Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, t.v.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, t.v.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Ég er furðu lostinn yfir þessum vinnubrögðum. Okkur eru gefnir tveir dagar til að svara þessum umsögnum, á meðan ráðherrann er búinn að taka sér næstum fjóra og hálfan mánuð til að svara umsókn okkar um leyfi til hvalveiða. Þetta er með ólíkindum,“ segir Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., í samtali við Morgunblaðið.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Ég er furðu lostinn yfir þessum vinnubrögðum. Okkur eru gefnir tveir dagar til að svara þessum umsögnum, á meðan ráðherrann er búinn að taka sér næstum fjóra og hálfan mánuð til að svara umsókn okkar um leyfi til hvalveiða. Þetta er með ólíkindum,“ segir Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., í samtali við Morgunblaðið.

Viðbragða hans var leitað við þeim ummælum Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra á Alþingi í gær að Hvalur hefði frest til dagsins í dag, föstudags, til að bregðast við umsögnum frá 15 samtökum og stofnunum um umsókn fyrirtækisins um veiðar á langreyði. Ráðuneytið sendi Hval umsagnirnar sl. miðvikudag. Kvaðst ráðherrann ætla að taka um það ákvörðun á þriðjudaginn nk. hvort veita ætti Hval leyfi til hvalveiða.

„Fyrst þetta er svona fáum við nánast engan tíma til að svara. Þetta er stjórnsýsla sem ætti að fá skussaverðlaun Nóbels. Ætli þetta sé kennt á stjórnsýslunámskeiðum í Stjórnarráðinu?“ spyr Kristján og segist velta því fyrir sér hvort ráðuneytið ætli að tileinka sér svona vinnubrögð í framtíðinni og svara sjálft fyrirspurnum sem til þess sé beint eftir tvo daga.

Nefna má að umsagnaraðilarnir sem matvælaráðuneytið leitaði til höfðu viku til að skila inn umsögn sinni.

Það var Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins sem spurði matvælaráðherra hvað liði afgreiðslu umsóknar Hvals og sagði að málið gengi býsna hægt fyrir sig.

„Þetta er auðvitað ótrúleg framganga gagnvart þeim rekstri sem þarna hefur verið stundaður um langa hríð,“ sagði Bergþór.

Hann furðaði sig jafnframt á því að umsagnarbeiðni hefði verið send fjölda aðila sem ekki væru lögbundnir umsagnaraðilar og að beðið hefði verið mánuðum saman með að senda umsókn Hvals út til umsagnar.

Ráðherrann sagði í svari sínu að margt og mikið væri undir í málinu og ekki bara veiðarnar sem slíkar.

„Þess vegna taldi ég ástæðu til þess að fá álit annarra aðila heldur en bara þeirra sem lögum samkvæmt ber að sækja álit til,“ sagði Bjarkey og kvaðst vera að safna gögnum. Það væri ekkert nýtt að talsvert langan tíma tæki að taka ákvörðun í svona máli.

„Þó að það sé kannski ekki endilega til fyrirmyndar í alla staði þá er ekkert nýtt undir sólinni í þessu og margir ráðherrar í öðrum flokkum hafa tekið sér jafn langan tíma,“ sagði hún.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson