Ragnheiður Hermannsdóttir fæddist 15. maí 1949. Hún lést 29. maí 2024.

Útför Ragnheiðar fór fram 6. júní 2024.

Í dag kveðjum við með sorg í hjarta okkar kæru vinkonu Ragnheiði Hermannsdóttur.

Á kveðjustund er okkur efst í huga þakklæti fyrir öll þau ár og áratugi sem við höfum fengið að njóta með henni Ragnheiði. Það eru forréttindi að hafa átt hana að vinkonu. Hún var hjartahlý manneskja og hafði einstaka næmni fyrir líðan fólks. Ef eitthvað bjátaði á þá var hún fyrst á vettvang, styðjandi og umvefjandi. Ragnheiður var góður og fróður ferðafélagi. Hún var náttúruunnandi og hafsjór þekkingar um flóru landsins og á gönguferðum okkar um landið þekkti hún hverja plöntu sem á vegi okkar varð.

Ragnheiður var einstaklega lífsglöð og skemmtileg kona, bæði skapandi og uppátækjasöm. Hún var líka uppistandari og sögumaður af bestu gerð. Hún heimfærði skemmtisögur sínar gjarnan upp á ákveðna einstaklinga sem könnuðust ekki við að hafa tekið þátt í þeim uppátækjum sem hún kenndi þeim. Oft vitnaði hún í Baldur frænda, sem fáir vissu hver var, en þekktu af afspurn. Hún byrjaði oft, eða endaði, krassandi frásagnir sínar á: „Eins og Baldur frændi sagði.“ Brandarar úr vestfirska sjómannablaðinu gátu líka orðið kveikja að ógleymanlegum sögum og uppákomum. Ekki síst þar sem okkar vinkona var vönduðust og prúðust kvenna.

Með einstökum húmor tókst Ragnheiði svo vel að gera hversdaginn skemmtilegan. Við minnumst ferða okkar innanlands sem utan þar sem gleðin var við völd og gjörningar vinkonu okkar nutu sín vel. Happdrætti með kostulegum vinningum var einn þeirra viðburða sem hún stóð fyrir í hverri ferð. Á ferðalagi vestur á Ísafjörð var að vonum rætt um vegakerfið á Vestfjörðum. Til að gera ferðina bærilega sá Ragnheiður til þess að við vinkonurnar, sem vorum farþegar í bílnum, fengjum eitt staup af Gammel dansk þegar malbikið endaði og svo annað þegar það kom aftur í ljós. Skemmst er frá því að segja að við hættum fljótlega að fjasa yfir vegunum fyrir vestan.

Mannkærleikur og húmor einkenndu vinkonu okkar Ragnheiði Hermannsdóttur. Þessi gildi endurspegluðust í lífsstarfi hennar sem kennari yngstu grunnskólabarnanna. Hún var farsæll kennari og námsefnishöfundur. Hún elskaði starfið sitt og börnin sem hún umgekkst af virðingu og kærleika. Kímnigáfan nýttist henni vel í starfi, ekki síst þegar leysa þurfti ágreining eða það sem einhverjir myndu kalla agavandamál. Þær aðferðir sem hún hafði á valdi sínu er ómögulegt að kenna. Hún var að okkar mati besti barnakennari landsins. Því voru fleiri sammála, bæði nemendur hennar og foreldrar. Árið 2010 voru henni veitt Íslensku menntaverðlaunin fyrir að hafa búið fjölmörgum börnum þroskavænlegt umhverfi og stuðlað að lífshamingju þeirra og velferð.

Það fer enginn í sporin hennar Ragnheiðar. Við munum sakna gæsku hennar og umhyggju. Við munum sakna kímninnar og allra uppátækjanna sem við glöddumst endalaust yfir. Minning hennar mun lifa með okkur.

… til góðs vinar

liggja gagnvegir

þótt hann sé firr farinn.

(úr Hávamálum)

Við vottum þeim Magnúsi, Bergþóru, Jóhannesi og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.

Anna, Árný, Erna, Friðný, Jóhanna, Kristín Björk, Lilja og Þuríður.

Vinkona, ást og áhugasemi eru á meðal þeirra orða sem koma upp í hugann þegar við vinkonur Bergþóru hugsum um Ragnheiði.

Samband Ragnheiðar við börnin sín, Bergþóru og Jóhannes, var dásamlegt og fengum við vinkonurnar innsýn í náið samband þeirra mæðgna þegar við kynntumst allar í MH. Ragnheiður var þannig gerð að ást hennar og hlýja náði einnig til okkar vinkvennanna, barna okkar og alls okkar fólks.

Hlýleikinn sem streymdi frá Ragnheiði var nánast áþreifanlegur og birtist til dæmis í því hvernig heimili hennar og Magnúsar, Kleifarvegurinn góði, stóð öllum opið. Jafnan var opið út á tröppur, þar var rauða mjúka teppið á ganginum, fallega stofan á sínum stað, listaverk og fjölskyldumyndir á öllum veggjum og veitingar aldrei langt undan. Magnús kannski inni í stofu með gítarinn að kalla á okkur að koma inn að syngja á meðan Ragnheiður gekk á milli okkar, faðmandi okkur og spyrjandi frétta. Hún vildi allt um okkur vita, studdi þegar á þurfti að halda með græðandi orðum og fagnaði innilega þegar við átti.

Samband hennar og Magnúsar var einstakt, vináttan og ástin sem á milli þeirra ríkti var falleg og sönn. Þau höfðu unun af því að ferðast, rækta garðinn sinn og hlúa að heimili sínu hvort sem var á Kleifarveginum eða Minna-Mosfelli þar sem þau bjuggu sér til dásamlegan bústað nú í seinni tíð.

Skyndilegt fráfall elsku Ragnheiðar er mikið áfall fyrir alla sem hana þekktu en mestur er missir Magnúsar, Bergþóru, Jóhannesar, Berglindar og barnabarnanna. Við trúum því að sú djúpa ást sem ríkti á milli þeirra allra fari hvergi og lifi áfram. Þannig getur hún veitt þeim huggun í þeirri þungu sorg sem nú ríkir í lífi þeirra. Megi guð styrkja þau og alla sem elskuðu Ragnheiði.

Blessuð sé minning elsku hjartans Ragnheiðar okkar.

Inga María Leifsdóttir, Júlía Margrét Alexandersdóttir, Lára Björg Björnsdóttir.

Á snöggu augabragði

af skorið verður fljótt,

lit og blöð niður lagði,

líf mannlegt endar skjótt.

Þessar ljóðlínur Hallgríms Péturssonar komu upp í hugann er við fréttum skyndilegt andlát kærrar vinkonu okkar, Ragnheiðar Hermannsdóttur. Örfáum dögum áður fögnuðum við saman með henni tvöföldu afmæli og þá var hún hrókur alls fagnaðar. Ragnheiður var sannkallaður gleðigjafi á fjölmörgum gleðistundum sem við áttum saman með henni og Magnúsi. Hún var eiginlega alltaf í stuði eins og sagt er á góðu máli. Við höfum notið vinskapar Ragnheiðar og Magnúsar í áratugi, og á þann vinskap hefur aldrei fallið blettur. Það er því með sárum söknuði að við kveðjum Ragnheiði nú, eins ótímabært og það er.

Elsku Magnús, Bergþóra, Jóhannes og fjölskyldur. Okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra.

Stefán og Þórunn.

Það er mikil gæfa í lífinu að eignast góða vini. Ef vinirnir hverfa á braut óvænt vegna dauðsfalla lifir eftir það sársauki og eftirsjá. Þessa reynslu höfum við hjónin fengið eftir að Ragnheiður Hermannsdóttir féll frá vegna skyndilegra veikinda. Fréttirnar voru óvæntar.

Ragnheiður og Magnús Jóhannesson maður hennar voru meðal okkar bestu vina. Þau kynni hafa staðið um árabil, en hófust er okkur bauðst að koma inn í gönguhóp sem fór árlega til Austurríkis í fjallgöngur. Þá voru þau nýliðar í hópnum eins og við. Þessi gönguhópur samanstóð af góðum vinum okkar og sú vinátta hefur þróast í gegnum árin í Austurríki og hér heima. Þau hjónin Magnús og Ragnheiður höfðu einstaklega góða nærveru, glaðlynd og þægileg í alla staði. Nú er skarð fyrir skildi en minningarnar lifa. Minningarnar um Ragnheiði eru samofnar birtu og víðsýni sem finna má í fjallstindum Alpafjallanna og í íslenskri náttúru því hópurinn okkar eyddi einnig árlega langri helgi í ferðalögum og styttri gönguferðum um landið okkar.

Ævistarf Ragnheiðar var kennsla og um hana í því starfi nægir að vitna til eins vinnufélaga míns sem átti börn í skóla hjá henni. Hann lét svo ummælt að hún væri hrein töfrakona í kennslu. Við erum þess fullviss að það voru orð að sönnu.

Við Margrét hugsum með djúpri samúð til Magnúsar vinar okkar og fjölskyldunnar hans þessa dagana. Þeirra missir er mestur. Magnús hefur verið í erfiðum störfum um dagana bæði hér heima og erlendis og komið var að þeim tímamótum að hægt var að verja tímanum í eigin þágu og sinna maka og fjölskyldu. Það má segja í þessu sambandi með Ragnheiði að enginn ræður sínum næturstað.

En minningarnar lifa. Minningarnar um góðar stundir á glæsilegu heimili þeirra á Kleifarveginum og vinafundi hér og þar á landinu. Þær minningar eru dýrmætar um góðar stundir með góðu fólki.

Á okkur leitar á þessum dögum þetta erindi úr Hávamálum:

Deyr fé

deyja frændur

deyr sjálfur ið sama

en orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

Blessuð sé minning Ragnheiðar Hermannsdóttur.

Margrét Einarsdóttir, Jón Kristjánsson.

Ég var lánsöm að fá að kynnast Ragnheiði þegar ég fór að starfa hjá umhverfisráðuneytinu fyrir um aldarfjórðungi. Magnús eiginmaður hennar og lífsförunautur var þar ráðuneytisstjóri. Ég hef oft hugsað til þess síðar hversu mikið gæfuspor þetta var fyrir mig á svo margan hátt.

Ég gerði mér fljótt grein fyrir að Magnús væri lánsamur maður, hann átti hreint dásamlega eiginkonu, hana Ragnheiði. Þau voru sálufélagar og bestu vinir, hún var kletturinn hans, stoð og stytta. Ragnheiður hafði einstakt lag á að gera góðlátlegt grín að eiginmanni sínum með sínum fallega og hárbeitta húmor. Samrýmdari og skemmtilegri hjón eru vandfundin. Það var alltaf ljúft að vera með þeim, finna þessa virðingu og hlýju á milli þeirra en líka alltaf stutt í það spaugilega. Að heimsækja Ragnheiði og Magnús á Kleifarveginn var tilhlökkunarefni, þétt faðmlag, hlýja og sprell og svo ekki sé minnst á söng og gítarspil. Minningar streyma fram um allar góðu stundirnar með þeim hjónum og góðum vinum.

Það er erfitt að lýsa Ragnheiði í fáum orðum, hún hafði svo mikla mannkosti, yndisleg eiginkona, mamma og amma, kennari af guðs náð sem gaf endalaust af sér til annarra. Hún var mannvinur sem sá það jákvæða í fari hvers og eins og nálgaðist það erfiða með skopskyni, hnyttni og hlýju.

Síðasta stundin mín með Ragnheiði var svo einkennandi fyrir hana. Við höfðum hist í ræktinni og hún kom til mín eftir tímann og tók hlýtt utan um mig eins og alltaf og óskaði mér til hamingju með ömmubarnið og sagði að þetta væri það besta, með sínu ljúfa og fallega brosi.

Ég er þakklát að hafa fengið að kynnast Ragnheiði, hún skilur eftir sig fjársjóð til allra þeirra sem fengu að njóta hennar og margt má af henni læra.

Elsku Magnús og fjölskylda, hjartans samúðarkveðjur frá okkur Villa, minning um yndislega konu lifir.

Sigríður Auður.

Skammt er síðan við hittum Ragnheiði síðast á heimili hennar í tilefni af afmæli bóndans hennar. Þangað var fjölskyldu og vinum boðið til fagnaðar með rausnarlegum veitinum, söng og gleði og hlýju gamni. Ragnheiður, glæsileg og falleg, fagnaði gestum af þeirri hlýju umvefjandi gæsku sem merkti viðmót hennar allt og gott var að finna og sjá, þá sem endranær, einlæga ást og samhug þeirra hjóna sem helgað hefur samleið þeirra og framgöngu í gegnum tíðina. Nú, þegar hryggðin slær og sorgin beygir herðar, er gott að eiga þá björtu og gleðiríku mynd.

Fundum okkar Ragnheiðar bar fyrst saman þegar undirrituð tók við embætti umhverfisráðherra í ríkisstjórn Íslands, en eiginmaður hennar, Magnús Jóhannesson, var þá ráðuneytisstjóri. Kynni af þeim hjónum urðu strax afar góð, samstarfið í ráðuneytinu einstakt og samskipti öll á þann veg að úr varð traust og einlæg vinátta æ síðan.

Við leiðarskil verða ljóslifandi margar góðar minningar af vinafundum og af mörgu er að taka. Heimboð á fallegt heimili þeirra í Laugarásnum, með öðru, þar sem efnt var til þorrablóts með kjarnmiklum heimagerðum vestfirskum eðalréttum og viðeigandi mungát. Heimsókn í sumarhús þeirra hjóna í Grímsnesinu þar sem þau hafa skapað sér unaðsreit á fögrum stað. Móttökurnar jafnan einstakar og ógleymanlegar og ríkar af einlægri gleði gestgjafanna og skemmtilegheitum. Einnig áttum við þess kost að ferðast saman til fjarlægra landa og þá er ómetanlegt þakkarefni að eiga ferðafélaga sem gera alla daga bjartari og betri.

Ragnheiður var greind kona, vel menntuð og fróð, viðræðugóð, heillandi og skemmtileg. Viðmót hennar einstaklega hlýtt og gefandi svo streymdi frá henni gæska og gleði. Athygli hennar einlæg og áhugi og hún bjó yfir einstöku næmi á líðan og framgöngu vina sinna og viðmælenda. Það reyndum við hjónin ríkulega þegar áföll riðu yfir í okkar lífi. Þá var gott að reyna hlýja og kærleiksríka samkennd og umhyggju. Slíkt vinarþel verður aldrei fullþakkað.

Sumarið á erfitt uppdráttar þessi köldu dægur sem nú líða hjá. Skikkan skaparans færir okkur þá vissu að um síðir mun birtan og hlýjan ná undirtökum og hin íslenska náttlausa voraldar veröld tekur völdin í náttúrunnar ríki. Á slíkri tíð hverfur elskuleg vinkona veraldlegum sjónum. Minning hennar er björt og hlý. Megi sú fagra minning sigra myrkur sorgar og saknaðar er tímar líða.

Við hjónin þökkum einstök kynni, vináttu og trúnað og samleið góðra daga og biðjum góðan Guð að blessa eiginmann og börn, fjölskyldur þeirra og ástvini alla og gefa huggun og styrk

Guð blessi minningu Ragnheiðar Hermannsdóttur.

Sigríður Anna Þórðardóttir,
Jón Þorsteinsson.

Ragnheiður Hermannsdóttir kennari varði starfsævinni við Æfingaskóla Kennaraháskólans, síðar Háteigsskóla. Hún var snjall kennari. Sagt hefur verið að kennsla sé öðrum þræði list. En til að listþráðurinn njóti sín þarf hann að vera samofinn öðrum þráðum svo sem traustri þekkingu á börnum, viðfanginu og aðstæðum. Ragnheiður hlaut íslensku menntaverðlaunin árið 2010 sem forseti Íslands veitti fyrir farsælt ævistarf.

Ragnheiður annaðist einkum kennslu yngstu barnanna, sem komu í skólann full eftirvæningar og haldin eðlislægri forvitni.

Ragnheiður mótaði viðmót og vinnulag sem kom til móts við þessar þarfir. Vinnubrögð hennar einkenndust af festu og hlýju og börnin skynjuðu þetta og fundu öryggi umlykja sig.

Ragnheiður hafði gjarnan þann hátt á að hefja daginn með samverustund þar sem rætt var um landsins gagn og nauðsynjar. Þá söfnuðust börnin saman í samveruhorninu og sátu í þéttum hnapp á gólfinu. Kennarinn stjórnaði samræðum og lagði áherslu á að börnin tjáðu sig frjálst og óþvingað. Sjálf talaði hún þannig við börnin að þeim fannst þau vera jafningjar hennar. Hún vann markvisst að því að auka orðaforða þeirra og efla félagsþroska og samskiptahæfni. Börnin voru opinská og komu oft með frásagnir af sér og sínum sem voru býsna persónulegar. Kennarinn átti oft erfitt með að „halda andlitinu“ þegar frásagnargleðin tók völdin.

Ragnheiður og Gunnhildur Óskarsdóttir samkennari okkar, sem einnig er látin, sömdu námsefni; Komdu og skoðaðu … þar sem lögð er áhersla á hugtakaskilning sem er órjúfanlegur hluti lesskilnings. Námsefnið hefur notið mikilla vinsælda.

Ragnheiður var virðuleg í fasi. Hún var brosmild og stutt var í gamansemina. Hún var góður vinnufélagi og vinur.

Ég kveð Ragnheiði Hermannsdóttur með þakklæti fyrir samveruna og samstarfið og þykist vita að undir það taki samferðafólk í Æfingaskólanum sem deildi þar kjörum, frábær hópur sem bjó við þröngar aðstæður sem aldrei voru látnar hindra framsækið starf.

Magnúsi og fjölskyldu vottum við Margrét innilega samúð.

Ólafur Helgi Jóhannsson, fyrrverandi skólastjóri.

Það var glampandi sólskin og fallegt um að litast við tjörnina í Reykjavík laugardaginn 25. maí sl. þegar árgangurinn frá 1969 í Menntaskólanum í Reykjavík hélt upp á 55 ára stúdentsafmælið í Iðnó. Þar var Ragnheiður bekkjarsystir okkar með okkur og fagnaði tímamótunum brosandi og kát og lék á als oddi. Nokkrum dögum síðar var hún öll og söknuður fyllir hug og hjarta okkar bekkjarsystranna.

Bekkurinn okkar, 6.A, var máladeildarbekkur. Hann var stór, við vorum 26 í bekknum, við komum víða að frá mörgum skólum og héldum hópinn í þrjú ár. Í 4. bekk vorum við til húsa í Þrúðvangi við Laufásveg, fallegu húsi með fáum bekkjardeildum í notalegum samskiptum við Þorgerði sem sá um hússtjórn. Þar myndaðist góð stemning og manni finnst maður ennþá finna indælu kaffilyktina úr eldhúsinu hjá henni Þorgerði. Góðir dagar.

Bekkurinn var að smella saman og hver hafði sinn karakter. Ragnheiður var skemmtilegur bekkjarfélagi, uppátektasöm og fyndin og margt var brallað. Seinna kryddaði hún svo framboðsmál í Menntaskólanum í Reykjavík með því að bjóða sig fram í embætti inspector platearum (hringjara skólans) sem var þá nýlunda að kona gerði og þótt hún hlyti ekki embættið var framtakið gott.

Minnisstæð er líka fimmtabekkjarferðin til Hornafjarðar vorið 1968 þegar ekið var yfir óbrúaðar ár í stórbrotinni náttúrunni með hafís úti fyrir landi.

Minningarnar spretta upp og laða fram bros á vör mitt í sorginni.

Þau eru orðin nokkuð mörg stúdentsafmælin sem við höfum haldið upp á í gegnum árin og Ragnheiður var dugleg að taka þátt í alls konar uppákomum með okkur bekkjarsystrum í tilefni þeirra. Það voru t.d. tekin dansspor á einu afmælinu og rifjuð upp menntaskólaleikfimin með skoska hoppinu í Skíðaskálanum í Hveradölum.

Eftir stúdentspróf stundaði Ragnheiður nám við Kennaraháskóla Íslands. Kennsla og gerð námsefnis varð hennar ævistarf og það með svo góðum árangri að hún var heiðruð fyrir.

Nú er komið að leiðarlokum og við bekkjarsystur Ragnheiðar þökkum fyrir samveruna með henni og sendum Magnúsi og fjölskyldunni innilegustu samúðarkveðjur.

F.h. 6.A 1969,

Aðalbjörg Jakobsdóttir.

„Minningar, sem tala máli hins liðna, eru dýrmætur fjársjóður þeirra sem góðar eiga.“

Öðru sinni á skömmum tíma er reitt hátt til höggs í okkar fámenna hópi. Enn á ný kveðjum við yndislega vinkonu eftir ríflega hálfrar aldar kynni.

Hún kom í heiminn í maímánuði, þeirri árstíð, sem að öllu jöfnu fyllir hjörtu okkar eftirvæntingu og von og færir okkur sívaxandi birtu og yl, þegar allt er að blómgast og rísa til fegurðar. Hún var sannkölluð sumargjöf.

Og nú yfirgefur hún jarðvistina á þeim sama tíma árs eftir fallegt ævistarf.

Léttleiki, gleði, gamansemi, listfengi og skemmtileg tilsvör – taktar, Heiðargerðisandblærinn. Það birti til í veröldinni.

Hópurinn okkar myndaðist á unglingsárunum eftir sumarvinnu hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, Stöðinni, enda Ragnheiður alin upp við mikinn skógræktaráhuga. Átta ungar stúlkur, hvaðanæva af landinu, ólíkar um margt, að byrja að feta sig inn í fullorðinsveröld.

Sönn vinátta skapaðist (að ekki sé minnst á öll handgerðu listaverkin) og hefur æ síðan eflst og þroskast á einkar skemmtilegan hátt.

Í önnum og amstri lífsins eru verkefnin mörg og af ýmsum toga, en strengurinn er sterkur, og síðastliðið ár treystist vináttan til muna. Hópurinn orðinn brigdeklúbbur og mikið spilað og spjallað. Ævintýraferðin síðastliðið sumar til Laufeyjar í Borgarfjörðinn var okkur öllum til mikillar gleði.

Stórt skarð verður ekki fyllt, en allar góðu minningarnar munu hjálpa okkur að yfirvinna söknuðinn.

Við kveðjum kæra vinkonu og þökkum fyrir samfylgdina.

Magnúsi og fjölskyldu sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Anna Karlsdóttir,

Guðný Eiríksdóttir,

Aðalbjörg Jakobsdóttir,
Hanna Þórarinsdóttir, Laufey Hannesdóttir,
Valgerður Björnsdóttir.

Ég kynntist Ragnheiði fyrir mörgum árum þegar við unnum saman við kennslu við Æfingadeild Kennaraskólans við Háteigsveg.

Við skólann störfuðu úrvalskennarar, en segja má að Ragnheiður hafi verið meðal þeirra fremstu í þeim frábæra hópi.

Hún var einstakur kennari og tvímælalaust einn af þeim bestu sem ég kynntist á mínum kennaraferli.

Ragnheiður hafði mikla útgeislun og einstakt lag á öllum nemendum sínum. Hún hafði til að bera mikinn þokka og skopskynið sem hún beitti óspart á kennarafundum vakti ætíð mikla kátínu í okkar hópi.

Við hjónin minnumst ánægjulegrar heimsóknar Ragnheiðar og Magnúsar til Helsinki þar sem Ragnheiður var sem oftar í essinu sínu, leiftrandi og skemmtileg. Í samtali okkar í maí sl. ákváðum við að við skyldum hittast í sumar og rifja upp gamlar minningar frá kennsluárunum. Það er þyngra en tárum taki að af þeim fundi verður ekki og sannarlega er nú mikil sorg og söknuður í brjóstum allra sem henni kynntust yfir að Ragnheiður skuli hafa kvatt okkur svona skyndilega og í raun allt of snemma.

En bjartar minningar um einstaka konu, kennara og samferðamann lifir og yljar okkur öllum sem hana þekktum um ókomin ár.

Ég votta Magnúsi og börnum þeirra hjóna mína dýpstu samúð.

Ásthildur S. Rafnar.

Ragnheiður Hermannsdóttir var einstök kona og það er þyngra en tárum taki að henni auðnaðist ekki lengra líf.

Ég naut þeirra forréttinda að eiga hlýja vináttu Ragnheiðar og Magnúsar. Það er svo dýrmætt að vita alltaf hvar vinirnir eru og njóta ástúðar þeirra og kærleika. Ragnheiði var annt um vini sína og hún tók virkan þátt í lífi mínu og dætra minna.

Ragnheiður hafði hrífandi nærveru og mannkostir hennar voru miklir. Fáum hef ég kynnst sem kunni betur listina að lifa vel. Brennandi áhugi á lífinu, umhyggja og lífsgleði eru eðliskostir sem leggja grunn að gæfuleið og traustum framtíðarvegi. Þá kosti hafði Ragnheiður í ríkum mæli. Hún var líka svo frumleg og skapandi – sá oft önnur og ný sjónarmið. Ómetanlegt frumkvöðulsstarf hennar í kennslu naut þessara eiginleika. Hún hafði djúp áhrif á líf okkar.

Ragnheiður var gæfusöm. Hún naut lífsins og það var alltaf skemmtilegt í návist hennar. Gleðistundir á heimilum þeirra Magnúsar, ferðir um Ísland og önnur lönd, óvæntar gæðastundir lífsins. Alltaf kom maður betri og glaðari af hennar fundi.

Dýrmætar minningar sem hún skilur eftir sig gefa styrk í djúpri sorg. Hún ræktaði og verndaði sitt fólk takmarkalaust.

Elsku Magnús, Bergþóra, Jóhannes og fjölskyldan öll. Þið voruð mikilvægasta ástríðan í lífi Ragnheiðar. Ég votta ykkur einlæga samúð.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Við höfum þekkt Ragnheiði í rúm fjörutíu ár, eða frá því að hún bað Orra um „að passa hann Jóhannes aðeins“ fyrir sig. Nafnarnir og jafnaldrarnir voru fimm ára, á skólaskemmtun í Æfingaskólanum þar sem Orri og Bergþóra voru saman í umsjónarbekk Ragnheiðar. Hjartans vinirnir Jóhannes Páll og Orri Páll hafa passað hvor upp á annan síðan þá.

Eftir því sem tíminn leið víkkaði vináttustrengurinn; amma Lauga okkar Orra skúraði kennslurými Ragnheiðar svo árum skipti og mjög kært varð á milli kennarans og skúringakonunnar. Amma Bergþóra var svo í sérstöku uppáhaldi hjá Orra. Mamma, líka kennari í hálfa öld, og Ragnheiður eignuðust sína sjálfstæðu vináttu í gegnum strákana og samkennara sína og við Bergþóra útskrifuðumst sama vorið frá Listaháskólanum og fjölskyldan mín fékk að fljóta með í útskriftarfögnuðinn á Kleifarvegi. Því þangað eru alltaf allir velkomnir og alltaf pláss fyrir fleiri í hjartanu og heimilinu sem Magnús og Ragnheiður deildu í áratugi.

Vinátta kynslóðanna er magnað fyrirbæri og vinátta heilu fjölskyldnanna sömuleiðis. Frá því að Orri passaði Jóhannes um árið höfum við fengið að fagna og syrgja með fjölskyldunni á Kleifarvegi; kveðja ömmur, gifta okkur sjálf og fæða og ferma börnin okkar. Nú kveðjum við Ragnheiði og munum sakna hennar sárt.

Ég átti ekki heimangengt á útfarardaginn og fylgdi því vinkonu minni og mömmu vina minna ekki síðasta spölinn. Fyrir hönd okkar allra, Orra bróður míns og Sigrúnar mömmu minnar, þakka ég af öllu hjarta velviljann og væntumþykjuna, gleðina og gæfuna sem það er og hefur verið að eiga vináttu þessa góða fólks. Elsku Magnúsi, ömmustelpunum, Bergþóru, Jóhannesi og Berglindi sendi ég hjartans vinarkveðjur.

Tinna Jóhannsdóttir.