Stórfjölskyldan Börn og makar eru, frá vinstri talið: Ragnheiður Jónsdóttir, Benedikt Skúlason, Erla Skúladóttir, Ólafur Ragnar Helgason, Helga Margrét Skúladóttir og Baldvin Þór Bergsson.
Stórfjölskyldan Börn og makar eru, frá vinstri talið: Ragnheiður Jónsdóttir, Benedikt Skúlason, Erla Skúladóttir, Ólafur Ragnar Helgason, Helga Margrét Skúladóttir og Baldvin Þór Bergsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigríður Lillý Baldursdóttir fæddist 8. júní 1954 á Flateyri og bjó þar til ársins 1960. Hún flutti þá með fjölskyldunni til Reykjavíkur. „Við bjuggum í Vogunum. Fjöldi krakka var í hverju húsi og við vinkonurnar hófum starfsferilinn með barnapössun tíu ára

Sigríður Lillý Baldursdóttir fæddist 8. júní 1954 á Flateyri og bjó þar til ársins 1960. Hún flutti þá með fjölskyldunni til Reykjavíkur. „Við bjuggum í Vogunum. Fjöldi krakka var í hverju húsi og við vinkonurnar hófum starfsferilinn með barnapössun tíu ára. Útileikirnir voru á malargötum hverfisins fram á kvöld; brennó, snúsnú, teygjó og fallin spýta.

Ég var eitt sumar í sveit í Gaulverjabæjarhreppi, sumarlaunin voru 12 þúsund krónur og sekkur af rófum. Annað sumar var ég hjá Sveini afa á Flateyri og vann í frystihúsinu. Þar gerði ég mína fyrstu uppreisn 15 ára. Fór í reykingapásu með vinkonum mínum þó ég reykti ekki. Verkstjórinn gerði athugasemdir og féllst ekki á mín rök. Hann kvartaði við afa sem ræddi það við mig. Ég sagði að tvennt væri í stöðunni, annaðhvort þyrfti ég að byrja að reykja eða þá hann að ræða þetta betur við verkstjórann. Ég byrjaði ekki að reykja og verkstjórinn lét það óátalið að ég færi í pásu.“

Sigríður Lillý gekk í Vogaskóla sem var þá fjölmennasti grunnskóli landsins. „Þar voru metnaðarfullir kennarar og öflugir skólafélagar, líf og fjör öll árin. Við létum oft reyna á mörkin, sérstaklega á unglingsárunum. Í lopapeysu og gömlum pels var ég með Donovan, Bítlana, Bob Dylan og Janis Joplin á fóninum. Menntaskólinn minn var Menntaskólinn við Tjörnina, skóli á öðru ári þegar ég byrjaði þar. Ungir og ferskir kennarar og þar gekk á með ýmsu skemmtilegu.

Sextán ára bað ég Skúla skólabróður minn um að vera með mér og hann sagði já. Við byrjuðum að búa næsta ár. Unnum fyrir okkur, hann með því að keyra út húsgögn fyrir Vörumarkaðinn og ég var með landsprófsnema í aukatímum í eðlisfræði. Ég var og er heilluð af eðlisfræði enda gefur hún svör við grundvallarspurningunum um heiminn. Kennaraferillinn hófst svo í MT haustið eftir stúdentspróf og fyrsta barnið okkar fæddist ári síðar. Ég fór hratt inn í fullorðinsárin.“

Sigríður Lillý er eðlisfræðingur frá Háskóla Íslands, var „visiting scholar“ í vísindasögu og vísindaheimspeki við Harvard og í doktorsnámi í endurhæfingarverkfræði við háskólann í Lundi. Hún kenndi eðlisfræði og stærðfræði á mennta- og háskólastigi í 20 ár og vann tæp 30 ár í stjórnsýslunni. „Ég var verkefnastjóri í utanríkisráðuneytinu þar sem ég stýrði undirbúningi vegna tveggja ráðstefna Sameinuðu þjóðanna, Kvennaráðstefnunni í Peking 1995 og Habitat-ráðstefnunni í Istanbúl 1996. Fór þaðan í félagsmálaráðuneytið þar sem ég var skrifstofustjóri.

Ég fékk tækifæri til að koma að ýmsum umbótum. Hreyknust er ég af því að hafa komið hugmyndinni um fæðingarorlof feðra á dagskrá, hún féll í góðan jarðveg hjá ráðherra. Ég leiddi svo nefndina sem vann frumvarpið að fæðingarorlofslögunum sem tóku gildi árið 2000. Með sjálfstæðum rétti feðra til fæðingarorlofs fórum við ótroðnar slóðir. Útfærslan er kölluð íslenska leiðin. Lögunum var vel tekið ekki síst af feðrum sem nýttu strax vel sinn rétt. Um var að ræða réttindi til handa feðrum til að vera í fæðingarorlofi með börnunum sínum en um leið aukinn réttur mæðra til að rækja sín erindi í samfélaginu.“

Síðustu 14 ár starfsævinnar var Sigríður Lillý forstjóri Tryggingastofnunar. „Ég lærði strax í æsku að Tryggingastofnun væri ein mikilvægasta stofnun velferðarsamfélagsins. Sem forstjóri lagði ég áherslu á aukna þjónustu og rafrænar lausnir. Með rafrænni þjónustu er hægt að bæta þjónustuna við alla, líka þau sem ekki geta eða vilja nýta sér rafræn samskipti því það vinnst þá tími til að sinna þeim betur eftir öðrum leiðum.“

Samhliða launavinnu var Sigríður Lillý um langt árabil virk í margvíslegri mannréttindabaráttu með ýmsum samtökum s.s. eðlisfræðingum gegn kjarnorkuvá og Samtökum kvenna á vinnumarkaði. „Ég hélt á stofnfundinum mína fyrstu opinberu ræðu.“ Hún var einn stofnenda UN Women, varaþingmaður Kvennalistans og formaður Kvenréttindafélagsins. Hún sat í ýmsum stjórnum, ráðum og nefndum tengdum baráttumálunum og einnig vegna starfa sinna.

„Mitt helsta áhugamál hefur verið að vinna í höndunum. Mamma var þar mín fyrirmynd með öllum sínum hannyrðum. Ég hef samhliða námi og vinnu farið á mörg myndlistanámskeið, í Myndlistaskólanum í Reykjavík, listaskóla í Stokkhólmi, í Frakklandi og svo vann ég stórt verk með steinhöggvurum í Pietra Santa á Ítalíu. Ég hef haft af þessu mikið gaman og nú mála ég helst hvern dag og nýt þess. Ég syng svo með góðum hópi kvenna undir stjórn Margrétar Pálmadóttur og á meiri tíma með barnabörnunum sem er frábært.

Mesta hamingjan í lífinu er hve heppin ég er með fjölskyldu, eiginmann, börn, tengdabörn og barnabörn. Þau eru það besta sem mér hefur hlotnast.“

Fjölskylda

Eiginmaður Sigríðar Lillýjar er Skúli Bjarnason, f. 15.12. 1953, hæstaréttarlögmaður. Þau eru búsett í Grafarvogi, Reykjavík. Foreldrar Skúla voru hjónin Guðrún Helga Kristinsdóttir, f. 15.2. 1923, d. 13.10. 1966, húsmóðir, og Bjarni Júlíusson, f. 15.11. 1925, d. 1.3. 2020, iðnrekandi. Þau voru búsett í Reykjavík.

Börn Sigríðar Lillýjar og Skúla eru 1) Erla f. 27.4. 1975, lögfræðingur, gift Ólafi Ragnari Helgasyni tölvunarverkfræðingi. Synir þeirra eru Emil, f. 15.8. 2004, og Erlingur, f. 2.9. 2007. Þau búa í Grafarvoginum; 2) Helga Margrét, f. 10.5. 1979, hjartalæknir, gift Baldvin Þór Bergssyni varafréttastjóra RÚV. Dætur þeirra eru Soffía Sigríður, f. 12.11. 2015, og Erla María, f. 19.9. 2017. Þau búa í Fossvoginum; 3) Benedikt, f. 20.7. 1984, forstjóri og hjólaverkfræðingur, kvæntur Ragnheiði Jónsdóttur, íslenskufræðingi og rithöfundi. Börn þeirra eru Einar, f. 16.10. 2016, og Lilja, f. 28.11. 2019. Þau búa í Harrisonborg í Bandaríkjunum.

Bræður Sigríðar Lillýjar eru Hilmar Baldursson, f. 9.6. 1952, fyrrv. lögmaður, býr í Kópavogi, og Sveinn Ásgeir Baldursson, f. 21.6. 1956, rafvirki, býr í Grafarvoginum.

Foreldrar Sigríðar Lillýjar voru hjónin Erla Margrét Ásgeirsdóttir, f. 29.10. 1928, d. 11.5. 2007, verslunarkona og saumakennari, og Baldur Sveinsson, f. 4.4. 1929, d. 25.5. 2000, kennari. Þau voru búsett í Vogahverfinu í Reykjavík.