Ökumanni brá heldur betur í brún er honum barst sektarboð vegna stöðvunarbrots frá Bílastæðasjóði Reykjavíkurborgar en á tíma meints brots var bifreið hans í Kópavogi. Borgin benti honum á að senda inn beiðni vegna endurupptöku á stöðvunarbrotsgjaldi í gegnum vef bílastæðasjóðs

Ökumanni brá heldur betur í brún er honum barst sektarboð vegna stöðvunarbrots frá Bílastæðasjóði Reykjavíkurborgar en á tíma meints brots var bifreið hans í Kópavogi. Borgin benti honum á að senda inn beiðni vegna endurupptöku á stöðvunarbrotsgjaldi í gegnum vef bílastæðasjóðs.

„Þá sé ég mynd af hvítum Suzuki Swift en ég á gráan jeppa,“ segir ökumaður. Bílnúmer bílanna tveggja voru hins vegar lík og þannig augljóst að mistök urðu við skráningu. Fulltrúi bílastæðasjóðs mælti samt sem áður með greiðslu sektarinnar og ökumaður fór að þeim ráðum þrátt fyrir að ferlið kæmi honum spánskt fyrir sjónir.

Ekkert bólar á endurgreiðslu

Sekt barst á föstudegi og var greidd á sunnudegi. Tölvupósti sem lýsti undrun ökumanns á ferlinu var svarað á þriðjudegi og degi síðar var honum gert ljóst að sektin yrði endurgreidd – það var 22. maí. Enn hefur endurgreiðsla ekki borist þrátt fyrir nokkrar ítrekanir. Ökumaður telur umhugsunarvert að hart sé lagt að fólki að greiða sektir sem ekki eiga rétt á sér en á sama tíma taki óratíma að fá þær endurgreiddar.

Óþarfi að greiða

Rakel Elíasdóttir, deildarstjóri reksturs hjá bílastæðasjóði, segir ökumönnum almennt bent á að betra sé að greiða stöðvunarbrotsgjald þrátt fyrir að beiðni um endurupptöku hafi verið send, enda afsláttur veittur af gjaldinu innan þriggja virkra daga. Slík gjöld taka jafnframt lögboðnum hækkunum ef til þess kemur að beiðni sé hafnað. Rakel segir þetta þó ekki eiga við í tilvikum rangskráninga eða mistaka af hálfu stöðuvarða, þá sé óþarfi að greiða gjaldið.

Ættu að hafa endurgreitt

Hvað endurgreiðsluna varðar segir Rakel að gjaldið sé endurgreitt þegar endurupptökubeiðni hefur verð samþykkt og réttar upplýsingar liggja fyrir og vísar þar til rétts bankareiknings sem passar við kennitölu. Sektin hefur ekki verið endurgreidd nú rúmum tveimur vikum eftir að endurgreiðsla var samþykkt. olafur@mbl.is