Ólán í láni

Í gær undirritaði Einar Þorsteinsson borgarstjóri 100 milljóna evra lánasamning við Þróunarbanka Evrópuráðsins fyrir hönd útsvarsgreiðenda, endanlegra ábyrgðarmanna lánsins.

Það eru nær 15 milljarðar kr., en án þess segir Einar mygluviðgerðir á skólum borgarinnar ómögulegar.

Efa má skynsemina við að sveitarfélag með tekjur í krónum taki lán í erlendri mynt þegar gengi krónunnar er með sterkara móti og vextir ekki lágir. Reykjavíkurborg hefur hins vegar reynst æ örðugra að slá lán á viðunandi kjörum, svo kannski menn hafi dregið fram kampavínið í Ráðhúsinu.

Því miður er það aðeins enn eitt dæmið um fjárhagsvandræðin þegar borgin þarf að leita til þróunarbanka um rekstrarlán fyrir viðhaldi (vegna vanrækslu) sem útsvarstekjur eiga vitaskuld að standa undir.

En svo er óvíst að hvaða leyti börnin njóta lánsins. Yfirdrátturinn hjá Reykjavíkurborg var tæpir 14 milljarðar kr. í árslok 2023, svo þessir aurar fara væntanlega að töluverðu leyti í að borga hann upp. Og staðan engu skárri en fyrr.