Finnbogi Karlsson fæddist í Reykjavík 9. júní 1951. Hann lést á heimili sínu í Garðabæ 26. maí 2024.
Foreldrar Finnboga eru Ragnhildur Jónsdóttir, f. 26. febrúar 1930 í Neskaupstað, d. 9. ágúst 2015, og Karl Daníel Finnbogason járnsmiður, f. 25. nóvember 1928 á Siglufirði. Systkini Finnboga eru Jón H. Karlsson, f. 1949, Jóna Dóra Karlsdóttir, f. 1956, og Heimir Karlsson, f. 1961.
Finnbogi kvæntist Stellu Hermannsdóttur en leiðir þeirra skildi.
Eldri sonur Finnboga er Karl Fjölnir, f. 3. júní 1974, kvæntur Karen Víðisdóttur. Börn þeirra eru Víðir Freyr, f. 2005, Hlynur Finnbogi, f. 2007, og Emilía Björk, f. 2010. Þau eru búsett í Kópavogi. Yngri sonur Finnboga er Atli Freyr, f. 7. mars 1979. Hann er kvæntur Moa Ranung og eru synir þeirra Trond Daniel Björn, f. 2015, og Elmar Ulf Jonas, f. 2018. Þau eru búsett í Stokkhólmi.
Finnbogi ólst upp í Smáíbúðahverfinu og var í Breiðagerðis- og Réttarholtsskóla.
Finnbogi lærði ungur dúklagnir og veggfóðrun og vann við það í nokkur ár þar til leið fjölskyldunnar lá til Svíþjóðar árið 1977. Þar nam Finnbogi hagfræði. Árið 1987 flutti fjölskyldan heim á ný og starfaði Finnbogi í Teppalandi og síðar meir árum saman í Teppabúðinni-Litaveri en tók síðar við verslunarstjórn Teppaverslunar Friðriks Bertelsen. Finnbogi starfaði sem sölumaður i teppaverslunum til starfsloka.
Hann var mikill íþróttaáhugamaður og fylgdi félagi sínu, Víkingi, og ekki síður enska félaginu sínu, Manchester United. Hann missti ekki af Formúlu 1-kappakstri, Víkingsleikjum, Man.Utd.-leikjum eða landsleikjum í öllum boltaíþróttum bæði karla og kvenna. Þar var Finnbogi á heimavelli.
Finnbogi átti við vanheilsu að stríða síðustu árin.
Útför hans fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 7. júní 2024, klukkan 15.
Í dag kveð ég þig í hinsta sinn, pabbi minn.
Síðustu dagar hafa verið fullir af sorg en líka fullir af góðum minningum. Minningar úr veiði, óteljandi eftirmiðdagar í áhorf á United þar sem við upplifðum magnaða tíma. En höfum sennilega blótað heldur mikið undanfarið yfir gengi okkar manna.
Ferðirnar okkar og afabarnanna þinna á Old Trafford eru minningar sem aldrei gleymast, en minning mín af þér á hliðarlínunni hjá afabörnunum þínum er mér dýrmætust. Þú misstir helst ekki af leik. Það sem þú varst stoltur af þeim. Þau eiga sínar minningar af þér, pabbi minn.
Tónlist var alltaf stór hluti af lífi þínu og verður hinsta ósk þín uppfyllt í dag.
„Wish you were here“.
Karl (Kalli).
Í dag kveð ég þig, elsku pabbi minn. Ég er svo þakklátur fyrir að hafa átt þig sem föður.
Þú varst alltaf fljótur til að fíflast og grínast. Frá því að ég man eftir mér höfum við horft á allar íþróttir saman, oft giskað á tímann í skíðaíþróttum eða lengd í langstökki. En það var fótboltinn, og sérstaklega Manchester United, sem var okkar málefni. Við áttum margar góðar stundir saman að horfa á leiki, og það gleður mig ótrúlega mikið að síðasti leikurinn sem þú sást var þegar United vann bikarinn.
Tónlist var líka stór hluti af þínu lífi, og þú kynntir mér hana snemma. Nú þegar ég hugsa til baka, þá er ég að ala upp börnin mín á sama hátt, með fíflaskap, íþróttum og tónlist.
Þú varst góður og hlýr maður og við töluðum oft og mikið saman um allt mögulegt. Þú varst alltaf til staðar þegar ég þurfti á styrk að halda. Ég mun halda áfram að segja börnunum mínum frá þér og móta þau á þann hátt sem þú kenndir mér.
Ég sakna þín, elsku pabbi. Bless í bili.
Þinn sonur,
Atli.
Hann sveif inn í svefninn í sigurvímu.
Elsku hjartans bróðir minn fékk hvíldina eftir erfið og alvarleg veikindi undanfarin ár.
Við áttum náið og fallegt systkinasamband allt frá minni fæðingu. Hann fór á sjó sautján ára gamall og þegar hann fékk útborgað þá laumaði hann alltaf að mér, litlu systur, nokkrum hundraðköllum og jafnvel þúsundköllum. Svona var hann Finnbogi bróðir, alltaf svo góður við mig.
Áhugamálin okkar voru þau sömu, pólitík og íþróttir, og áttum við endalaus samtöl í gegnum ævina um þau mál. Við vorum svo sammála í pólitíkinni þótt stundum færi hann lengra til vinstri en ég. En við áttum sannarlega sameiginlegan andstæðing þegar kom að pólitíkinni.
Það var sárt að horfa upp á bróður minn verða jafn veikan hin síðustu ár og raun bar vitni. Veikindi hans hófust eftir alvarleg læknamistök sem hann jafnaði sig aldrei af.
Hann var þó undur rólegur yfir þessu öllu og virtist að endingu sætta sig við að svona yrði lífið. Hann lést okkur öllum að óvörum eftir að hafa horft á liðið sitt Manchester United verða bikarmeistari eftir sigur á erkifjendunum og íslenskt lið verða Evrópubikarmeistari í handbolta sama dag. Þetta gladdi hann umfram allt og hann sofnaði út af í sigurvímu.
Nú tekur við líf án bróður míns og það er sárt. Strákarnir hans, sem hann helgaði líf sitt, sjá nú á eftir pabba sínum, barnabörnin sjá á eftir afa og tengdadæturnar sjá á eftir tengdapabba. Fólkið sem hann elskaði svo heitt. Og pabbi okkar þarf að takast á við það að missa barnið sitt.
Takk, elsku hjartans bróðir minn, fyrir dásamlega samleið. Takk fyrir að þykja svona vænt um mig. Ég reyni að hugga mig við að nú ertu kominn í faðminn hennar mömmu, þú ert kominn til strákanna minna sem þér þótti svo undur vænt um. Og þar eru ömmur okkar og afar líka. Þú ert í góðum höndum og þér líður svo miklu betur. Það er mín trú.
Hugur minn dvelur hjá Kalla og Atla og þeirra fjölskyldum. Ég bið þess að þau fái styrk til þess að halda áfram án pabba, afa og tengdó.
Blessuð sé minning míns elskaða bróður, Finnboga Karlssonar.
Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Þín systir,
Jóna Dóra.
Kveð ég núna kæran bróður
kostum búinn, tryggðatröll
sem börnum var svo blíður, góður
Bogi þig sáran syrgjum öll.
Þéttur á velli, þéttur í lund
þolinn í dagsins raunum
ferðu á þinna feðra fund
finnur þar hvíld að launum.
Engin er ævin án áfalla hér
Enginn má sköpum renna
Eilífðin tekur opin við þér.
Eldur þinn ætíð mun brenna.
(Jón H. Karlsson)
Jón Hermann Karlsson.
Það er merkilegt hvað dauðinn kemur alltaf aftan að manni. Sama hversu tilbúinn maður telur sig vera. Finnbogi bróðir minn hafði glímt við erfið veikindi í mörg ár og oftar en einu sinni komist nærri því að kveðja. Hann var nýkominn heim af spítalanum eftir nokkra vikna dvöl, hressari en hann hafði lengi verið og lítandi fram á bjartari tíma, hlakkaði til að kíkja austur til okkar Rúnu, en þá kom kallið. Jóna Dóra systir mín hringdi í mig og tilkynnti mér að Finnbogi væri dáinn. Höggið sem ég fann lenda á brjóstinu á þeirri stundu var þungt. Mjög þungt og vont.
Mig langar að minnast elskulegs bróður míns í örfáum orðum.
Finnbogi var tíu árum eldri en ég og vegna þessa aldursmunar má því segja að ég hafi misst af honum út í lífið. Hann á þó stóran þátt í mínum fyrstu endurminningum. Hann var töffari þegar hann var ungur. Laglegur, með dökkt sítt hár og mikla barta og vá hvað hann var flottur þegar hann kom fyrst á Dodge Dart-blæjubílnum til að sýna okkur hinum í fjölskyldunni.
Finnbogi var mikill unnandi popptónlistar og átti ungur fjölmargar hljómplötur, bæði litlar og stórar. Þær litlu skiptu hundruðum, þar sem Bítlarnir, Rolling Stones, Hljómar og ekki síst Trúbrot voru framarlega á listanum. Finnbogi kynnti mér þessa tónlist og ég man vel hvað mér fannst gaman að koma inn í herbergið hans og fá að hlusta. Sérstaklega fannst mér gaman þegar hann leyfði mér að sækja litlu plöturnar inn í skáp, rétta honum svo hann gæti sett þær á fóninn og spilað. Það var ekki sjálfgefið að 6 ára patti fengi að eyða slíkum stundum með unglingsbróður. Það glumdi vel í herberginu á litlu heimili þegar Finnbogi setti allt í botn. Ekki síst þegar hann uppgötvaði þyngra rokkið, t.d. Uriah Heep, Deep Purple, Led Zeppelin og ekki síst Pink Floyd. Þá þótti sumum fjölskyldumeðlimum nóg um, en ég var heppinn, ég fékk aldrei nóg. Hann kenndi mér að meta þessa tónlist, ekki síst Pink Floyd sem varð í miklu uppáhaldi hjá honum og síðar mér.
Finnbogi var stríðinn, með gott skopskyn og kímnigáfu. Kaldhæðinn húmor. Ég hef ekki verið mikið eldri en 8-10 ára þegar hann kom heim með forláta bassagítar því nú skyldi lært á bassa. Einn góðan veðurdag kallar hann í mig og tilkynnir mér að hann vilji gefa mér bassann því hann hefði ekki tíma til að læra á hann. Þetta var stórkostleg gjöf í mínum huga. Og að sjálfsögðu gat ég ekki þagað yfir því og einhvern veginn spurðist það út að ég ætti nýjan bassagítar sem ég réð ekkert við svona lítill að spila á. Ég fékk fljótt tilboð í bassann, fimm þúsund krónur og ákvað að selja hann, sérstaklega vegna þess að ég fékk greitt í glænýjum 100 króna seðlum. Nokkru seinna kom Finnbogi heim og spurði mig hvernig mér gengi að læra á bassann. Nú leið mér ekki vel. Fékk samviskubit þegar ég sagði honum að ég hefði selt hann. Ég átti von á því að hann yrði ekki glaður og myndi skamma mig, en í stað þess missti hann sig í löngu hláturskasti sem ég skildi ekkert í fyrr en hann gat stunið því upp að hálsinn á bassanum hefði verið undinn og því hefði aldrei verið mögulegt að ná hreinum tóni eða spila á hann af viti.
Elsku Kalli og Karen, Atli og Moa, og afabörn, sem afi dýrkaði og dáði, megi góður Guð styðja ykkur og styrkja í sorg ykkar.
Meira á: www.mbl.is/andlat
Heimir og Rúna.
Hæglátur og ljúfur, en fastur fyrir. Hafði mótaðar skoðanir á samfélagsmálum og lá ekki á þeim. Bóngóður og velviljaður, en hikaði ekki við að hvessa sig ef honum fannst óréttlæti og misskipting fara úr böndum. Launfyndinn og húmorískur og stutt í brosið þegar sá gállinn var á honum.
Myndarmaður alla tíð; dökkur yfirlitum og bar sig vel. Mikill fjölskyldumaður og barngóður með afbrigðum. Vel látinn og vinmargur. Þú vissir alltaf hvar þú hafðir Finnboga Karlsson. Hann kom til dyranna eins og hann var klæddur – hreinn og beinn og án undanbragða. Og hjálpsamur í blíðu og stríðu.
Og nú hefur Finnbogi Karlsson kvatt þessa jarðvist og er kominn til annarra stranda. Hann var mágur minn, bróðir konu minnar, og samferð okkar um lífsins veg varði í tæp fimmtíu ár. Aldrei bar skugga á þá vináttu. Við vorum ekki alltaf sammála í henni pólitík í eldgamla daga – hann þá sósíalistinn og ég kratinn. En virtum ævinlega skoðanir hvor annars og í seinni tíð vorum við meira og minna sammála um meginstef stjórnmálanna; frelsið, jafnréttið og bræðralagið. Ég fékk ávallt að njóta hans liðstyrks í mínu pólitíska starfi.
Finnbogi sigldi ekki alltaf lygnan sjó í lífinu, en tókst á við verkefni hversdagsins með æðruleysi og yfirvegun. Hann var um leið gæfumaður í einkalífi og einkum gladdist hann yfir velgengni sona sinna tveggja, Kalla og Atla, og þeirra góðu fjölskyldna. Finnbogi var forkur duglegur til vinnu og gekk ávallt í verkin hiklaust og fumlaust. Hann var hagfræðimenntaður frá Svíþjóð, en störf hans voru mest á öðrum vettvangi sem veggfóðrara- og
dúklagningameistari, í teppalagningum og við verslunarstjórn hjá fyrirtækjum í þeim iðnaði.
Finnbogi var jafnframt þúsundþjalasmiður og laghentur með afbrigðum. Og þjónustulundaður og hjálpsamur í hvívetna.
Ekki verður hjá því komist að nefna áhuga hans á íþróttum. Hann var ákafur Víkingur og Manchester United-maður og gaf ekki þumlung eftir.
Seinustu árin hafa reynst Finnboga erfið. Hann hefur átt við alvarlega vanheilsu að etja um árabil. Það reyndi svo sannarlega á, en jafnaðargeðið og glettnin var áfram til staðar. En eigi má sköpum renna og áralöng veikindi tóku sinn toll og að lyktum urðu örlögin ekki umflúin; Finnbogi lést á heimili sínu 26. maí síðastliðinn.
Ég þakka mági mínum ljúfa og góða samferð um lífið. Þeirrar reynslu hefði ég ekki viljað vera án. Finnbogi hafði þann hæfileika að gera fólk betra sem við hann hafði samskipti. Nærvera hans var hlý, jákvæð og uppbyggileg.
Fjölskyldu og ástvinum öllum sendi ég mínar samúðarkveðjur, ekki síst sonum hans Kalla Fjölni og Atla Frey; eiginkonum þeirra, Karen og Mou, og barnabörnunum fimm, Víði Frey, Hlyni Finnboga, Emelíu Björk, Trond Daníel og Elmari. Þau sjá á bak ástríkum pabba, tengdapabba og afa. Guð gæti þeirra og líkni í sárri sorg. Enn fremur hugsa ég með hlýju til háaldraðs föður Finnboga, hans Kalla Finnboga tengdaföður míns, sem 95 ára að aldri upplifir erfiðan sonarmissi.
Blessuð sé minning Finnboga Karlssonar. Guð gefi látnum ró og hinum líkn sem lifa.
Guðmundur Árni Stefánsson.
Ég kynntist Finnboga á unglingsaldri og hafði ég þá kynnst þó nokkrum Víkingum, enda uppalinn í Smáíbúðahverfinu og var Finnbogi mikill stuðningsmaður Víkinga. Leiðir okkar lágu svo aftur saman mörgum árum seinna þegar við störfuðum saman í Litaveri þar sem við unnum saman til fjölda ára.
Áhugi okkar á ensku knattspyrnunni dró okkur alla saman á leiki í Englandi þar sem Finnbogi var mikill stuðningsmaður Man Utd. Sitja þessar ferðir lengi í minningu um Finnboga sem var fyrst og fremst mikið ljúfmenni og þægilegur í umgengni og góður vinur.
Við viljum votta fjölskyldu og vinum okkar dýpstu samúð.
Mínir vinir fara fjöld,
feigðin þessa heimtar köld.
Ég kem á eftir, kanske í kvöld,
með klofinn hjálm og rofinn skjöld,
brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.
(Bólu-Hjálmar)
Svanur og Garðar.