Langstökk Daníel Ingi Egilsson var þremur sentímetrum frá því að komast í úrslit á sínu fyrsta stórmóti í frjálsum íþróttum í Róm á Ítalíu í gær.
Langstökk Daníel Ingi Egilsson var þremur sentímetrum frá því að komast í úrslit á sínu fyrsta stórmóti í frjálsum íþróttum í Róm á Ítalíu í gær. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FH-ingurinn Daníel Ingi Egilsson var þremur sentímetrum frá því að komast í úrslit í langstökki á Evrópumótinu í frjálsíþróttum í Róm á Ítalíu í gær. Daníel þreytti frumraun sína á stórmóti í gær og var hársbreidd frá því að ná glæsilegu afreki, sætinu í úrslitum

EM 2024

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

FH-ingurinn Daníel Ingi Egilsson var þremur sentímetrum frá því að komast í úrslit í langstökki á Evrópumótinu í frjálsíþróttum í Róm á Ítalíu í gær.

Daníel þreytti frumraun sína á stórmóti í gær og var hársbreidd frá því að ná glæsilegu afreki, sætinu í úrslitum.

Einn fór yfir Íslandsmetið

Daníel stökk lengst 7,92 metra, en tveggja vikna gamalt Íslandsmet hans er 8,21 metri. Aðeins einn stökkvari stökk lengra en það í undanúrslitum, Svisslendingurinn Simon Ehammer, og hefði Íslandsmetið því auðveldlega dugað Daníel inn í úrslitin.

Ehammer stökk lengst 8,41 metra, sem er lengsta stökk ársins í Evrópu í karlaflokki. Var hann með yfirburði í undanúrslitum. Tólf efstu stökkvararnir komust í úrslit og varð Daníel að gera sér að góðu 15. sæti af 29 keppendum. Úrslitin fara fram í dag, laugardag.

Íslandsmetið hefði dugað

Erna Sóley Gunnarsdóttir úr ÍR varpaði kúlu lengst 16,26 metra, en hún hefði þurft að kasta 17,02 metra til að fara í úrslit. Íslandsmet Ernu er 17,39 metrar og hefði hún því einnig komist í úrslit með sínum besta árangri. Varð hún í 19. sæti af 25 keppendum.

ÍR-ingurinn keppti einnig á EM innanhúss í mars og hafnaði þá í 14. sæti með kast upp á 17,07 metra.

Úrslitin fóru svo fram í gærkvöldi og þá bar Jessica Schilder frá Hollandi sigur úr býtum með kast upp á 18,77 metra. Jorinde van Klinken, einnig frá Hollandi, varð í öðru sæti með 18,67 metra kast og Yemisi Ogunleye frá Þýskalandi kastaði 18,62 metra og varð í þriðja sæti.

Eitt gilt kast Guðna

Guðni Valur Guðnason úr ÍR náði sér ekki almennilega á strik í kringlukasti. Guðni gerði aðeins eitt gilt kast en það mældist 59,15 metrar.

Íslandsmet Guðna er 69,35 metrar og var hann því langt frá sínu besta. Endaði Guðni í 24. sæti af 30 keppendum.

Slóveninn Kristjan Ceh fagnaði sigri í úrslitum sem fóru fram í gærkvöldi. Hann kastaði lengst 68,08 metra. Lukas Weisshaidinger frá Austurríki varð annar með kast upp á 67,7 metra og Mykolas Alekna frá Litháen hafnaði í þriðja sæti og fékk brons er hann kastaði lengst 67,48 metra.

Hilmar stígur á svið

Ísland á einn fulltrúa í dag, laugardag. Hilmar Örn Jónsson stígur þá á svið í sleggjukasti. Hilmar keppti einnig á EM í München fyrir tveimur árum, komst í úrslit og hafnaði í 12. sæti.

Hilmar á fína möguleika á að endurtaka leikinn en samkvæmt heimasíðu Evrópska frjálsíþróttasambandsins er Hilmar 18. sterkasti keppandinn sem tekur þátt á mótinu í Róm.

Eins og greint er betur frá í fréttinni fyrir neðan keppa þær Elísabet Rut Rúnarsdóttir og Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir í sleggjukasti á sunnudag.

Spjótkastararnir Dagbjartur Daði Jónsson og Sindri Hrafn Guðmundsson keppa síðastir Íslendinga á þriðjudag þegar undanúrslitin fara fram. Úrslitin í spjótkastinu eru síðan á miðvikudag.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson