Gengi íslensku krónunnar hefur verið nokkuð stöðugt það sem af er ári. Horfur eru á hóflegri styrkingu næstu misserin en hátt raungengi eykur líkur á veikingu þegar fram líða stundir. Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að krónan verði um það bil…

Gengi íslensku krónunnar hefur verið nokkuð stöðugt það sem af er ári. Horfur eru á hóflegri styrkingu næstu misserin en hátt raungengi eykur líkur á veikingu þegar fram líða stundir.

Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að krónan verði um það bil 5% sterkari í lok spátímans en hún var í árslok 2023. Slíkt myndi jafngilda því að evran kostaði um það bil 143 krónur. Þetta er nokkru minni styrking en bankinn spáði áður sem helgast ekki síst af heldur dekkri horfum um útflutningsvöxt.

Helstu óvissuþættir varðandi gengisþróunina eru hvernig spilast úr ferðaþjónustunni á komandi misserum. Í greiningunni segir að standi útflutningstekjur í greininni í stað eða dragist saman í ár frá þeim tæpu 600 mö.kr. sem hún aflaði í fyrra þá minnki að sama skapi líkur á styrkingu á komandi fjórðungum og líkur á einhverri veikingu hennar á komandi vetri verði meiri. Auk þess er hefðbundin óvissa um þróun útflutnings- og innflutningsverðs og flæði vegna fjárfestinga og lánshreyfinga milli landa.