Nýliðinn maímánuður var tiltölulega hlýr og hiti var yfir meðallagi á langflestum veðurstöðvum samkvæmt yfirliti Veðurstofunnar. Þá var sérstaklega hlýtt á norðaustan- og austanverðu landinu. Aðra sögu er hins vegar að segja af Suðvestur- og Vesturlandi, þar sem var mun kaldara

Nýliðinn maímánuður var tiltölulega hlýr og hiti var yfir meðallagi á langflestum veðurstöðvum samkvæmt yfirliti Veðurstofunnar. Þá var sérstaklega hlýtt á norðaustan- og austanverðu landinu. Aðra sögu er hins vegar að segja af Suðvestur- og Vesturlandi, þar sem var mun kaldara.

Meðalhitinn í Reykjavík í maí var 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, eða 6,9 stig. Á Akureyri var meðalhitinn 7,8 stig, 1,6 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Maí var blautur á suðvestan- og vestanverðu landinu en þurr norðaustan- og austanlands. Þá var mjög úrkomusamt í Stykkishólmi, en þann 25. maí var sólarhringsúrkoman skráð 39 mm, sem er það mesta sem hefur mælst þar á einum degi í maí.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 21,5 stig á Mánárbakka og Húsavík þann 25. maí. Mest frost í mánuðinum mældist -10,2 stig á Setri þann 1. maí.

Það var sérlega sólríkt á Akureyri í maí, en sólskinsstundirnar mældust 252,2, sem er 81,5 stundum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Í Reykjavík mældust þær hins vegar 63,7 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, eða 145,3.