Þingvellir Gönguferð verður á Miðfell við Þingvallavatn á morgun.
Þingvellir Gönguferð verður á Miðfell við Þingvallavatn á morgun. — Ljósmynd/Ferðafélag Íslands
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra verður meðal þátttakenda í lýðveldisgöngu á Miðfell í Þingvallasveit næstkomandi laugardag. Gönguferð þessi er meðal viðburða sem efnt er til nú í tilefni af 80 ára afmæli íslenska lýðveldisins 17

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra verður meðal þátttakenda í lýðveldisgöngu á Miðfell í Þingvallasveit næstkomandi laugardag. Gönguferð þessi er meðal viðburða sem efnt er til nú í tilefni af 80 ára afmæli íslenska lýðveldisins 17. júní næstkomandi. Ferðafélög efna til gönguferða um víðerni og þjóðlendur landsins þar sem sjónum verður beint að sameiginlegum verðmætum þjóðarinnar.

Af þessu tilefni mun Fjallakórinn, undir stjórn Láru Bryndísar Eggertsdóttur, sem stofnaður var af þessu tilefni, syngja á toppi Miðfells og á fleiri fjöllum síðar. – Í Miðfellsgönguna á laugardag verður lagt upp kl. 9 frá þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum, þaðan sem ekið verður að upphafsstað göngunnar. Einstakt útsýni er frá Miðfelli yfir Þingvallavatn og þjóðgarðinn á Þingvöllum. Gangan er alls 5 kílómetrar og hækkun 200 metrar. Gert er ráð fyrir að koma aftur að þjónustumiðstöðinni um kl. 13:30.

Þessu tengt er að þjóðgarðurinn á Þingvöllum efnir til hátíðar í tilefni lýðveldisafmælis helgina 15.-17. júní fyrir alla fjölskylduna. Hátíðarsvæðið verður í og við Almannagjá, Þingvallakirkju og að gamla Valhallarsvæðinu þar sem verða alla helgina víkingatjöld, fornleifaskóli barnanna, söngvasyrpa leikhópsins Lottu, teymt undir börnum og matarvagnar. Laugardaginn 15. júní verður Íslandskort barnanna – börnin setja sitt mark á Ísland afhjúpað og vinnustofa því tengd í gestastofu þjóðgarðsins á Þingvöllum.

Tónleikar verða í Þingvallakirkju milli kl. 15-17 og ljósmyndasýningin 80 ára lýðveldi verður formlega opnuð í gestastofu á Haki. Á sunnudeginum mun fjöldi kóra skunda á Þingvöll og syngja hver á eftir öðrum í Almannagjá frá kl. 13-16. Þá verður efnt til fjölskyldugönguferðar með ferðafélagi barnanna um Þingvelli. Kvöldið endar með tónleikum með landsþekktu tónlistarfólki og hefjast þeir klukkan 20 við gamla Valhallarreitinn. Á sjálfan þjóðhátíðardaginn, 17. júní, verður hátíðarguðsþjónusta kl. 15 í Þingvallakirkju. Af þessu tilefni verður Þingvallabærinn, sem byggður var í tengslum við Alþingishátíðina, formlega tekinn í notkun eftir viðamiklar endurbætur.

Á Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, verður haldin lýðveldishátíð dagana 16.-17. júní með fjölbreyttri dagskrá fyrir fjölskylduna. Í tilefni 80 ára lýðveldis og 1150 ára Íslandsbyggðar verður opnuð sýning á landnámsminjum sem fundist hafa á Hrafnseyri og víðar í Arnarfirði.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson