Plága Kakkalakkar bera með sér ýmsa sýkla, s.s. salmonellu.
Plága Kakkalakkar bera með sér ýmsa sýkla, s.s. salmonellu. — Morgunblaðið/Eggert
Búið er að ná tökum á útbreiðslu kakkalakka sem uppgötvuðust á nýrnadeild Landspítalans fyrr í vikunni. Guðmundur Þór Sigurðsson, deildarstjóri fasteigna á Landspítalanum, segir skorkvikindi og aðrar meinsemdir berast af og til inn á deildir…

Sveinn Valfells

sveinnv@mbl.is

Búið er að ná tökum á útbreiðslu kakkalakka sem uppgötvuðust á nýrnadeild Landspítalans fyrr í vikunni.

Guðmundur Þór Sigurðsson, deildarstjóri fasteigna á Landspítalanum, segir skorkvikindi og aðrar meinsemdir berast af og til inn á deildir spítalans, en telur ekki að slíkum tilfellum hafi fjölgað á síðustu árum. „Það er alls ekki um að ræða neinn faraldur í þessum efnum,“ segir Guðmundur.

Kakkalakkinn barst með farangri nígerísks ferðamanns, en Guðmundur segir spítalann líta öll slík mál alvarlegum augum og reyna að bregðast skjótt við. Hins vegar þurfi að gæta mikillar varúðar, út frá heilbrigði sjúklinga, þegar eiturefni eru notuð til þess að ráða niðurlögum skordýranna. Eftirlit með hreinlæti á spítalanum sé jafnframt strangt og grannt sé fylgst með því að skorkvikindi, líkt og kakkalakkar, dreifi sér ekki um spítalann.

Spurður hvort hann hafi orðið var við fleiri tilfelli, þar sem framandi skordýr hafi fundist, segir Guðmundur svo ekki vera. Hann bendir á að skordýr geti leynst víða í flestum híbýlum manna, en að ekki sé tilefni til þess að hafa sérstaklega áhyggjur af hreinlæti á spítalanum.

Höf.: Sveinn Valfells