Endurkröfur Áfengi og fíkniefni voru helstu ástæður endurkrafna.
Endurkröfur Áfengi og fíkniefni voru helstu ástæður endurkrafna. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Endurkröfur á tjónvalda í umferðarslysum námu samtals rúmlega rúmum 139 milljónum króna árið 2023. Fjárhæð hæstu endurkröfu var 7 milljónir króna, næsthæstu rúmlega 6,4 milljónir króna og þeirrar þriðju hæstu tæplega 5,6 milljónum króna

Endurkröfur á tjónvalda í umferðarslysum námu samtals rúmlega rúmum 139 milljónum króna árið 2023. Fjárhæð hæstu endurkröfu var 7 milljónir króna, næsthæstu rúmlega 6,4 milljónir króna og þeirrar þriðju hæstu tæplega 5,6 milljónum króna.

Þetta kemur fram í árlegri samantekt endurkröfunefndar ökutækjatrygginga fyrir árið 2023. Nefndinni bárust 136 mál, en þar af samþykkti hún bætur að öllu leyti eða hluta í 131 máli. Ástæður endurkrafna voru flestar vegna ölvunar, þær voru 84 eða 64% tilvika. Endurkröfur vegna aksturs undir áhrifum lyfja voru næstalgengastar, þ.e. 41 eða í rúmu 31% tilvika.

Stórkostlegt gáleysi

Endurkröfunefnd hefur á undanförnum árum vakið athygli á því að endurkröfum vegna ávana- og fíkniefna hefur fjölgað mjög hlutfallslega, en þeim fækkaði þó um 11% milli áranna 2022 og 2023.

Helgi Jóhannesson, lögmaður og formaður nefndarinnar, segir í samtali við Morgunblaðið fátt koma á óvart í þessum tölum. Hann segir þó brýnt að fólk geri sér grein fyrir alvarleika þess að aka undir áhrifum áfengis eða lyfja.

„Ef þú veldur tjóni og ert rétt yfir mörkum er ekki litið til þess hvort ölvunin hafi áhrif á það sem gerðist. Það er skilyrðislaust litið á það sem stórkostlegt gáleysi í skilningi umferðarlaga. Ef um persónutjón er jafnframt að ræða, og einhver bíður varanlegan skaða af, geta kröfur hlaupið á tugum milljóna,“ segir Helgi. sveinnv@mbl.is