Spurt og svarað Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er nýjasti gestur Spursmála og ræðir þar meðal annars stöðuna á stjórnarheimilinu.
Spurt og svarað Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er nýjasti gestur Spursmála og ræðir þar meðal annars stöðuna á stjórnarheimilinu. — Morgunblaðið/María Matthíasdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hyggst koma mikilvægum lagafrumvörpum til endanlegrar afgreiðslu í þinginu áður en það heldur í langþráð sumarfrí. Þetta fullyrðir hann í ítarlegu viðtali í Spursmálum sem aðgengileg eru á mbl.is og öllum helstu hlaðvarpsveitum

Spursmál

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hyggst koma mikilvægum lagafrumvörpum til endanlegrar afgreiðslu í þinginu áður en það heldur í langþráð sumarfrí. Þetta fullyrðir hann í ítarlegu viðtali í Spursmálum sem aðgengileg eru á mbl.is og öllum helstu hlaðvarpsveitum.

„Við viljum ná sem mestum árangri í þessum málum. Það er ekki venjan að öll mál ríkisstjórnar klárist alltaf en við teljum mörg mál langt komin. Ef við tökum hælisleitendamálin þá er það mál komið aftur út í þriðju umræðu eftir að hafa í tvígang farið í nefnd þannig að það er bara á lokametrunum. Sem er gríðarlega mikilvægt, þetta er stórt mál, hefur verið umdeilt en er eitt af höfuðmálum þessarar ríkisstjórnar að klára núna ásamt því að fara í heildrænni stefnu,“ segir Bjarni.

„Ég er að vona að við klárum t.d. öryrkjamálið sem er risakerfisbreyting. Lagareldismálið er á viðkvæmum tímapunkti, það er verið að takast á um einstaka breytingar þar. Við klárum útlendingamálin, við erum að klára kerfisbreytingarnar í orkumálunum, það er fjármálaáætlunin, þetta eru stóru málin sem liggja fyrir þessu þingi og mörg til viðbótar. En ég er bjartsýnn á að þetta þing fari ágætlega,“ bætir Bjarni við.

Ekki eins og í fyrra

Hann fullyrðir að þingið nú verði ekki eins endasleppt og í fyrra þegar meirihlutinn lauk þingstörfum í ósætti með mörg mál. Segir Bjarni að það hafi ekki verið góður endir á þinginu og að mikil og góð vinna hafi farið þar forgörðum.

Bjarni tók við forystu ríkisstjórnarinnar við brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur úr pólitík. Hann segir stjórnina enn hafa erindi gagnvart samfélaginu, jafnvel þótt áherslumunur sé milli flokka. Þegar hann er t.d. spurður út í neikvætt viðhorf VG til virkjanamála fullyrðir hann að samstarfsflokkurinn sé fylgjandi grænni orkuframleiðslu. Raunar segir hann að mál tengd frekari orkuuppbyggingu hafi tafist vegna áherslu VG á að vanda mjög til leyfisveitingarferlis á mörgum stigum.

Í þættinum er Bjarni spurður út í þann seinagang sem vart hefur orðið við útgáfu veiðileyfis til handa Hval hf. en Hafrannsóknastofnun hefur gefið út leyfi til veiða á allt að 160 langreyðum í sumar. Segist Bjarni ekki ætla að taka fram fyrir hendurnar á nýjum matvælaráðherra. „En mér hefur fundist þetta taka of langan tíma. „Það hefur ekki hjálpað að fyrrverandi forsætisráðherra þyrfti að taka vaktaskiptin tímabundið en ég skal vera hreinn og beinn með það að mér hefur þótt þetta mál taka alltof langan tíma, ég er ekki ánægður með stjórnsýsluna hvað það varðar [...] mér finnst það hafa tekið of langan tíma en við skulum gefa ráðherra tækifæri til að ljúka afgreiðslu málsins.“

Lögregla þarf heimildir

Athygli vakti þegar æstur múgur gerði tilraun til þess að hefta för ráðherra í ríkisstjórn Íslands í liðinni viku. Bjarni Benediktsson var ekki á fundi og það var Sigurður Ingi Jóhannsson, sem er staðgengill hans við slíkar aðstæður, ekki heldur. Af þeim sökum stýrði Guðmundur Ingi Guðbrandsson formaður VG fundi. Í kjölfar þess að lögregla beitti piparúða á mótmælendur sem ekki hlýddu fyrirmælum beindi Guðmundur Ingi þeim tilmælum til ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins að farið yrði ofan í saumana á viðbrögðum lögreglu. Bjarni fer varlega í að tjá sig um þá uppákomu og telur að eftirlitsnefnd með störfum lögreglu þurfi að fá svigrúm til að meta það sem þarna fór fram. Hann segir þó að ekki sé hægt að kalla þau mótmæli friðsöm þar sem fyrirmælum lögreglu sé ekki fylgt.

Hann segir sömuleiðis að fyrirliggjandi frumvarp til breytinga á lögum um valdheimildir lögreglu sé mikilvægt. Hér á landi megi greina vaxandi umsvif erlendra glæpahópa sem þurfi að stemma stigu við og að lögregla þurfi heimildir til þess. Hann segist á sama tíma gjalda varhug við lögum sem gangi á rétt borgaranna í landinu.

Miðla þarf staðreyndum

Hann bendir á að þingmenn fái í mörgum tilvikum upplýsingar á vettvangi nefnda þingsins um það hvað í raun sé að gerast í undirheimum Íslands en að þær upplýsingar rati alltof sjaldan í hendur almennings. Þar með geti kjósendur ekki lagt mat á eða gert kröfu til sinna kjörnu fulltrúa um að þeir bregðist við með viðeigandi hætti til þess að koma í veg fyrir uppgang samtaka sem með ólöglegri starfsemi sinni vilja skara eld að eigin köku og ógna öryggi borgaranna.

Höf.: Stefán E. Stefánsson