þegar hægt er að byggja fallega brú sem sinnir sínu hlutverki sómasamlega fyrir 3 milljarða? Hér má hafa í huga að upphafleg kostnaðarviðmið voru um 2,2 milljarðar.

Hönnunarbrýr og minnisvarðar

Annað dæmi um óráðsíu er hægt að taka um byggingu nýrrar brúar yfir Ölfusá sem verður 330 metrar. Þó erfitt hafi verið fyrir okkur að fá upplýsingar frá Vegagerðinni um uppfærðan áætlaðan kostnað við brúna þá sýnist okkur að verðmiðinn sé a.m.k. 10 milljarðar. Samkvæmt traustum upplýsingum frá reynslumiklum aðilum á þessu sviði er hægt að byggja brúna fyrir 3 til 3,5 milljarða sem er líka 2+2, þolir jarðskjálfta og þær klakabandaaðstæður sem þarna geta skapast yfir vetrartímann. Þá yrðu byggðar tvær brýr út í eyjuna sem brúin á að fara yfir og vegstubbur lagður í eyjunni þeirra á milli. Við spyrjum okkur, hver var það sem tók ákvörðun um að byggð skyldi hönnunarbrú, einhvers konar minnisvarði? Alþingi kom a.m.k. aldrei að þeirri ákvörðun. Íbúarnir kalla eftir skynsamlegri lausn sem tryggir þeim að brúin verði byggð á sem skemmstum tíma og að hagkvæmt verði að aka yfir hana. Hægt er að taka Borgarfjarðarbrú sem dæmi. Er einhver að kvarta yfir því að hún sé ekki nægilega falleg? Hún þjónar vel sínum tilgangi og enginn kvartar.

Til samburðar vegna áðurnefndra brúarframkvæmda má taka lagningu vegar og brúa yfir Hornafjarðarfljót. Framkvæmdin felur í sér lagningu 19 km langs þjóðvegar og byggingu fjögurra tvíbreiðra brúa, 52 metra, 250 metra, 114 metra og 52 metra langrar. Heildarkostnaður við verkið, sem framkvæmdir standa nú yfir við, er um 8,8 milljarðar.

Líkum má leiða að því að óþarfa flottheit við hönnun og byggingu brúa yfir Ölfusá og Fossvog kosti aukalega 11 til 12 milljarða. Það væri mikið hægt að gera í vega- og brúargerð fyrir þá upphæð. Alþingi getur að okkar mati ekki tekið þátt í þessu bruðli með skattfé borgaranna.

Hættum bruðlinu, notum skynsemina

Nú þarf að draga línu í sandinn og stokka spilin upp á nýtt. Hægt er að ná ævintýralegum árangri í samgöngumálum okkar Íslendinga með því að selja eignir hins opinbera og breyta þeim í þjóðhagslega mikilvæga samgönguinnviði, fara nýjar leiðir í gjaldtöku þar sem gestirnir taka þátt með okkur og fara hagkvæmustu leiðir við hönnun og útfærslu framkvæmdanna. Enda er það mat margra að í bestu lausnunum fari hagkvæmni, fegurð og tæknileg gæði saman. Sleppum skrautinu, en höfum verkið smekklegt. Með nýrri gjaldtökuleið þarf að leggja áherslu á vandaða meðferð á skattfé borgaranna.

Útfærslu þessara verkefna sem við höfum rakið hér verður að stöðva. Þetta á við um fjölmörg önnur verkefni í samgöngumálum og ber þar líklega hæst stjarnfræðilegan kostnað við svokallaða borgarlínu.

Okkar tillaga er einföld; hættum bruðlinu og notum skynsemina. Sú leið mun kalla fram áætlanir þar sem við getum hugsað stærra, gert meira og gert betur.

Bættar samgöngur eru nauðsynlegar og þjóðhagslega mjög mikilvægar. Þær auka hagvöxt, styrkja byggð og draga úr slysum. Það er raunhæft markmið að nánast útrýma banaslysum í umferðinni. Eina leiðin til þess er að vegir í þéttbýli og dreifbýli séu öruggir.

Samgöngur eru eitt stærsta velferðarmálið.

Höfundar eru alþingismenn.