Ölfusárbrú Ný brú yfir Ölfusá verður mikið mannvirki og mun sjást víða að, eins og glögglega má sjá af þessari tölvugerðu mynd af mannvirkinu.
Ölfusárbrú Ný brú yfir Ölfusá verður mikið mannvirki og mun sjást víða að, eins og glögglega má sjá af þessari tölvugerðu mynd af mannvirkinu.
Áætlaður uppfærður kostnaður við byggingu nýrrar brúar yfir Ölfusá er um 8 milljarðar króna, en ekki um 10 milljarðar, eins og fram kom í grein alþingismannanna Jóns Gunnarssonar og Vilhjálms Árnasonar í Morgunblaðinu í gær og þeir sögðu dæmi um óráðsíu

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Áætlaður uppfærður kostnaður við byggingu nýrrar brúar yfir Ölfusá er um 8 milljarðar króna, en ekki um 10 milljarðar, eins og fram kom í grein alþingismannanna Jóns Gunnarssonar og Vilhjálms Árnasonar í Morgunblaðinu í gær og þeir sögðu dæmi um óráðsíu.

Þetta segir Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, í samtali við Morgunblaðið.

Í greininni kvarta þingmennirnir yfir því að erfiðlega hafi gengið að fá upplýsingar hjá Vegagerðinni um áætlaðan uppfærðan kostnað við brúarsmíðina og kannast Guðmundur Valur við að staðið hafi upp á Vegagerðina í því efni.

Hann segir að síðar í þessum mánuði komi í ljós hvort samið verði við ÞG verktaka um smíði brúarinnar, en viðræður standa nú yfir og endanlegt tilboð í verkið er væntanlegt.

„Það er verið að velja mannvirki sem er hagkvæmt við þverun Ölfusár og hæfir aðstæðum og það eru ekki sjónarmið um hönnunarbrú sem ráða ferðinni,“ segir hann.

Guðmundur Valur segir að mögulega sé unnt að lækka kostnað um einhverjar prósentur, en ekki sé þar um stórar tölur að ræða.

Hann segir að brúarhafið verði að spanna lengdina á milli bakka og að fallið hafi verið frá því að vera með undirstöður í ánni vegna flóðahættu, jarðskjálfta og klakaburðar í Ölfusá, þar sem hætta gæti skapast í byggðinni neðan brúarinnar þegar klakastífla brysti. Stöplar úti í ánni gætu einnig átt erfitt með að standast flekahreyfingar í jarðskjálftum.

Samkvæmt fyrirliggjandi hönnun þar sem gert er ráð fyrir turni í eyjunni, en undirstöður brúarinnar á sitt hvorum bakkanum gætu hreyfst til um allt að metra án þess að hafa alvarleg áhrif á brúna, að sögn Guðmundar Vals.

Hann segir að ef byggð yrði hefðbundin brú yfir ána án undirstaða í ánni sjálfri, þá þyrfti brúargólfið að vera í 5-6 metra hæð í stað þriggja metra, eins og nú sé gert ráð fyrir og fyllingar þar með miklu hærri á bökkunum, einkum austan megin ár og brúin lengri en hún ella þyrfti að vera.

Í grein Jóns og Vilhjálms segir að Alþingi geti að þeirra mati ekki tekið þátt í bruðli með skattfé borgaranna og vísa þeir þar til fyrirsjáanlega mikils kostnaðar við fyrirhugaðar brúarsmíðar, bæði yfir Ölfusá og Fossvog.

Þeir segjast spyrja sig þeirrar spurningar hver hafi tekið ákvörðun um að byggð skyldi hönnunarbrú yfir Ölfusá, einhvers konar minnisvarði. Alþingi hafi ekki komið að slíkri ákvörðun. Þeir telja að unnt yrði að spara stórfé með því að velja ódýrari kosti í brúargerð sem þó komi að sama gagni. Það fé sem sparast myndi mætti nýta í aðrar brýnar samgönguframkvæmdir.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson