Þorkell Ragnarsson fæddist í Reykjavík 28. október 1958. Hann lést 25. maí 2024.

Foreldrar hans voru Ragnar Sigurður Sigurðsson, f. 2.7. 1913 á Eyjum í Breiðdal, d. 22.10. 1985, og Björg Erlingsdóttir, f. 9.3. 1930 á Þorgrímsstöðum í Breiðdal, d. 2.11. 2008. Alsystkini Þorkels: Ellen Ásthildur, f. 10.1. 1957, d. 24.9. 2018; Kristín Þórdís, f. 19.4. 1960. Hálfsystkini Þorkels: Ingunn Ragnarsdóttir, f. 14.11. 1944; Guðmundur Birgir Ragnarsson, f. 1.5. 1947; Soffía Ragnheiður Ragnarsdóttir, f. 26.8. 1950, d. 20.10. 2015; Ásþór Ragnarsson, f. 10.1. 1952.

Börn Þorkels með Kristínu Jóhannesdóttur, f. 31.8. 1961, eru: 1) Jóhannes, f. 27.2. 1982, giftur Þóru Margréti Sigurðardóttur, f. 18.6. 1982, börn þeirra eru Aron, f. 26.4. 2011, Helga Kristín f. 25.8. 2016, og Klara Sóley, f. 20.1. 2020. 2) Björg, f. 26.1. 1985, gift Sigtryggi Birki Jónatanssyni, barn þeirra er Elvar, f. 19.3. 2013, en fyrir átti Björg soninn Bjarka Brynjarsson, f. 26.10. 2002, stjúpsonur Bjargar er Jónatan Sigtryggsson, f. 17.1. 2003.

Þorkell fæddist í Reykjavík og ólst upp á Hjallavegi til átta ára aldurs en síðan í Breiðholtinu. Þorkell bjó meirihluta ævinnar í Bökkunum í Breiðholti en síðustu árin í Kópavogi. Þorkell starfaði m.a. sem ráðgjafi hjá SÁÁ, sölufulltrúi hjá VÍS og fasteignasali hjá Remax. Einnig tók hann að sér hin ýmsu félags- og sjálfboðaliðastörf í gegnum tíðina, t.d. fyrir SÁÁ, 12 spora samtök, hverfisráð Bakka- og Stekkjahverfis, ÍR og Komið og dansið.

Útför Þorkels fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 7. júní 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku pabbi minn.

Ég á svo erfitt með að sætta mig við að þú sért farinn. Ég hugga mig við allar góðu stundirnar og þakka fyrir þann tíma sem ég fékk með þér. Þú varst ávallt sá sem ég leitaði til þegar eitthvað bjátaði á eða ég þurfti einhvern til að tala við. Þú varst svo góður að hlusta og veita mér ráð án þess að taka ábyrgðina frá mér. Þú varst góðhjartaður, blíður og einstaklega hjálpsamur maður, algjör þúsundþjalasmiður og mjög úrræðagóður.

Þegar ég hugsa til þín þá ertu glaður með bros á vör enda varstu svo hress og mikill stuðpinni en einnig með þann hæfileika að taka alvarleg samtöl og vera klettur þegar þurfti. Þær minningar sem ég held fast í eru þau ófáu skipti sem þú dansaðir við mig í stofunni, tíminn sem við áttum saman þegar Bjarki var lítill og við bjuggum hjá þér, öll þau skipti sem þú komst og reddaðir mér þegar Sigtryggur var á sjó, góðu samtölin við matarborðið og hversu skemmtilegur og góður þú varst við barnabörnin þín.

Takk fyrir allt sem þú kenndir mér, sérstaklega að vera þolinmóð, umburðarlynd, lausnamiðuð, hafa trú á sjálfri mér og standa fyrir því sem er réttlátt.

Hvíldu í friði, elsku pabbi.

Björg.

Elsku pabbi.

Þú varst tekinn alltof fljótt frá okkur. Þegar ég hugsa um tímann sem ég átti með þér, þá er það fótboltinn sem tengir okkur mest. Hvort sem það var á ÍR-vellinum, landsleikjum eða bara heima að horfa á Manchester United-leiki. Ef við vorum ekki að horfa saman á leiki þá vorum við að spjalla saman í símann meðan á þeim stóð. Svo þurfti annar okkar að bíða því útsendingin var ekki á sama tíma. Svo tókum við iðulega gott spjall, þá um kaup og sölu á leikmönnum.

Þegar við Björg komum til þín um jól og páska þegar við vorum yngri, þá fórum við saman á vídeóleiguna og leigðum tíu nýjar og tíu gamlar og horfðum á þær, poppuðum og drukkum kók með klaka.

Það reyndi á gamla þegar ég varð unglingur og þá settist þú niður með mér og tókst spjallið.

Mér er minnisstætt þegar við fluttum tveir saman í Kóngsbakkann og keyptum okkur hvor sinn BMW-sportbílinn. Þvílíkir töffarar sem við vorum. En föttuðum svo að við þyrftum að læra að elda, en í stað þess að læra það, þá var bara grýta og 1944 í öll mál.

Þér leiddist ekki að keppast um hvor væri í betra formi, eins og þú sagðir alltaf: „Frá hálsi og niður er ég 18 ára en þú 40 ára.“

Þú hjálpaðir mér að taka stóru ákvarðanirnar í mínu lífi. Sú stærsta var sennilega sú hvort ég ætti að fara að vinna sem pípari, þú hvattir mig til að prófa, sem ég gerði. Það var þvílík lukka, þar sem ég er með eigin rekstur í dag og gengur vel.

Gamlárskvöld voru okkar bestu kvöld og þegar kínverjabeltið skildi eftir far í jörðinni, varð það til þess að við urðum alveg sprengjuóðir, með risaflugeldasýningu á gamlárskvöld ár hvert.

Þú varst þúsundþjalasmiður, hvort sem þurfti að stilla skápa eða skúffur, parketleggja, flísaleggja eða smíða pall. Þú varst alltaf mættur til að hjálpa.

Ég er þér óendanlega þakklátur fyrir þann tíma sem við eyddum saman.

Þinn sonur,

Jóhannes.

Mig langar að minnast elskulegs tengdaföður míns í nokkrum orðum.

Keli var mér góður og traustur tengdafaðir og sýndi mér væntumþykju og virðingu frá fyrstu kynnum. Hann kom alltaf þegar við þurftum á aðstoð að halda við viðhald á húsinu okkar. Hann var greiðvikinn og vandvirkur, stundum jafnvel of vandvirkur að mínu mati en hann vildi ávallt skila af sér góðu verki.

Keli var mjög hreykinn af börnunum sínum og barnahópnum þeirra og mikið nutu drengirnir mínir samveru hans. Ég á eftir að sakna samverustundanna sem við áttum, góðu samtalanna sem við áttum og að gefa honum sykur í kaffið. Eftir stendur minning um góðan mann sem reyndist mér og mínum vel.

Takk fyrir allt, elsku Keli, hvíldu í friði.

Sigtryggur.

Elsku tengdapabbi féll frá alltof snemma. Þegar hugsað er til baka koma upp margar minningar um hann Kela. Þennan hressa og skemmtilega mann sem ég á eftir að sakna.

Nýlegastar eru minningar um þær stundir sem hann eyddi með okkur við að taka húsið okkar í gegn. Þar var hann alltaf boðinn og búinn að aðstoða og var nákvæmni hans fag, hann var líka þolinmóður og mikill nostrari. Alltaf hringdi ég í tengdapabba ef það þurfti að stilla skáphurðirnar eða gera annað sem krafðist nákvæmni.

Hann var mikill sögumaður og mér er minnisstætt gamlárskvöld fyrir tveimur árum, þá sátum við langt fram á nótt og hlustuðum á hann segja okkur sögur frá því hvað hann var að bralla þegar hann var ungur. Gamlárskvöld eru líka í hávegum höfði í okkar fjölskyldu en þá voru þeir feðgar í essinu sínu með flugeldasýningu á miðnætti.

Krakkarnir sakna afa síns mikið, hann var alltaf svo góður við þau. Mætti alltaf á alla fótboltaleiki og laumaði að þeim nammipoka þegar hann kom í heimsókn, kenndi þeim dansspor og lék við þau.

Hvíl í friði, elsku Keli.

Þóra Margrét
Sigurðardóttir.

Elsku afi Keli.

Þegar ég minnist þín kemur blái bíllinn fyrst upp í hugann og lyktin af þér þegar þú knúsaðir mann. Ég man svo vel eftir því þegar þú tókst mig með til að velja mér afmælisgjöf frá þér, ég hafði fengið vondan mat í skólanum og þú gafst mér ostaslaufu, ég borðaði hana í bílnum og hann var allur í mylsnu. Þú fórst strax á næstu Olísstöð til að ryksuga mylsnuna.

Ég man líka eftir öllum landsleikjunum sem við fórum á saman, það var svo gaman, fórum alltaf allir saman, ég, þú, Bjarki og pabbi. Við fórum alltaf fyrst og fengum okkur að borða. Þetta var orðin hefð. Ég man þegar það varð „óhappa“ að horfa á HM 2018-leikina heima hjá okkur og við komum alltaf til þín að horfa á þá. Ég var samt allan tímann í tölvunni að spila Angry Birds-leik.

Ég á margar aðrar góðar minningar um þig afi og þú varst alltaf svo hress og skemmtilegur, alltaf glaður og algjör stríðnispúki.

Ég mun sakna þín.

Þinn

Aron.

Elsku afi Keli.

Nú þegar við kveðjum þig þá rifjast upp svo margar minningar um þig eins og þegar þú komst í heimsókn og gafst okkur nammipoka.

Svo komstu alltaf að sjá mig spila á fótboltamótum, mér fannst það gaman.

Ég man líka þegar þú og pabbi voruð að vinna í garðinum og þú kallaðir mig alltaf verkstjórann og leyfðir mér að halda á skrúfunum. Afi var alltaf að stríða mér þegar hann kom í heimsókn, hann kenndi mér líka að dansa og dansaði oft við mig.

Ég elskaði að vera með þér á gamlárskvöld, þú varst alltaf til í að koma út að kveikja á stjörnuljósum og sprengja flugelda.

Ég mun sakna þín, afi.

Þín

Helga Kristín.

Elsku frændi.

Ég trúi því ekki enn að hann frændi minn sé fallinn frá, Keli var þannig maður að ef eitthvað bjátaði á þá var hann alltaf tilbúinn að aðstoða. Ég held að það skrýtnasta sem ég hafi spurt Kela að hafi verið þegar ég fór í fyrsta skipti norður og þá var nýbúið að opna Hvalfjarðargöngin, ég kom út úr göngunum og tók nokkra hringi á hringtorginu því ég vissi ekki hvort ég átti að fara út þar sem stóð Akranes eða Borgarnes, þá var gott að geta hringt í Kela og fengið að vita hvar ég ætti að fara út. Hann fór með mér að skoða íbúðir þegar ég keypti mína fyrstu íbúð, stundum langaði mig að láta mig hverfa þegar hann opnaði alla skápa og skúffur, bankaði undir allar innréttingar og upp um alla veggi, en hann vissi hvað átti að skoða og spyrja um. Einnig seldi hann mér svo sjálfur íbúð seinna þegar hann var í fasteignasölunni.

Það var alltaf gaman þegar við Keli hittumst og þó við hittumst stundum sjaldan var alltaf eins og við hefðum hist í gær.

Alltaf stækkar skarðið sem hoggið hefur verið í systkinahóp mömmu en Keli er þriðja systkinið sem kveður okkur alltof snemma, en við sem eftir sitjum yljum okkur við góðar minningar.

Elsku Björg og Jói, hugur minn er hjá ykkur og öðrum aðstandendum. Megi almættið styrkja ykkur í þessari miklu sorg.

Takk fyrir allt, elsku Keli, við sjáumst seinna.

Þín „uppháhaldsfrænka“ (þú fékkst aldrei að gleyma því).

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

Þín vinartryggð var traust og föst

og tengd því sanna og góða,

og djúpa hjartahlýju og ást

þú hafðir fram að bjóða.

Og hjá þér oft var heillastund,

við hryggð varst aldrei kenndur.

Þú komst með gleðigull í mund

og gafst á báðar hendur.

Svo, vinur kæri, vertu sæll,

nú vegir skilja að sinni.

Þín gæta máttug verndarvöld

á vegferð nýrri þinni.

Með heitu, bljúgu þeli þér

ég þakka kynninguna,

um göfugan og góðan dreng

ég geymi minninguna.

(Höf. ók.)

Helga Berglind.

Það var algerlega óvænt og sárt þegar mér var sagt að minn allra besti vinur og félagi, Keli, væri fallinn frá, langt, langt fyrir aldur fram. Leiðir okkar Kela lágu fyrst saman í gegnum störf fyrir KSÍ þegar við báðir vorum rétt skriðnir yfir tvítugt og gegndum því vanþakkláta en nauðsynlega hlutverki að vera knattspyrnudómarar.

Við endurnýjuðum kynnin nokkrum árum síðar í störfum í kringum knattspyrnufélag SÁÁ og síðar í félagsstarfi SÁÁ. Keli stýrði álfasölu í nokkur ár og hannaði þar sölukerfi í samráði við kerfisstjóra. Ég kom að því starfi með honum og unnum við náið saman að þessum verkefnum og fleirum og náðum mjög vel saman.

Þorkell var afskaplega drífandi og duglegur, algert félagsmálatröll og kom víða við. Meðal annars sat ég með honum í stjórn Gula hússins, en fyrir það hús hafði Keli starfað lengi og lyft þar grettistaki, m.a. með endurnýjun á risi hússins og mörgu fleiru þar innandyra. Eins starfaði hann með samtökunum „Komið og dansið“ og dró ekki af sér þar frekar en annars staðar.

Keli var einstakur vinur, traustur og góður og mikill vinur vina sinna. Hann lét það sig varða þegar eitthvað bjátaði á í vinahópnum og á ég honum líf að launa. Það gerðist þannig að við vorum að tala saman í síma, ég var eitthvað slappur og hann heyrði það og hvatti mig til að kíkja upp á læknavakt. Ég sagðist ætla heim en hann sagði þá eitthvað á þessa leið: „Þú hljómar þannig að ef þú ferð ekki upp á vakt núna, þá kem ég og sæki þig og fer með þig á vaktina!“ Ég fór að ráðum hans og það varð mér til lífs, því ég bókstaflega rétt náði inn á læknavaktina áður en ég hné niður meðvitundarlaus. Keli lét ekki þar við sitja, því hann heimsótti mig daglega á sjúkrahúsið og studdi eftir að heim var komið. Slíkir vinir eru gull.

Þorkell var vinmargur og ég veit um marga sem eiga honum mikið að þakka. Með honum er genginn maður sem markaði djúp spor í líf margra og er hans sárt saknað. Börnum hans, barnabörnum og fjölskyldunni allri votta ég mína dýpstu samúð.

Vindurinn hvíslar í vanga minn

og vætla tárin niður kinn,

til saknaðar ég í sálu finn

sem fann ég ekki áður.

Með Guðsenglum gengur andi þinn

í gleði og engum háður.

(Heimir Bergmann)

Heimir Bergmann.

Elsku Keli minn.

Takk fyrir gleðina og húmorinn. Takk fyrir að hjálpa mér þegar ég villtist af leið. Takk fyrir hvatningu og huggunarorð. Takk fyrir að vera alltaf til staðar.

Takk fyrir allan dansinn og það sem þú kenndir mér. Takk fyrir allt.

Ég held áfram með sorg í hjarta, en endalaust þakklát fyrir að hafa eignast vináttu þína.

Þú varst minn besti vinur.

Margrét (Magga).