Valdimar Ágúst Steingrímsson fæddist 7. júní 1939 á Akureyri, yngstur þriggja barna Steingríms Björnssonar og Maríu Valdimarsdóttur, en miðjubarn í hópi þriggja annarra hálfsystkina og barna Maríu.
Með alsystkinum sínum, Guðlaugu og Stefáni, ólst hann upp á Móbergi í Langadal, Austur-Húnavatnssýslu, í mjúkum faðmi fósturmóður sinnar Önnu Björnsdóttur og Péturs Björnssonar föðurbróður síns, ásamt frændsystkinum og börnum þeirra Einars Björnssonar föðurbróður síns og Helgu Aradóttur.
Á fjölmennu heimili Móbergs tóku börnin þátt í bústörfum frá unga aldri, lærðu hannyrðir og smíði, að spila á hljóðfæri og syngja, fengu heimakennslu í farskóla og stunduðu íþróttir af kappi. Föðurbróðir Valdimars, Pétur Björnsson, þjálfaði börnin í spretthlaupum á túninu heima og urðu þau systkinin, Guðlaug og Valdimar, á unglingsaldri einir alspretthörðustu einstaklingar á landinu, eins og sjá má á ferli þeirra á ungmennafélags- og Íslandsmótum.
Þeir bræður Valdimar og Stefán lærðu báðir á harmonikku og spiluðu af alkunnri snilld á sveitaböllum bæði í sveitum landsins og höfuðborginni. Þeir bræður voru einnig miklir veiðimenn og áttu ófáar gæðastundir við lax- og silungsveiðar í Blöndu og Svartá og víðar um sveitir Húnavatnssýslu. Þessum mikla veiðiáhuga miðlaði Valdimar síðar til mága sinna og tengdafjölskyldu sem smituðust einnig af húnversku laxveiðiveirunni.
Farskóli sveitarinnar var oft starfræktur á Móbergi en börnin úr sveitinni flykktust þangað í skólann. Valdimar var góður námsmaður og kappsamur – og segir að þá sjaldan hann fékk lægra en 9 hafi hann verið mjög ósáttur! Þessu jákvæða viðhorfi til náms og hversu mikil forréttindi það séu að fá að læra hefur hann síðan miðlað til barna sinna og barnabarna. Síðar lagði Valdimar stund á búfræði við Héraðsskólann á Hólum, og síðar harmonikkunám í Reykjavík hjá Karli Jónatanssyni og Guðna Guðnasyni.
Sem ungur maður í harmonikkunámi í Reykjavík náði Valdimar að endurnýja kynni við blóðmóður sína, Maríu Valdimarsdóttur, en hún var búsett í Reykjavík og hafði alla tíð haldið sambandi við börnin sín á Móbergi. Á þessum árum kynntist Valdimar konunni sinni, Guðrúnu Jónsdóttur hárgreiðslunema, og giftu þau sig í stofunni á Móbergi 1964. Þau fluttu síðan til Ólafsfjarðar, eignuðust þar börnin sín þrjú og unnu þar alla sína starfstíð. Og búa þar enn í dag.
Valdimar hóf störf á jarðýtu hjá Ólafsfjarðarbæ og var meðal þeirra sem gerðu veginn fyrir Ólafsfjarðarmúla árin 1964-1966. Þá hóf hann störf hjá Vegagerð ríkisins og sinnti vegaeftirliti með þessum hættulega fjallvegi í um 20 ár. Á þessum tíma aðstoðaði hann fjölda manns í óveðrum um veginn og var oft hætt kominn sjálfur en sérstaklega árið 1976 þegar snjóflóð féll á bíl hans og hreif bílinn yfir þverhnípi ofan í sjó. „Á fljúgandi ferð niður hlíðina beið ég þar til flóðið hægði á sér og mökkinn lægði, en þá setti ég undir mig hausinn og kastaði mér út í flóðið, og klifraði svo upp á veg.“ Það var því mikil bylting þegar Múlagöngin voru vígð 1991 og fór Valdimar þá að sinna umferðareftirliti ásamt lögreglunni um allt land, og gerði það í 17 ár. Hann fór á eftirlaun á sjötugasta aldursári, daginn fyrir efnahagshrunið.
Valdimar hefur verið virkur Rótarýfélagi í um 50 ár og sungið með kirkjukór Ólafsfjarðar meira en 60 ár, og sinnir þessum mikilvægu félagsstörfum enn í dag. Hann er glaðvær og músíkalskur húmoristi sem gleður fólkið sitt og aðra með tónlist og söng alla daga.
Fjölskylda
Eiginkona Valdimars er Guðrún Jónsdóttir, f. 1.12. 1938, hárgreiðslumeistari. Foreldrar Guðrúnar voru hjónin Unnur Þorleifsdóttir, húsfreyja og fiskverkakona, f. 1909, d. 1995, og Jón Ellert Sigurpálsson, skipstjóri og útgerðarmaður, f. 1910, d. 2000. Þau voru búsett á Ólafsfirði.
Börn Valdimars og Guðrúnar eru 1) Pétur Valdimarsson, f. 1966, viðskiptafræðingur, búsettur í Reykjavík. Maki: Rakel Heiðmarsdóttir, f. 1972, aðstoðarframkvæmdastjóri. Börn: María Gyða Pétursdóttir, f. 1993, Hrefna Guðrún Pétursdóttir, f. 1996, Orri Snæberg Sigurðarson, f. 2005, og Sólný Helga Sigurðardóttir, f. 2007; 2) Unnur Anna Valdimarsdóttir, f. 1972, prófessor, búsett í Reykjavík. Maki: Pétur Hafliði Marteinsson, f. 1973, athafnamaður. Dóttir: Lilja Hugrún L. Pétursdóttir, f. 2005; 3) Jóna Ellen Valdimarsdóttir, f. 1977, skurðhjúkrunarfræðingur, búsett í Hafnarfirði. Maki: Hrafnkell Pálmarsson, f. 1976, tónlistarmaður og fasteignasali. Börn: Ásta Bína Lárusdóttir Long, f. 2001, Valdimar Ágúst Long, f. 2007, Sigríður Ósk Hrafnkelsdóttir, f. 1999, og Tinna Margrét Hrafnkelsdóttir, f. 2003.
Alsystkini Valdimars: Guðlaug Steingrímsdóttir, f. 1938, fv. bóndi, búsett á Blönduósi, og Stefán Steingrímsson, f. 1938, d. 2015, rafvirki á Blönduósi. Hálfsystkini Valdimars: Anna Sigurðardóttir, f. 1932, húsmóðir í Bandaríkjunum; Emil Pétur Ágústsson, f. 1944, d. 2015, sjómaður í Keflavík; Björgvin Alexander Gíslason, f. 1947, d. 2009, öryrki í Reykjavík.
Foreldrar Valdimars voru María Valdimarsdóttir, f. 1913, d. 1992, verkakona í Reykjavík, og Steingrímur Björnsson, f. 1913, d. 2002, vegavinnumaður á Blönduósi. Fósturmóðir Valdimars var Anna Björnsdóttir, f. 1909, d. 2001, húsmóðir á Móbergi í Langadal.