Eðvarð Taylor Jónsson
Íslenska bahá’í samfélagið efnir nú um helgina til listahátíðar til stuðnings við jafnréttisbaráttu íranskra kvenna og til heiðurs tíu bahá'í konum sem voru líflátnar í Íran árið 1983. Hátíðin er hluti af heimsátaki Alþjóðlega bahá'í samfélagsins, sem nefnist #SagaOkkarErEin og var hrundið af stað í júní 2023 þegar rétt 40 ár voru liðin frá aftöku kvennanna. Með þessu átaki vilja bahá'íar um allan heim heiðra minningu þessara kvenna og lýsa stuðningi sínum við þá áratugalöngu baráttu sem íranskar konur af öllum trúarbrögðum og bakgrunni hafa háð í marga áratugi og heyja enn í dag. Í stefnuskrá átaksins segir að tilgangur þess sé ekki aðeins að heiðra þessar tíu bahá'í konur heldur allar konur í Íran sem styðja baráttuna fyrir jafnrétti kynjanna og vilja leggja sitt af mörkum til að skapa betri framtíð í landinu og bjóða kúgunaröflunum í landinu byrginn með þrautseigju sinni og harðfylgi. Þátttakendur í þessu átaki eru hvattir til að nota sköpunargáfu sína og listræna getu til þess að auka skilning fólks á hlutskipti Írans og lífi íranskra kvenna. Þúsundir um allan heim hafa tekið þátt í þessu átaki sem hefur það meginmarkmið að styðja og efla þær breytingar sem nú eiga sér stað í Íran.
Konurnar tíu voru handteknar í október og nóvember 1982. Þær sættu hörðum yfirheyrslum og pyntingum af hendi íslamskra byltingarvarða sem vildu þvinga þær til að ganga af trú sinni og gerast múslímar. Engin þeirra samþykkti að skrifa undir slíkar yfirlýsingar. Rétti þeirra til lögfræðiaðstoðar og opinna réttarhalda var hafnað. Dómur var felldur samkvæmt sharía-lagakerfi íslams og þær fundnar sekar um síonisma, njósnir fyrir Ísrael og fyrir að stunda kennslu í hagnýtri siðfræði fyrir börn. Konurnar voru dæmdar til dauða með hengingu. Flestar þeirra voru á milli tvítugs og þrítugs, en ein þeirra var 17 ára gömul og önnur á fimmtugsaldri. Snemma þann 18. júní 1983 voru þær fluttar með leynd til Chowgan-torgsins í borginni Shíraz og hengdar þar ein í einu, að stallsystrum sínum ásjáandi. Fjölskyldum þeirra var ekki sagt frá dauða þeirra og þær fengu ekki að sjá líkin sem yfirvöld létu jarðsetja í snatri án viðhafnar af nokkru tagi. Talið er að yfirvöld hafi fengið þeim legstað í bahá'í grafreit í Shíraz. Hann var síðan eyðilagður og á honum reist „menningar- og íþróttahöll“ árið 2014.
Bahá'í samfélagið í Íran hefur alltaf hvatt til fullrar þátttöku kvenna á öllum sviðum samfélagsins, þar með talið í opinberri stjórnsýslu og ákvarðanatöku. Þessi viðhorf til kvenna hafa verið dýru verði keypt. Í þau 40 ár sem liðin eru síðan konurnar tíu voru teknar af lífi hafa hundruð bahá'í kvenna sætt ofsóknum og mismunun. Eftir byltinguna var bahá'í konum, sem gegndu þýðingarmiklum stöðum í landinu, vísað frá störfum, þær handteknar og fangelsaðar, pyntaðar eða teknar af lífi. Þeim sem eftir lifa er meinað um háskólamenntun, almenn störf og þátttöku í nánast öllum þáttum íranska samfélagsins. Þrátt fyrir þessar kerfisbundnu ofsóknir, sem nú um stundir ná því miður til allra Írana, karla og kvenna, hefur bahá'í samfélagið lagt ríka áherslu á að þjóna landi sínu með stuðningi við jafnrétti kynjanna, réttláta málsmeðferð allra Írana og fullan aðgang að menntun, án tillits til afleiðinganna sem það hefur á líf þeirra.
Íslenska bahá'í samfélagið býður öllum að taka þátt í að heiðra minningu þessara tíu kvenna og allar þær írönsku konur sem hafa lagt sitt af mörkum til að byggja upp betra og réttlátara samfélag í Íran í gegnum raunir sínar og þrengingar. Listahátíðin til heiðurs þessum konum verður haldin í þjóðarmiðstöð bahá'ía Kletthálsi 1 í Reykjavík og stendur frá kl. 13-17 dagana 8. og 9. júní.
Höfundur er eftirlaunaþegi.