Ólafur Marteinsson
Ólafur Marteinsson
Niðurstaða með ferðar Samkeppniseftirlitsins á máli Samherja og Síldarvinnslunnar … ber öll þess merki að Samkeppniseftirlitið sé enn á þeirri vegferð sem fv. matvælaráðherra markaði.

Ólafur Marteinsson

Það er ekki nýtt að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sameini krafta sína í markaðsmálum. Ávinningurinn af því er augljós; fyrirtækjunum tekst betur til í harðri alþjóðlegri samkeppni við sölu á sjávarafurðum, þeim tekst frekar að mynda verðmæt sambönd við stærri viðskiptavini, tryggja dreifingu og afhendingu á afurðum, ásamt því að ná hærra verði fyrir íslenskt sjávarfang.

Hvorki íslensk stjórnvöld né ríkisstofnanir hafa í gegnum tíðina haft nokkuð við þetta að athuga, miklu frekar velþóknun. Þekkt dæmi frá fyrri tíð þar sem íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi leiddu saman hesta sína í markaðs- og sölufyrirtækjum var til dæmis Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda.

Í dag eiga mörg sjávarútvegsfyrirtæki í samstarfi í gegnum sölufyrirtæki svo betur megi sækja fram með íslenskar sjávarafurðir á erlendum mörkuðum. Iceland Seafood hefur til dæmis náð frábærum árangri á Spánarmarkaði og Iceland Pelagic, sem er í eigu uppsjávarfyrirtækja, selur framleiðslu þeirra á mörkuðum í Austur-Evrópu. Mörg önnur dæmi má nefna um samstarf og sameiginlegt eignarhald af þessu tagi. Sem fyrr er hagurinn augljós fyrir fyrirtækin og þjóðarbúið allt – hærra verð fæst fyrir íslenskar sjávarafurðir í útlöndum.

Síðla árs árið 2023 gengu Samherji og Síldarvinnslan frá kaupum þess síðarnefnda á 50% hlut í markaðs- og sölufyrirtækinu Ice Fresh Seafood. Fram kom í tilkynningu Síldarvinnslunnar að tilgangur kaupanna væri að komast lengra inn í virðiskeðjuna og nær neytendum á erlendum mörkuðum. Efnislega er þetta sami tilgangur og hjá fyrirtækjunum sem nefnd eru hér að framan.

Samkvæmt lögum eru viðskipti sem þessi háð samþykki Samkeppniseftirlitsins, þó svo að sala afurðanna fari nær eingöngu fram í útlöndum. Efnisöflun Samkeppniseftirlitsins í málum sem þessum, þar sem sala vörunnar er hartnær 100% erlendis, ætti að vera einföld og afgreiðsla málsins að taka stuttan tíma. En það var ekki raunin í nefndu tilviki.

Fyrrverandi matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, gerði verktakasamning við Samkeppniseftirlitið í þeim tilgangi að vinna að pólitískum hugðarefnum sínum. Það kom enda á daginn að sá samningur var ólöglegur. Þegar úrskurðurinn um ólögmæti hans lá fyrir lýsti Samkeppniseftirlitið því yfir að engu að síður yrði haldið áfram með verkefnið þó svo að ekki kæmu verktakagreiðslur fyrir viðvikið. Það má telja sérstaka stjórnsýslu.

Niðurstaða meðferðar Samkeppniseftirlitsins á máli Samherja og Síldarvinnslunnar, sem varða viðskipti með hlutabréf í markaðsfyrirtækinu Ice Fresh Seafood, ber öll þess merki að Samkeppniseftirlitið sé enn á þeirri vegferð sem fyrrverandi matvælaráðherra markaði.

Ef afstaða stjórnvalda er enn sú að það sé í allra hag að sjávarútvegsfyrirtæki sameini krafta sína við sölu íslenskra sjávarafurða á erlendum mörkuðum og nái þannig betri árangri í harðri alþjóðlegri samkeppni, þá væri réttast af þeim að koma þeim skilaboðum til stofnana sinna. Nú er mál að linni.

Höfundur er formaður SFS.

Höf.: Ólafur Marteinsson